þriðjudagur, apríl 25, 2006

Öðruvísi eins

Þegar ég var 10 ára og að flytja í nýtt hús með foreldrum mínum þá heyrði ég þau einn daginn ræða það hvernig grindverk þau langaði að setja í kringum nýja garðinn okkar, eitthvað víravirki með grjóthnullungum minnir mig. Þar sem ljósin okkar voru þegar úr bremsurörum úr bíl og gólfið handmálað af íbúunum í allskonar undarlegum mynstrum þá fannst mér nóg komið af undarlegheitunum, fór að skæla og spurði foreldra mína hvort við gætum aldrei gert neitt eins og venjulegt fólk bara, hvort allt þyrfti alltaf að vera skrýtið. Það held ég samt að sé í eina skiptið sem mér hefur gramist það að foreldrar mínir skulu hafa húmor fyrir því sem er öðruvísi og óhefðbundið. Ég fór að hugsa um það um daginn hvað ég er heppin að hafa alist upp við það viðhorf að það sem er framandi og öðruvísi en ég þekki það sé spennandi og áhugavert en ekki rangt og hættulegt. Ég hef nefnilega á tilfinningunni að það hafi gefið mér töluvert meira umburðarlyndi gagnvart heiminum en ég hefði annars haft, og hæfileikann til að geta allavega stundum munað að það séu tvær hliðar á málunum og mín reynsla og skoðun á hlutunum sé ekki endilega sú eina rétta. Og ég er þakklát fyrir það. Annars kynni ég sennilega ekki að meta nýju, skrýtnu sokkana mína:

Engin ummæli: