þriðjudagur, mars 28, 2006

Brussel - dagur 1

Stutta útgáfan: Ég fór til Brussel. Það var gaman.
Langa útgáfan:
Dagur 1: Hressleikinn var í sögulegu lágmarki þegar ég mætti flensumettuð á flugvöllinn um sexleytið á laugardagsmorgni. Hressleikinn náði svo nýju sögulegu lágmarki í rútunni á leiðinni frá Amsterdam til Brussel, eftir að við þurftum að bíða í klst. eftir töskunum okkar á flugvellinum. Það gladdi rútubílstjórann okkar ekkert sérstaklega að bíða og hann neitaði í hefndarskyni að stoppa í búð svo við gætum borðað eitthvað. Þá náði meðal-blóðsykurinn í ferðinni sínu sögulega lágmarki. Ég get líka sparað einhverjum heilmikið gláp útum glugga með því að upplýsa ykkur um það að á leiðinni frá Amsterdam til Brussel er ekkert að sjá nema hljóðdeyfandi veggi. Og þar með lauk þeim hluta ferðarinnar sem ekki var frábær, og við tók fræðandi skemmtiefni og skemmtilegt fræðiefni, og bara endalaus gleði og yndislegheit. Við hentum farangrinum inn á hótelið okkar, sem var á besta stað í miðbæ Brussel, og fórum svo öll saman, 21 stykki, að borða á stað sem mig minnir að heiti Bonsoir Clara. Þetta var í fyrsta og síðasta skipti sem ég fer með svona stórum hóp út að borða. Maturinn var góður en ég held ég hafi séð þjóninn brotna niður og gráta rétt áður en hurðin lokaðist á eftir okkur. Við röltum þaðan yfir á Los Romanticos, sveittan salsa stað, þar sem við lærðum að dansa salsa við pínu gamla og/eða pínu lúðalega bjúrókrata sem dilla sér til að gleyma. Það var ofsa gaman, týndum að vísu einni dömu og önnur sagði herramanni í hópnum að hann "vissi ekki neitt og væri ekki neitt", en allt í allt bara hressandi kvöld. Ég sofnaði allavega glöð og kát á sófanum mínum.

Hm. Þessi ferðasaga verður líklega í pörtum, nennir enginn að lesa svona mikið í einu. Ok, voilá, þetta var semsagt dagur 1. Ooog myndir koma seinna.

Engin ummæli: