föstudagur, mars 31, 2006

Brussel - dagur 2

Dagur 2: Eini dagurinn sem ekki var skipulögð dagskrá. Margir í hópnum fengu áfall og skipulögðu sína eigin dagskrá, þétta og krefjandi, en fjórar okkar lifðu hættulega og skipulögðu ekki neitt.
Okkur tókst að týnast (svo nálægt hótelinu að við hefðum getað snert það með útréttri hönd:
Og ég borðaði snigil (ég er hetja!) í rómantískri stemmningu á torgi (Note to self: Dömur gapa ekki eins og gúbbífiskar þegar þær borða á torgum):

þriðjudagur, mars 28, 2006

Brussel - dagur 1

Stutta útgáfan: Ég fór til Brussel. Það var gaman.
Langa útgáfan:
Dagur 1: Hressleikinn var í sögulegu lágmarki þegar ég mætti flensumettuð á flugvöllinn um sexleytið á laugardagsmorgni. Hressleikinn náði svo nýju sögulegu lágmarki í rútunni á leiðinni frá Amsterdam til Brussel, eftir að við þurftum að bíða í klst. eftir töskunum okkar á flugvellinum. Það gladdi rútubílstjórann okkar ekkert sérstaklega að bíða og hann neitaði í hefndarskyni að stoppa í búð svo við gætum borðað eitthvað. Þá náði meðal-blóðsykurinn í ferðinni sínu sögulega lágmarki. Ég get líka sparað einhverjum heilmikið gláp útum glugga með því að upplýsa ykkur um það að á leiðinni frá Amsterdam til Brussel er ekkert að sjá nema hljóðdeyfandi veggi. Og þar með lauk þeim hluta ferðarinnar sem ekki var frábær, og við tók fræðandi skemmtiefni og skemmtilegt fræðiefni, og bara endalaus gleði og yndislegheit. Við hentum farangrinum inn á hótelið okkar, sem var á besta stað í miðbæ Brussel, og fórum svo öll saman, 21 stykki, að borða á stað sem mig minnir að heiti Bonsoir Clara. Þetta var í fyrsta og síðasta skipti sem ég fer með svona stórum hóp út að borða. Maturinn var góður en ég held ég hafi séð þjóninn brotna niður og gráta rétt áður en hurðin lokaðist á eftir okkur. Við röltum þaðan yfir á Los Romanticos, sveittan salsa stað, þar sem við lærðum að dansa salsa við pínu gamla og/eða pínu lúðalega bjúrókrata sem dilla sér til að gleyma. Það var ofsa gaman, týndum að vísu einni dömu og önnur sagði herramanni í hópnum að hann "vissi ekki neitt og væri ekki neitt", en allt í allt bara hressandi kvöld. Ég sofnaði allavega glöð og kát á sófanum mínum.

Hm. Þessi ferðasaga verður líklega í pörtum, nennir enginn að lesa svona mikið í einu. Ok, voilá, þetta var semsagt dagur 1. Ooog myndir koma seinna.

föstudagur, mars 17, 2006

Þessi fyndna

Í Mogganum á miðvikudaginn var birt sú skoðun blaðamanns að ég sé fyndin stelpa. Því er ég hjartanlega sammála og hvet alla til þess að líta í blaðið, lesa gagnrýnina fyrir "Í beinni" og sjá það svart á hvítu að ég er víst fyndin. Farið svo að hlæja að bröndurunum mínum ormarnir ykkar.
Á morgun kveð ég köttinn og legg af stað til Brussel, þar sem ég ætla að freista þess að vera fyndin á fleiri tungumálum. Ég læt Moggann vita hvernig gengur.

föstudagur, mars 10, 2006

Við Pam

Ég renndi andlitinu á mér í gegnum þetta forrit (hugmynd stolið af síðu hjá Halla hennar Mangóar, sem ég þekki ekki en hafði vit á að byrja með Mangó og er því í góðu bókunum mínum) og af öllum 3200 frægu andlitunum í gagnagrunninum þeirra reyndist ég líkjast Pamelu Anderson mest. Frábært. Það þýðir að strákarnir í níunda bekk höfðu rétt fyrir sér, sem er ógnvekjandi og svekkjandi tilhugsun. Í öðru sæti voru svo Mai Kuraki (sem er hver?) og Amanda Peet. Renée Zellwager var hvergi sjáanleg á listanum mínum, svo injófeis allir sem hafa sagt að við séum líkar. Hah.
Heimavinnan ykkar er að hlaða inn ykkar eigin mynd og segja mér í kommenti hverjum þið líktust mest. Prittí plís...
Hér eru allavega mína týndu systur:

fimmtudagur, mars 09, 2006

Fansípents

Uppgötvun dagsins: Það eru strangar kröfur um klæðaburð í Brusselferðinnni. Dragt á stelpurnar og jakkaföt á strákana, alla dagana nema casual sunday, og væntanlega vonandi dagana sem við komum og förum (ég held að líkurnar á því að deyja í flugvél aukist í línulegu hlutfalli við fjölda farþega í formlegum klæðnaði). Það þýðir fimm dagar í dragt. Göreit. Hér eru vandamálin sem það skapar, í tilviljanakenndri röð:
- Ég er álíka há og skyr.is drykkjarskyrsdós, og dragtir eru álíka fínar á mér og á þeim.
- Ég á eina dragt,
sem ég nota við útskriftir og jarðarfarir, atburði sem endast vanalega ekki í fimm daga svo ég sá það ekki sem stórt vandamál þegar ég keypti hana að hún átti til að krumpast örlítið. Pant ekki taka straujárn með til útlanda.
- Handleggur og fótleggur er of hátt verð til að greiða fyrir flík sem þú lítur út eins og skyr.is drykkjarskyrsdós í.
- Það er ekki toppurinn að vera í teinóttu. Ekki frekar en stórir strákar fá raflost. Popparar ljúga.
Ég man ekki alveg hvert ég var að fara með þessu, en ég þarf semsagt að kaupa mér dragt. Góð saga.

sunnudagur, mars 05, 2006

Óþekkar húsmæður

Alveg leið mér eins og stjörnu í myndinni Naughty Housewives Gone Wild áðan þegar ég var að hamast við að skrúbba gólfið mitt með tusku og tók eftir því að a) bolurinn minn var ekki lengur hnepptur og b) brjóstahaldarinn minn er greinilega númeri of lítill. Athyglisvert. Beið og beið eftir að óþekki píparinn og/eða pítsasendillinn mætti en þeir létu ekki sjá sig.
En já, athugun dagsins er að Teri Hatcher og Yzma eru alveg eins. Kannski finnst engum það fyndið nema mér en það er líka alveg nóg!

laugardagur, mars 04, 2006

Lifi einstaklingsframtakið

Þegar ég var í vinnunni á fimmtudaginn kom ný sending. Ekki í kassa sem þarf að taka uppúr og setja á herðatré eins og venjulega heldur kom þessi vara bara gangandi inn og hoppaði sjálf uppí hillu. Sem sparaði mér heilmikla vinnu. Eftir einhverja stund sá varan að hún var á lítt söluvænum stað í búðinni svona í neðstu hillunni og flutti sig um set yfir á mitt gólf, í sokkakörfuna. Maður þarf ekki einu sinni að hafa áhyggjur af útstillingunum lengur, þetta sér um sig sjálft. Ekki kvarta ég, meira nethangs fyrir mig.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Blaður

Það er eitthvað við fyrstu línuna í Fix You með Coldplay, sem er svo einfalt en samt svo sorglegt að mig langar alltaf að verða dramatísk og fara að skæla þegar ég heyri hana. "When you try your best but you don´t succeed". Því það ætti að vera bannað. Að gera sitt besta og mistakast samt. Í góðum amerískum bíómyndum gerist það til dæmis aldrei, þá er nóg að bíta á jaxlinn og gera sitt besta og þá gengur allt upp. Raunveruleikinn þarf að ráða sér betri handritshöfund. Það er tvennt í stöðunni; að gera sitt besta og taka sénsinn á að mistakast samt, og verða þá að játa sig algerlega sigraðan, eða að gera ekki alveg sitt besta, auka líkurnar á að mistakast en geta þá allavega sannfært sjálfan sig um að það hefði tekist hefði maður gert sitt besta. Af tvennu illu held ég að það sé skömminni skárra að tækla hlutina með fyrri aðferðinni. Verst að ég held mér hætti til að detta í þá seinni. Ég gæti það sko alveg ef ég vildi það, ég bara vil það ekki. Right.
Svakalega verð ég hástemmd svona á kvöldin þegar mér er of kalt til að geta sofnað! Brr.
Afsakið klisjurnar kjúklingarnir mínir, en þetta gerist nú ekki oft.