þriðjudagur, desember 30, 2003

Þá er ég komin heim aftur, merkilegt hvað það er alltaf yndislegt að stíga yfir þröskuldinn heima hjá sér. Verst að nú er svo mikill snjór í götunni minni að ég kemst ekki út aftur, en ef maður ætlar að vera strand einhversstaðar er best að það sé á manns eigin heimili en ekki flugvellinum á Akureyri eins og allt stefndi í áðan. Þetta var frekar skrautlegt ferðalag hjá okkur í dag. Fyrst snéri vélin sem var á leiðinni að sækja okkur á Vopnafjörð við vegna þess að það gleymdist að setja í hana sæti (!!!), svo vorum við strandaglópar á Akureyri í nokkra tíma áður en við hringsóluðum yfir Reykjavík ferlega lengi meðan verið var að hreinsa mesta snjóinn af flugbrautinni. Huggulegt. Við hristumst alveg ferlega í rokinu yfir borginni en við mamma hugguðum okkur við það að þeir gætu ekki látið okkur hrapa, ekki með allt þetta fræga fólk í vélinni. Þetta var algert Séð & Heyrt blað bara, Jón Gnarr, Logi Bergmann (með skvísuna sína sem ég man aldrei hvað heitir) og Jónsi svartklæddi. Ég hef nú aldrei verið neinn ákafur aðdáandi þess síðastnefnda, hélt hann hlyti að vera á lyfjum fyrst hann var alltaf svona kátur, en ég verð nú að gefa honum það kredit að hann var mjög aðlaðandi svona í eigin persónu, ferlega huggulegur og kom vel fyrir bara. Svona getur sjónvarpið blekkt okkur skítugan almúgann.

fimmtudagur, desember 25, 2003

Hjá stóra brósa var vistin góð, ég er svakalega glöð að hafa gefið mér tíma til að heimsækja þau. Skotturnar tvær eru algerir snillingar, ekki amalegt að vakna við það að tvær hlýjar prinsessur skríða undir sængina manns og knúsa mann. Við púsluðum, skreyttum og sungum hástöfum og nú verð ég að læra að setja inn myndir svo ég geti sýnt ykkur ferðamyndirnar, sem eru algert æði :) Við Nonni brölluðum líka ýmislegt, drukkum bjór (aldrei gert það saman áður) með frekar sorglegum árangri, ég skaut af byssu (út í loftið auðvitað, Unnsa litla grænfriðungur) keyrði traktor og rifjaði upp vináttu mína við sauðkindina, sem er auðvitað vanmetnasti snillingur landsins fyrr og síðar. Átti semsagt að skilja þær kollóttu frá þeim hyrndu en eins og flestir líklega vita vantar á þær handföngin svo ég sýndi frekar skrautleg tilþrif, greinilega orðin ryðguð í þessarri list.
Nú er ég stödd í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa á Bakkó, þar sem ég virðist aldrei geta borðað nóg. Fékk auðvitað fullt af góðum gjöfum sem ég ætla ekki að telja upp hér. Kem svo heim 29. og hlakka ferlega til að hafa tíma í jólafríinu til að hitta vini mína sem ég hef vanrækt gróflega síðustu mánuði, er í óða önn að skipuleggja fríið og áramótin, þetta verður svaka stuð :) Hugsið til mín í útlegðinni!

Gleðilega hátíð kæru jólapésar og afsakið fjarveruna :) Ég var nú í fyrstu háskólaprófunum og frekar upptekin við að reyta hár mitt og skegg! Og það er stranglega bannað að spyrja mig hvernig gekk en blóm og kransar sendist heim til mín sem fyrst... Úff, tímamót í lífi Unnsu litlu, féll í fyrsta prófinu mínu og það er ofmetin reynsla, hafði enga ánægju af því. Mín eina sjálfselska huggun er sú að ég féll allavega ekki ein, og langt frá því! Faaaaaallin, með fjóra komma níu, lalalalalalalala... Æ, það hlaut að koma að því, ég verð bara að rífa mig upp og reyna að standa mig betur í vor. Enda kannski erfitt að gera verr... Úps...
Á laugardaginn var svo tekið til við að fagna því að ósköpunum væri lokið, og það tókst alveg með ágætum, þrátt fyrir ofþreytu og spennufall. Ég var krýnd kvenmeistari í Trivial (reyndar víst ekki mjög erfiður titill að ná...) og dansaði hallærislega við hallærispésana Gullfoss og Geysi. Reyndi svo að heilsa uppá eiginmanninn með litlum árangri, fraus svo og sá mér þann kost vænstan að skríða undir sæng um sjöleytið, og kúra mig þar í nokkra (les. alltof fáa) tíma áður en ég varð að fara að kaupa jólagjafir handa liðinu. Það gerði ég svo hálfsofandi, úfin og angandi af annarra manna sígarettureyk á þeim aðdáunarverða tíma tveim klukkustundum, allt í Máli og Menningu og Hagkaupum. Takk fyrir mig! Skutlaðist heim, pakkaði niður, kvaddi köttinn og rauk af stað til Egilsstaða að rækta fjölskylduböndin. Á leiðinni ræddi ég við sagnfræðinema um ástandið í Írak og Afganistan, með smá stoppi í Ísrael og Palestínu og voru það án efa innihaldsríkustu "in-flight" samræður sem ég hef átt hingað til. Úff, þetta er svo langt að ég skipti þessu bara í fleiri pósta. Frh...

þriðjudagur, desember 09, 2003

Ég vil gjarnan þakka honum Gunnsa listaspíru fyrir að gera á föstudaginn heiðarlega tilraun til að gera líf mitt ögn menningarlegra svona í skammdeginu. Skemmtileg sýning fyrsta árs nema í Listaháskólanum, ekki að ég hafi skilið helminginn af þessu en var samt mjög gaman að sjá hvað allir hinir eru að gera, maður er búinn að liggja í hálfgerðum félagslegum dvala. :) Verkið hans Gunna fannst mér svalt, sá það strax í hendi mér að hér væri líka komið einstakt tækifæri fyrir mig. Hann var nefnilega búinn að útbúa svona lítið herbergi sem er auðvitað mikið nær öllu en herbergið mitt í Mosó, svo Gunni minn, er séns að ég fái að leigja þetta hjá þér í vetur?...

laugardagur, desember 06, 2003

Bíllinn minn er ágætis félagi minn, við skiljum hvort annað yfirleitt og gerum okkar besta til að láta hvoru öðru líða vel (fyrir utan að ég hef ekki þvegið hann að utan síðan við kynntumst...). Ég hélt við þekktumst bara vel, þar til sú skýjaborg hrundi í morgun. Bíllinn minn er ósyndur. Alveg. Breikaði alla leið í bæinn svo meistaralega að hvaða ´88 töffari sem er hefði verið stoltur af. Ég var hinsvegar ekki stolt, hikstaði og hoppaði á 60 allan Vesturlandsveginn og stækkaði aðdáandahópinn minn lítið við athæfið. Vona að það verði ekki rigning í fyrramálið...

föstudagur, desember 05, 2003

Hvað er fólk eiginlega að hugsa að sýna öðru fólki sem er ekki ÉG tillitsemi í umferðinni þegar ÉG er einmitt að flýta mér í skólann eftir að vekjaraklukkan MÍN svaf yfir sig! Ég um mig frá mér til mín, muna það fólk!!! Iss...

miðvikudagur, desember 03, 2003

Það eru áreiðanlega ekki margir sem eiga eftir að hafa vit á að gleðjast yfir nýjustu uppgötvun minni en hér er hún samt: Ég er búin að finna á netinu mestu snilld sem ég veit til að hafi verið gerð í jóladagataladeild heimsins! The Julekalender!!! Munið ekki, þar sem nissarnir tala hálfpartinn dönsku og hálfpartinn ensku og skemmtilega púkó fjölmenningarleg tónlistaratriði inn á milli? Yndislegt, vei! Er að hlaða því inn á tölvuna í þessum töluðu, hlakka ekkert smá til að setjast niður eftir próf og góna á þetta. Takk Annelise fyrir að deila þessu með íslensku moldbúunum :)

Ég fór semsagt á tónleika MS kórsins míns gamla á föstudaginn og það var bara mjög ánægjulegt. Dagskráin var næstum nákvæmlega sú sama og í "gamla daga" sem gerði þetta þess mun skemmtilegra því maður gat raulað inní sér með öllum lögunum og endurupplifað "ísí písí" menntó. Komst að því að þetta var alls ekki svo slæmur tími, fyrir utan kannski gluggatjöldin og lyktina... Nokkrir höfðu líka gengið ennþá lengra en ég í að reyna að ímynda sér að þeir væru menntskælingar og sungu einfaldlega með, hátt og snjallt. Mér fannst það svalt hjá þeim, um að gera. Og ekki má gleyma að Ingunn spilaði undir af alkunnri snilld og sýndi þar að auki ógleymanlega takta í miðasölunni! En merkilegustu athugun kvöldsins átti án efa Gunni: ,,Ætli þau séu að safna fyrir ferð til Póllands?" Rétt´upp hönd sem kannast við þetta! :)