Gleðilega hátíð kæru jólapésar og afsakið fjarveruna :) Ég var nú í fyrstu háskólaprófunum og frekar upptekin við að reyta hár mitt og skegg! Og það er stranglega bannað að spyrja mig hvernig gekk en blóm og kransar sendist heim til mín sem fyrst... Úff, tímamót í lífi Unnsu litlu, féll í fyrsta prófinu mínu og það er ofmetin reynsla, hafði enga ánægju af því. Mín eina sjálfselska huggun er sú að ég féll allavega ekki ein, og langt frá því! Faaaaaallin, með fjóra komma níu, lalalalalalalala... Æ, það hlaut að koma að því, ég verð bara að rífa mig upp og reyna að standa mig betur í vor. Enda kannski erfitt að gera verr... Úps...
Á laugardaginn var svo tekið til við að fagna því að ósköpunum væri lokið, og það tókst alveg með ágætum, þrátt fyrir ofþreytu og spennufall. Ég var krýnd kvenmeistari í Trivial (reyndar víst ekki mjög erfiður titill að ná...) og dansaði hallærislega við hallærispésana Gullfoss og Geysi. Reyndi svo að heilsa uppá eiginmanninn með litlum árangri, fraus svo og sá mér þann kost vænstan að skríða undir sæng um sjöleytið, og kúra mig þar í nokkra (les. alltof fáa) tíma áður en ég varð að fara að kaupa jólagjafir handa liðinu. Það gerði ég svo hálfsofandi, úfin og angandi af annarra manna sígarettureyk á þeim aðdáunarverða tíma tveim klukkustundum, allt í Máli og Menningu og Hagkaupum. Takk fyrir mig! Skutlaðist heim, pakkaði niður, kvaddi köttinn og rauk af stað til Egilsstaða að rækta fjölskylduböndin. Á leiðinni ræddi ég við sagnfræðinema um ástandið í Írak og Afganistan, með smá stoppi í Ísrael og Palestínu og voru það án efa innihaldsríkustu "in-flight" samræður sem ég hef átt hingað til. Úff, þetta er svo langt að ég skipti þessu bara í fleiri pósta. Frh...
fimmtudagur, desember 25, 2003
Birt af Unnur kl. 23:32
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli