Í dag komst ég að því að ef maður fær tannkrem í augað þá finnur maður bragðið af því eftir smástund. Hið merkilegasta mál. Mæli samt ekki með því að fólk prófi, komast líka að því í dag að það er mjög óþægilegt að fá tannkrem í augað. Allavega tannkremið með tópas-bragðinu.
Ég er hálfgerður lasinpési þessa dagana, klikkaði einhvern veginn allt á sama tíma, en er öll að skríða saman held ég. Og farin að geta gengið aftur, sem er vel. Annar fóturinn á mér ákvað um daginn að hætta að virka, af engri sýnilegri ástæðu, en við áttum alvarlegt samtal í gærkvöldi ("annaðhvort ferð þú að virka aftur eða ég læt taka þig af") og ég er ekki frá því að ég sé skárri í dag.
Þessi síðasta helgi mín í Strass er búin að vera ótrúlega skemmtileg, ég lenti nefnilega á fimmtudaginn í partíi með finnsku íshokkíliði og hef ekki skilið það við mig síðan. Þeir eru náttúrulega nett-bil allir eftir öll þessi höfuðhögg, en ferlega skemmtilegir engu að síður, þetta er svolítið eins og að vera í hóp af stórum bræðrum. Mjög indælt. Sem innvígsluathöfn var ég að vísu látin þefa innanúr hokkíhanska, en þar sem ég er með þetta fína franska kvef þá gat ég þefað af miklum tilþrifum við gífurlegan fögnuð viðstaddra, án þess að finna einu sinni snefil af lykt. Mjög patent. Ég komst líka að því að þegar maður er veikur og vantar mömmu sína til að hjúkra sér, þá er finnskt íshokkílið algjörlega næstbesti kosturinn í stöðunni, pakka manni inní fullt af flísteppum, færa manni te með hunangi og klappa manni á kollinn. Hvern hefði grunað?
sunnudagur, ágúst 19, 2007
Norræn samhjálp
fimmtudagur, ágúst 16, 2007
Ása og Dabbi í Strass
Ég er algjörlega að koma upp um krónísku bloggletina mína með því að birta endalausar myndir alltaf. En hér koma myndir frá því Ása fyrst og svo Dabbi voru í heimsókn. Ég er alltaf að bíða eftir að Ása sendi mér myndirnar sem hún tók hérna því mig grunar að þær séu fleiri og betri en mínar en það strandar greinilega á einhverju (mögulega því að ég hef ekki beðið hana um þær ennþá né sent henni myndirnar sem ég tók. Bara gisk) svo þessar verða bara að duga.
Við vorum samt smástund að fullkomna tæknina sem þurfti til að taka myndir af okkur saman án aðstoðar þriðja aðila, þetta er td mynd af okkur Ásu: Svo stakk Ása af til strákanna sinna á Íslandi og Dabbi tók við gestahlutverkinu í viku eða svo. Hann er mjög afslappaður gestur með gluggablæti:Hann var líka heillaður af skipastigum:Og af bjór:Við Dabbi eigum það einmitt sameiginlegt að myndast alveg sérstaklega vel:
Sumarið hefði ekki verið samt án gestanna minna fínu, var endalaust hlegið og blaðrað og borðað og drukkið og blaðrað meira, ótrúlega ljúft alveg. Takk fyrir komuna!!
miðvikudagur, ágúst 15, 2007
10, 9, 8, 7...
Þá eru bara 10 dagar eftir af Frakklandsvistinni í þetta sinn. Ég get ekki beðið eftir að komast heim, hitta fjölskyldu og vini og fara að dunda við nýju íbúðina. Og byrja að æfa aftur, og hætta á einhæfa ostaograuðvíns-prógramminu... En á sama tíma þá á ég eftir að sakna Strass alveg ferlega, sem er reyndar frábært á sinn hátt því það sýnir mér bara hvað ég er búin að njóta þess að vera hérna síðasta árið. Það eina sem mig langar að gera þessa síðustu 10 daga er að sitja í glugganum mínum fína og horfa á borgina yfir ána og hlusta á túristana iða á bryggjunni. Ég vildi að ég gæti tekið gluggann með mér.
mánudagur, ágúst 06, 2007
Fyrst spænska lögreglan og nú sú franska...
19 dagar í heimkomu og allt að gerast, er allt í einu að kynnast fullt af skemmtilegu fólki hérna og svona, enda dæmigert þegar maður er alveg að fara að yfirgefa svæðið... Lenti bæði á fimmtudags- og laugardagskvöldið í óvæntum partýum með yndislegu fólki sem ég þekkti ekki neitt en fannst ég umkomulaus ein á kaffihúsum og dró mig með sér. Á fimmtudagskvöldið var teitið reyndar leyst upp af óeirðalögreglunni svo sennilega voru impromptu trompettónleikar húsráðanda illa til fundnir, svona í miðju íbúðahverfi, en það þýddi ekkert að segja honum það og því fór sem fór. Ofsa gaman samt, og ég fékk tækifæri til að láta heilt partý skála með mér fyrir því að ég hef ásamt yndislegu fjölskyldunni minni fest kaup á íbúð á Garðastrætinu! Jei! Er ofsa spennt og hlakka ferlega til að koma heim og fara að dúlla mér við að flytja og svona!
Síðasti gesturinn á sumarplaninu er væntanlegur í kvöld, en Dabbi Dani ætlar að kíkja yfir til mín og taka dönsku rigninguna með sér. Mér finnst það gott plan því eins og er er ég að grillast í 30 stiga hita og sól, og get ekki hugsað heila hugsun.
Annars er hérna uppáhaldsmyndin mín úr heimsókninni hennar Áslu minnar um daginn. Við fórum í lautarferð við ána með rauðvín, osta, jarðarber og súkkulaði, og það var ótrúlega ljúft: