laugardagur, janúar 24, 2004

Ég er enn á lífi og meira að segja bara frekar vel haldin, svo þið getið hætt að hafa áhyggjur. Ég er bara í fullu háskólanámi, tveimur vinnum og byrjuð að dansa aftur svo það er ekki neitt svakalega mikill tími til skrásetningar þessa dagana! Ég skal skrifa meira einhvern næstu daga, nú þarf ég að teikna hús...

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna :)
Ég eyddi áramótunum í Víkinni og sé sko ekki eftir því, það var voða gaman. Að vísu missti ég af áramótamatnum hennar ömmu (sem er alls ekki smá fórn að færa!) en fékk í staðinn að vera tökubarn foreldra Ásu og borðaði áramótamatinn hjá þeim. Hann var auðvitað algert sælgæti, forréttur, tvíréttað í aðalrétt og svo var víst eftirmatur á dagskrá en það var einróma samþykkt að slúffa honum blessuðum af ástæðum augljósum öllum þeim sem borðað hafa á þessu heimili! Ég gat bókstaflega ekki staðið upp og missti þessvegna af brennunni :) Sem betur fer var Fjalar í sama ástandi sem gerði það mikið skárra að líða eins og Bangsímon og komast ekki út úr holunni sinni vegna ofáts, við horfðum á innlenda fréttaannálinn og erum þess miklu fróðari fyrir vikið.
Skaupið fannst mér alls ekki eins slæmt og öllum öðrum virðist hafa fundist það, kannski svolítið slappt en ég flissaði helling og það nægði mér. Svo komu áramótin og mér var hent út að horfa á flugeldana, en eins og flestir sem mig þekkja vita hef ég mjööög takmarkaðan áhuga á svoleiðis löguðu. Þetta hefði getað endað með mestu leiðindum hefði ekki minn sérdeilis prýðilegi gestgjafi Guðrún verið búin að sjá fyrir þessu, hún setti fiðrildi á hausinn á mér sem sveifluðust skemmtilega þegar ég dillaði mér. Það vita líka flestir sem mig þekkja að þótt flugeldar skemmti mér ekki þýðir það ekki að það þurfi mikið til að skemmta mér! :) Ég semsagt dillaði mér í ca klukkutíma meðan flugeldarnir komu og fóru og hafði það svo ágætt bara.
Þá var haldið á kaffihúsið góða þar sem hinn eini sanni Fjalar Hauksson hélt uppi fjörinu, þar var sungið og dansað af miklum metnaði og er talið víst að aðsókn á kaffihúsið hafi slegið við aðsókn á ball sem átti víst að vera algert ÆÐI (híhí) svo tónlistarpésarnir geta víst verið stoltir af því.
Þegar blöðrur á puttum hindruðu frekari tónlistarflutning var haldið heim til Guðrúnar þar sem fjörið hélt áfram fram til morguns, partíið hélt áfram í 5 tíma eftir að ég var komin í uglunáttfötin mín, sem er nú bara nokkuð gott!