Ég er búin að vera að bíða með restina af ferðasögunni þar til ég fengi myndir frá hinum í ferðinni því ég var svo ódugleg að taka þær sjálf, en það virðist ætla að dragast og ég vil punkta þetta niður fyrir sjálfa mig áður en ég gleymi alveg hvað gekk á. Svo engar almennilegar myndir...
Dagur 3: Fyrsta heimsóknin okkar var í höfuðstöðvar NATO, sem komu á óvart aðallega fyrir lélegan arkitektúr. Þetta var eins og að keyra (eftir svaaakalegt öryggistékk í kuldanum) inn í austur-evrópska martröð. Seinna var okkur sagt að byggingarnar eru gamall geðspítali (sem útskýrir líklega gluggaleysið, bólstruðu veggina og spennitreyjurnar. Allt í lagi, gluggaleysið. Og litlu hárgreiðslustofuna)... Við löbbuðum í ferlega fínni, einfaldri röð, mjög óíslenskt, vegna þess að einhver fór að grínast með að það væru leyniskyttur á svæðinu sem plöffuðu niður þá sem ekki héldu sig snyrtilega í röðinni sinni. Við hlógum móðursýkislega og einbeittum okkur, fínni röð hef ég aldrei séð (enda var enginn skotinn á leiðinni).
Fyrsti fyrirlesarinn var bandarískur maður, mjög skemmtilegur en frekar lítið á honum að græða þar sem hann kom aðallega með staðlaðan kynningaráróður, borinn fram með perluhvítu brosi og bröndurum á réttum stöðum.
Næstur í röðinni var Tyrki sem hélt frábæran fyrirlestur um helstu aðgerðir NATO, sem ég gæti sagt meira frá ef ég hefði ekki verið að einbeita mér að því að kafna eins hljóðlega og ég gæti í eigin hósta. Ég dó næstum, en boj ó boj hvað ég hefði dáið hljóðlega. Svona er maður vel uppalinn.
Þá var komið hádegishlé, og af því túlkarnir eru með samning uppá einn og hálfan tíma í mat þá fara allir í svo langan mat með þeim, því ekki viljum við að NATO offiserar fari að misskilja hvern annan og allt fari í bál og brand yfir málfræðirugli meðan túlkarnir gúffa í sig einum af sex réttum sem voru í boði þennan daginn. Ég kaus pasta, sem var svo vel útilátið að þessi eini og hálfi tími nægði mér ekki til að klára það. Það sveltur enginn í NATO.
Við ultum aftur inn í gluggalausa salinn okkar til að heyra belgíska konu halda frábæran fyrirlestur um hlutverk NATO í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ótrúlega merkilegt alltsaman.
Þá hinsvegar fór að syrta í álinn. Við marseruðum á fund íslensku sendinefndarinnar, með miklar væntingar eftir frábæra dagskrá. Það sem við fengum voru hinsvegar þrír menn sem hlógu að spurningunum okkar og svöruðu þeim með yfirlæti og áhugaleysi. Við vorum frekar svekkt þegar okkur var smalað þaðan út (og ég var pínu sjóveik því einn strákurinn í hópnum hristi á sér fótinn allan fundinn), en það entist ekki lengi því sendiherrann hafði boðið okkur heim til sín í kokteil og þau hjónin eru sko ekki sjabbí gestgjafar. Það var svoleiðis borið í okkur mat og drykk, (humarsúpan, naaaaaaaaaamm!) og þau hjónin spjölluðu við okkur um allt sem við gátum mögulega viljað vita með bros á vör. Við rúlluðum þaðan út (sumir vegna vínsins, aðrir vegna matarins...) sæl og glöð og sööödd. Við gerðum svo eitthvað meira um kvöldið en það getur ekki verið merkilegt þar sem ég man ekkert hvað það var. Enda pínu létt eftir allt vínsullið...
miðvikudagur, apríl 05, 2006
Brussel - dagur 3
Birt af Unnur kl. 01:16
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli