þriðjudagur, desember 30, 2003

Þá er ég komin heim aftur, merkilegt hvað það er alltaf yndislegt að stíga yfir þröskuldinn heima hjá sér. Verst að nú er svo mikill snjór í götunni minni að ég kemst ekki út aftur, en ef maður ætlar að vera strand einhversstaðar er best að það sé á manns eigin heimili en ekki flugvellinum á Akureyri eins og allt stefndi í áðan. Þetta var frekar skrautlegt ferðalag hjá okkur í dag. Fyrst snéri vélin sem var á leiðinni að sækja okkur á Vopnafjörð við vegna þess að það gleymdist að setja í hana sæti (!!!), svo vorum við strandaglópar á Akureyri í nokkra tíma áður en við hringsóluðum yfir Reykjavík ferlega lengi meðan verið var að hreinsa mesta snjóinn af flugbrautinni. Huggulegt. Við hristumst alveg ferlega í rokinu yfir borginni en við mamma hugguðum okkur við það að þeir gætu ekki látið okkur hrapa, ekki með allt þetta fræga fólk í vélinni. Þetta var algert Séð & Heyrt blað bara, Jón Gnarr, Logi Bergmann (með skvísuna sína sem ég man aldrei hvað heitir) og Jónsi svartklæddi. Ég hef nú aldrei verið neinn ákafur aðdáandi þess síðastnefnda, hélt hann hlyti að vera á lyfjum fyrst hann var alltaf svona kátur, en ég verð nú að gefa honum það kredit að hann var mjög aðlaðandi svona í eigin persónu, ferlega huggulegur og kom vel fyrir bara. Svona getur sjónvarpið blekkt okkur skítugan almúgann.

fimmtudagur, desember 25, 2003

Hjá stóra brósa var vistin góð, ég er svakalega glöð að hafa gefið mér tíma til að heimsækja þau. Skotturnar tvær eru algerir snillingar, ekki amalegt að vakna við það að tvær hlýjar prinsessur skríða undir sængina manns og knúsa mann. Við púsluðum, skreyttum og sungum hástöfum og nú verð ég að læra að setja inn myndir svo ég geti sýnt ykkur ferðamyndirnar, sem eru algert æði :) Við Nonni brölluðum líka ýmislegt, drukkum bjór (aldrei gert það saman áður) með frekar sorglegum árangri, ég skaut af byssu (út í loftið auðvitað, Unnsa litla grænfriðungur) keyrði traktor og rifjaði upp vináttu mína við sauðkindina, sem er auðvitað vanmetnasti snillingur landsins fyrr og síðar. Átti semsagt að skilja þær kollóttu frá þeim hyrndu en eins og flestir líklega vita vantar á þær handföngin svo ég sýndi frekar skrautleg tilþrif, greinilega orðin ryðguð í þessarri list.
Nú er ég stödd í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa á Bakkó, þar sem ég virðist aldrei geta borðað nóg. Fékk auðvitað fullt af góðum gjöfum sem ég ætla ekki að telja upp hér. Kem svo heim 29. og hlakka ferlega til að hafa tíma í jólafríinu til að hitta vini mína sem ég hef vanrækt gróflega síðustu mánuði, er í óða önn að skipuleggja fríið og áramótin, þetta verður svaka stuð :) Hugsið til mín í útlegðinni!

Gleðilega hátíð kæru jólapésar og afsakið fjarveruna :) Ég var nú í fyrstu háskólaprófunum og frekar upptekin við að reyta hár mitt og skegg! Og það er stranglega bannað að spyrja mig hvernig gekk en blóm og kransar sendist heim til mín sem fyrst... Úff, tímamót í lífi Unnsu litlu, féll í fyrsta prófinu mínu og það er ofmetin reynsla, hafði enga ánægju af því. Mín eina sjálfselska huggun er sú að ég féll allavega ekki ein, og langt frá því! Faaaaaallin, með fjóra komma níu, lalalalalalalala... Æ, það hlaut að koma að því, ég verð bara að rífa mig upp og reyna að standa mig betur í vor. Enda kannski erfitt að gera verr... Úps...
Á laugardaginn var svo tekið til við að fagna því að ósköpunum væri lokið, og það tókst alveg með ágætum, þrátt fyrir ofþreytu og spennufall. Ég var krýnd kvenmeistari í Trivial (reyndar víst ekki mjög erfiður titill að ná...) og dansaði hallærislega við hallærispésana Gullfoss og Geysi. Reyndi svo að heilsa uppá eiginmanninn með litlum árangri, fraus svo og sá mér þann kost vænstan að skríða undir sæng um sjöleytið, og kúra mig þar í nokkra (les. alltof fáa) tíma áður en ég varð að fara að kaupa jólagjafir handa liðinu. Það gerði ég svo hálfsofandi, úfin og angandi af annarra manna sígarettureyk á þeim aðdáunarverða tíma tveim klukkustundum, allt í Máli og Menningu og Hagkaupum. Takk fyrir mig! Skutlaðist heim, pakkaði niður, kvaddi köttinn og rauk af stað til Egilsstaða að rækta fjölskylduböndin. Á leiðinni ræddi ég við sagnfræðinema um ástandið í Írak og Afganistan, með smá stoppi í Ísrael og Palestínu og voru það án efa innihaldsríkustu "in-flight" samræður sem ég hef átt hingað til. Úff, þetta er svo langt að ég skipti þessu bara í fleiri pósta. Frh...

þriðjudagur, desember 09, 2003

Ég vil gjarnan þakka honum Gunnsa listaspíru fyrir að gera á föstudaginn heiðarlega tilraun til að gera líf mitt ögn menningarlegra svona í skammdeginu. Skemmtileg sýning fyrsta árs nema í Listaháskólanum, ekki að ég hafi skilið helminginn af þessu en var samt mjög gaman að sjá hvað allir hinir eru að gera, maður er búinn að liggja í hálfgerðum félagslegum dvala. :) Verkið hans Gunna fannst mér svalt, sá það strax í hendi mér að hér væri líka komið einstakt tækifæri fyrir mig. Hann var nefnilega búinn að útbúa svona lítið herbergi sem er auðvitað mikið nær öllu en herbergið mitt í Mosó, svo Gunni minn, er séns að ég fái að leigja þetta hjá þér í vetur?...

laugardagur, desember 06, 2003

Bíllinn minn er ágætis félagi minn, við skiljum hvort annað yfirleitt og gerum okkar besta til að láta hvoru öðru líða vel (fyrir utan að ég hef ekki þvegið hann að utan síðan við kynntumst...). Ég hélt við þekktumst bara vel, þar til sú skýjaborg hrundi í morgun. Bíllinn minn er ósyndur. Alveg. Breikaði alla leið í bæinn svo meistaralega að hvaða ´88 töffari sem er hefði verið stoltur af. Ég var hinsvegar ekki stolt, hikstaði og hoppaði á 60 allan Vesturlandsveginn og stækkaði aðdáandahópinn minn lítið við athæfið. Vona að það verði ekki rigning í fyrramálið...

föstudagur, desember 05, 2003

Hvað er fólk eiginlega að hugsa að sýna öðru fólki sem er ekki ÉG tillitsemi í umferðinni þegar ÉG er einmitt að flýta mér í skólann eftir að vekjaraklukkan MÍN svaf yfir sig! Ég um mig frá mér til mín, muna það fólk!!! Iss...

miðvikudagur, desember 03, 2003

Það eru áreiðanlega ekki margir sem eiga eftir að hafa vit á að gleðjast yfir nýjustu uppgötvun minni en hér er hún samt: Ég er búin að finna á netinu mestu snilld sem ég veit til að hafi verið gerð í jóladagataladeild heimsins! The Julekalender!!! Munið ekki, þar sem nissarnir tala hálfpartinn dönsku og hálfpartinn ensku og skemmtilega púkó fjölmenningarleg tónlistaratriði inn á milli? Yndislegt, vei! Er að hlaða því inn á tölvuna í þessum töluðu, hlakka ekkert smá til að setjast niður eftir próf og góna á þetta. Takk Annelise fyrir að deila þessu með íslensku moldbúunum :)

Ég fór semsagt á tónleika MS kórsins míns gamla á föstudaginn og það var bara mjög ánægjulegt. Dagskráin var næstum nákvæmlega sú sama og í "gamla daga" sem gerði þetta þess mun skemmtilegra því maður gat raulað inní sér með öllum lögunum og endurupplifað "ísí písí" menntó. Komst að því að þetta var alls ekki svo slæmur tími, fyrir utan kannski gluggatjöldin og lyktina... Nokkrir höfðu líka gengið ennþá lengra en ég í að reyna að ímynda sér að þeir væru menntskælingar og sungu einfaldlega með, hátt og snjallt. Mér fannst það svalt hjá þeim, um að gera. Og ekki má gleyma að Ingunn spilaði undir af alkunnri snilld og sýndi þar að auki ógleymanlega takta í miðasölunni! En merkilegustu athugun kvöldsins átti án efa Gunni: ,,Ætli þau séu að safna fyrir ferð til Póllands?" Rétt´upp hönd sem kannast við þetta! :)

laugardagur, nóvember 29, 2003

Alveg er það magnað hvað hausinn á manni getur verið þversum, nú er ég búin að sitja á bókó í allan dag og strand á sama dæminu allan tímann! Mér líður samt mikið betur að vera hér en að sitja heima, jafnvel þótt ég komi engu í verk. Þess má geta að ég er á bókó í þessum töluðu og er bara að blogga til að hafa afsökun fyrir að hvíla mig á bannsettu fylkinu sem ekki vill hlýða mér...
Ég fór annars í síðustu pásu í Húsó að kíkja á hvað hún Ingunn er búin að eyða tíma sínum í þessa önnina og ég er nú eiginlega bara abbó. Af hverju finnst mér allt í einu allir sem ég þekki vera að gera eitthvað skemmtilegt og slaka aðeins á á meðan ég er að gróa föst við stólinn minn á bókasafninu? Ég er að verða svolítið bitur eiginlega!

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Ég veit að það er hvorki komin aðventa né 1. desember, og ég veit að fólk, þar með talin ég (þar til annað kemur í ljós allavega), er endalaust að nöldra yfir því að jólaundirbúningurinn byrji of snemma. En ég verð að játa mig sigraða í þetta skiptið. Það er kominn snjór, lager heimilisins telur bæði mandarínur og piparkökur, það er komin jólastöð í útvarpið, ég er farin að læra fyrir prófin, og ég er komin í jólaskap!!!
Af því tilefni að ég er komin út úr jólaskápnum ætla ég á jólatónleika í Langholtskirkju á föstudaginn með öðrum virkum jólaálfi, honum Gunna, og eftir það veit ég að ég verð ekki mönnum sinnandi vegna óhóflegs hátíðaskaps, vildi bara vara ykkur við...

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Já, gleymdi því, ég sá hinn fjölskylduvæna skemmtiþátt Gilla Marteins endurtekinn í dag, og komst að því að hann hefur sömu hlýlegu leiðindin til að bera og Hemmi hafði á sínum tíma, manni hlýnaði öllum að innan og fékk gömlu góðu öryggistilfinninguna, beið bara eftir að einhver yrði spurður hvort hann legði ennþá stund á knattspyrnu... Mjög gott, og ekki versnaði það þegar Icy Spicy Leoncie birtist og uppfærði tískuvitundina mína, sem var orðin ansi rykfallin eftir óhóflega innilokun á bókasafni. Og nú brennur á mér ein spurning; hvar fæ ég eiginlega svona belti???

Eftir að hafa eytt deginum í að reyna að finna hverjum hlut sinn stað í herberginu mínu hef ég komist að mjög merkilegri niðurstöðu um hvert vandamálið sé. Það kemur í raun tvennt til greina; of fáir staðir eða of margir hlutir. Ég hallast að því síðarnefnda en þegar maður er orðinn svona stór þá á maður orðið meira af hlutum og minna af drasli en áður og ekki lengur hægt að leysa vandamálið einfaldlega með því að henda draslinu (sama hverju mamma heldur fram!). Svo nú er bara eitt til ráða. Veiðiferð í IKEA!!! Þar eru nefnilega seldir staðir, meðan næstum allar aðrar búðir selja hluti. Merkilegt, ekki satt?

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Ég held ég sé haldin einhverskonar svefnsýki, ég er þreytt allan daginn alla daga og alveg við það að missa meðvitund á bókasafninu dag eftir dag, og samt sef ég mikið meira en vanalega, ég skil ekki... Kannski er samsæri í gangi í skólakerfinu, allir máladeildarnemar skilyrtir til að detta út þegar þeir koma of nálægt stærðfræði... Ég er allavega ekki sátt, nú fer að líða að prófum og þrálátt meðvitundarleysi er ekki alveg það sem ég þarf þessa stundina.
Annars ætla ég að gefa sjálfri mér það í jólagjöf að heilda og diffra allt jólafríið svo ég eigi séns í stærðfræðigreininguna eftir jól, það væri mjög ljúft að geta klárað hana því ég hef alltaf ímyndað mér að þegar ég nái þeim áfanga verði ég endanlega búin að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti þetta alveg.
Æ, þetta bjargast alltsaman, verst að foreldrar mínir eiga eftir að sitja uppi með mig alvega ferlega lengi meðan ég sniglast í gegnum þetta!

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Trausti brást trausti mínu í dag. Og ég þurfti að hringja í pabba minn til að biðja hann um að skipta um dekk fyrir mig. Og þótt hann kæmi að vörmu spori með bros á vör fannst mér það samt sorglegt og hef heitið sjálfri mér því að næst þegar allur vindur verður úr Trausta mínum ætla ég sjálf að skipta um dekk, ég kann það nefnilega alveg svona í kenningunni, hef bara aldrei gert það í alvörunni. Það er samt víst ekki alveg það sama, allavega yrði mér ekki alveg rótt ef ég væri að fara í aðgerð og skurðlæknirinn segði mér að hann hefði að vísu aldrei skorið neinn upp áður en hann væri búinn að lesa bókina voða vel... En þetta er samt planið semsagt, að geta skipt um mín eigin dekk í staðinn fyrir að vappa í kringum bílinn að þykjast gera gáfulega hluti meðan pabbi minn gerir það fyrir mig.
(Get samt ekki ennþá fengið vídjóið mitt til að taka upp af stöð tvö svo þetta gæti verið óþarfa bjartsýni, við sjáum til...)

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Hvað eru allir þessir útlendingar að gera hér í nóvember? Þetta hlýtur að vera með ómerkilegri mánuðum ársins, engar stórhátiðir, engin sól, yfirleitt enginn snjór, það er hálfgert millibilsástand sem ríkir og ekkert beint hingað að sækja finnst mér. Samt verður ekki þverfótað í bænum fyrir hamingjusömum, skynsamlega dúðuðum útlendingum, maður fær varla sæti á kaffihúsi fyrir þessu liði. Hlýtur að vera eitthvað svakalegt tilboð í gangi hjá einhverri ferðaskrifstofunni...

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Ég fór í afskaplega áhugaverða jarðfræðiferð í gær, þvældist upp um allar sveitir með myndavél og frosna putta og hlustaði á vatnssögu Mosfellssveitar. Og það var bara mjög ánægjulegt verð ég að segja, og greinilegt að nördið í mér er bara að vaxa þessa dagana!

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Vettlingur fór í sinn fyrsta gítartíma í gærkveldi. Nú eru 3 fingur af 10 óstarfhæfir með öllu. Ég vissi aldrei að það væri sárt að spila á gítar, ég hef nýfundna virðingu fyrir trúbadorum heimsins og ja, bara öllum sem grípa í gítarinn í útilegum, nema kannski Árna Johnssen... Ég er samt svakalega klár, get spilað heilt lag, og veit að það er ekki langt í heimsfrægðina úr þessu. Frizzy who, here comes Unnsy!! Að vísu er lagið bara tveir hljómar og ég þarf að gera smá hlé alltaf á milli þeirra til að skipta um hljóm, en við skrifum það á listrænar áhersluþagnir, og þá er þetta mjög artí bara.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Ég er á netinu í skólanum mínum, sem hljómar ekki mjög merkilega en þar sem nú er nóvember og ég byrjaði að reyna við þetta þráðlausa netfjör í ágúst þá getið þið ímyndað ykkur gleðina sem ríkir nú í herbúðum vettlingsins. Rauðhærður Davíð 2 fær samt mesta kreditið fyrir áfangann, þrátt fyrir að ég muni líklega aldrei geta tengst neinu öðru neti aftur eftir allt fiktið. Strákar geta alveg verið ferlega gagnlegir þegar þeir gera eins og þeim er sagt :)

mánudagur, nóvember 10, 2003

Eftir mjög vísindalegar rannsóknir síðustu árin hef ég loksins komist að því að háhælaðir skór eru bara ekki þess virði, strigaskór eru það sem blíva í næturlífinu. Maður lítur ekki út fyrir að vera að reyna alveg eins mikið fyrir utan að maður getur hoppað eins og mann lystir, þótt ég viðurkenni reyndar fúslega að sú þörf virðist koma oftar yfir mig en flesta...
Ég fór út á lífið bæði föstudag og laugardag þessa helgina og uppskar hressilega hálsbólgu sem ég vil kenna óhóflegri snertingu við annarra manna sígarettureyk um. Foj, maður er hvergi laus við þetta ullabjakk, og þegar maður kemur heim og ætlar að fara að sofa í hausinn á sér er það ekki hægt því hann, ásamt restinni af kroppnum, fötunum manns og öllu sem var með í fjörinu angar af krabbameinsvaldandi löstum annarra. Mér finnst þetta ferlega óaðlaðandi alltsaman. Fólk getur bara reykt úti í kuldanum mín vegna, allavega finnst mér sanngjarnara að það séu reykingamennirnir sjálfir sem endi með hálsbólgu en litla ég sem ekkert get að því gert að þeir hafi ekkert betra við peningana sína og lungun að gera, þeim virðist hvort sem er ekkert vera sérstaklega annt um öndunarfærin sín. Og hana nú!

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Vá hvað síðan mín er ógeðslega bleik, ég er að fá my little pony flashback!!! Mér finnst hún æðisleg og svona verður hún :)

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Ég kem því ekki alveg fyrir mig hvað nýi liturinn á síðunni minni minnir mig á... Æ, þetta er allavega skárra en appelsínuguli liturinn, og bara til bráðabirgða... Vona ég... En nú er ég komin með nokkra tengla og allt, maður verður meira nörd með hverjum deginum, og mér finnst það svalt! :)

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Veeeiiiiiiii!!!

Ég held ég hafi verið að læra að setja linka á hluti, best að gá...
Hm, best að nota Áslu í tilraunastarfsemina, hún er vön :)

Þessa dags verður minnst fyrir þær sakir að Unnsa litla slapp naumlega frá ótímabærum dauðdaga á veitingahúsinu Mekong í Sóltúninu. Nú er ég þess fullviss að vondir kallar þessa heims hafa áttað sig á þvílík þjóðþrifaverk ég á eftir að vinna í framtíðinni og hafa því ákveðið að taka höndum saman og koma mér fyrir kattarnef, og ég verð nú að segja þeim til hróss að þessi fyrsta tilraun var ansi frumleg. Prik fyrir það.
Ég var sumsé að fá mér í gogginn á Mekong í hádeginu í dag (eftir smávægilegar hremmingar í umferðinni af völdum hálku) og svona framan af máltíðinni gekk það framar vonum, fínn matur og svo vel útilátinn að ég gat tekið heila máltíð með mér heim afgangs eftir að hafa þó borðað mig rúmlega sadda á staðnum. En þar sem ég sat í sakleysi mínu og var að einbeita mér að því að hefja meltingu (viðkvæmt ferli), fór mig að kitla einkennilega í hálsinn. Það var smávægilegt í fyrstu og kenndi ég kvefinu mínu um, þar til átfélagarnir mínir fóru líka að hósta. Eftir nokkrar mínútur voru allir á staðnum farnir að hósta ákaflega og þar kom að lokum að við spurðum afgreiðslumanninn (sem hóstaði okkur til samlætis) hvað gengi eiginlega á í eldhúsinu. Hann grennslaðist fyrir um það og sagði að kokkarnir væru að sjóða chilipipar! Klukkan rétt rúmlega tólf, í miðri hádegisösinni! Annar þeirra, lagleg ung stúlka, kom skælbrosandi fram og fannst greinilega mjög skondið að fylgjast með viðskiptavinunum í dauðatygjunum. Við vorum ekki lengi að láta okkur hverfa og mættum í dyrunum nokkrum svöngum sakleysingjum. Við vorum of upptekin við að bjarga lífi okkar og limum til að vara þá við hættunni en heyrðum að þeir voru strax farnir að hósta lifur og lungum, og ekki einu sinni búnir að panta...

miðvikudagur, október 29, 2003

Heimilisfriðurinn er úti.
Heimasæturnar á heimilinu eru tvær (ég er auðvitað önnur). Þeim hefur yfirleitt komið mjög vel saman, kúrt yfir battsjelor saman, tannburstað saman á morgnana, lesið blaðið saman og hafa meira að segja skroppið í sumarbústað saman, sælla minninga. Aldrei hefur skuggi fallið á vináttu þeirra, fyrr en fyrir u.þ.b. klukkustund síðan.
Þetta hófst allt með því að önnur þeirra, Dama 1 (uppljóstra ekki hvor þeirra það er, dömur verða að eiga leyndarmál) fór að fá undarlegt kýli á hausinn. Kýlið er búið að vera þar núna í nokkra mánuði og Dama 1 neitaði staðfastlega að láta gera eitthvað í málinu, og var orðið ljóst að annaðhvort yrði að fara að gefa krílinu bara nafn og innlima það í fjölskylduna eða neyða sjúklinginn til aðgerða. Þó ósköp sem svo upphófust síðdegis í dag voru afleiðingar þess að sú heilbrigða, Dama 2 tók málin í sínar hendur og framkvæmdi seinni möguleikann.
Eftir að hafa gert lokatilraun til að tjónka við Dömu 1 og fá hana til að sjá ljósið og leita til læknis af sjálfdáðum, sat Dama 2 fyrir henni í bílskúrnum, og þegar hún lét loksins sjá sig var hún ekki lengi að grípa hana, troða henni ofan í pappakassa og líma fyrir. Dama 1 var eins og búast mátti við ekki sátt við gjörninginn en var föst ofan í kassanum og þar við sat. Kassanum var dröslað út í bíl og keyrt til læknisins, við mikil harmkvæli þeirrar sem í honum dvaldi. Þegar til læknisins var komið sá Dama 1 að slagurinn var tapaður og var samvinnuþýð framar björtustu vonum, kýlið var fjarlægt og hún fékk ormasprautu í kaupbæti fyrir góða hegðun. Að því loknu var henni troðið ofan í kassann á ný þrátt fyrir að allt væri í raun yfirstaðið, því Dama 2 hafði séð að hún var mun ferðavænni í kassanum en utan hans. Svo var haldið heim á leið og Dömu 1 gefið frelsi á ný.
Staðan núna er sú að Dama 1 neitar staðfastlega að viðurkenna að þetta hafi verið henni fyrir bestu, fannst vistin í kassanum óþörf og frekar niðurlægjandi og snýr sér undan þegar Dama 2 reynir að ræða málið við hana. Það gustar köldu milli heimasætanna og aðeins tíminn getur leitt í ljóst hvort samband þeirra mun bíða þessa nokkurntímann bætur...

þriðjudagur, október 28, 2003

Ah, þarf að bíða meira eftir tíma, best að rekja bara farir mínar enn frekar, fyrst fólk er að kvarta yfir að maður skrifi aldrei neitt er best að gera þetta bara þannig að það biðji um miskunn! :)
Nú stendur fyrir dyrum merkileg samkoma, sem er búin að vera á döfinn síðastliðin 4 ár en hefur ekki verið hrundið í framkvæmd fyrr en núna. Hinar fjórar fræknu úr Gaggó Mos ætla að hittast á fimmtudaginn! Það er óhjákvæmileg afleiðing þess að í tölvunni hennar Miss Sweden er að finna öll lögin af Gullinu sáluga og eftir að hafa hlustað á þau heilt kvöld og rifjað upp öll ósköpin urðum við að skipuleggja endurfundi.
Þessa færslu munu aðeins þrjár manneskjur í heiminum fyrir utan mig skilja :)
Þegar við hittumst allar síðast blasti lífið aðeins öðruvísi við, Now and Then og Grease voru bestu myndir í heimi, Dýrið hafði engan áhuga á Fríðu en þess meiri á Gaston, korkur var inni, glimmer var krabbameinsvaldandi, græn epli löguðu allt, afmæli kölluðu á meiriháttar leynilega skipulagningu, deilan um það hvort maður færi í eða til Hveragerðis kostaði næstum líkamleg átök, heitt kakó og Gullið (hvað hét ameríski útvarpsmaðurinn aftur..?) voru uppskrift að fullkomnu kvöldi, Kaffileikhúsið hitti spreybrúsa og dó og klapp á bakið kostaði dramatík.
Og þetta var æðislegt :)

Nú hefur frekar margt drifið á daga mína síðan ég skrifaði síðast, enda liðin ár og öld. Ég fór á kennarafagnað á föstudaginn þar sem ég kynntist að vísu engum kennara en ég lærði að diffra og heilda "e í exta" (asnalega lítt stærðfræðisinnaði blogger getur ekki skrifað veldi... :p) og komst að því að eftir þrjú ár verð ég komin með ferlega menningarlegan húmor. Svo drakk ég gin og tónik, ekki af því mér finnist það gott (algert ógó...) heldur af því mér finnst það menningarlegra í svona félagsskap en bleika áfenga gossullið sem er mikið bragðbetra... Allt fyrir lúkkið! Við þurftum að leysa jöfnur til að finna sætið okkar, eitt svar við hvert sæti, og það hræddi mig hvað mér fannst það agalega sniðugt alltsaman, held að máladeildarstúdentinn í mér sé að missa völdin.
Á laugardagskvöldið viðhélt ég nördaþemanu og gerði eðlisfræðiskýrslu fram á nótt, það gat ég gert með góðri samvisku gagnvart kúlinu mínu sem vissi að það fengi að sletta úr klaufunum á sunnudagskvöldinu í staðinn. Það er víst frekar óvenjulegur tími fyrir klaufaskvett en þar sem Ásla kom til landsins á sunnudagsmorguninn og verður ekki í bænum á kristilegri tíma urðum við að gera gott úr því sem við höfðum (sem var í meginatriðum bara hvor önnur, það var ekki sála í bænum, en það var kappnóg fyrir okkur, enda skemmtilegar með afbrigðum). Við byrjuðum á að skála fyrir litlu mér og létum svo Mola (sem er bróðir Ásu en EKKI Unnar, sem er ekki heldur með fjarstýringuna, algengur misskilningur) skutla okkur hingað og þangað þar til við urðum sátta við sjálfar okkur á Vínbarnum og festum rætur þar til lokunar. Þetta var hin besta kvöldstund sem lauk með stelpuspjalli undir hlýrri sæng með fullt af fríhafnarnammi. Vei!
Mikið er ég annars sátt við að hafa Áslu í smá stund...

mánudagur, október 20, 2003

Ég vil aldrei sjá köku framar... foj...

miðvikudagur, október 15, 2003

Ég er orðin löglegur drykkjumaður! Skál fyrir því!
Ég varð semsagt tvítug í gær, eins og næstum allir sem ég þekki reyndar mundu eftir, síminn stoppaði ekki og nú finnst mér ég svakalega vinsæl og mikil gella. Þið hin sem gleymduð því, takk fyrir samveruna og gangi ykkur vel í lífinu, það var gaman meðan það entist.
Mér tókst að gera ótrúlega margt skemmtilegt á einum degi, án þess að skrópa í einum einasta tíma, sem er nú bara frekar vel af sér vikið finnst mér. Svo fékk ég 5 afmælisgjafir á réttum degi, sem er örugglega persónulegt met því yfirleitt sjást engar gjafir í nágrenni mínu fyrr í apríl/maí, svo vinir og vandamenn eru greinilega aðeins farnir að taka sig á í stundvísinni. (Að vísu held ég að ég hafi farið í svona 20 tvítugsafmæli á síðasta ári og munað eftir kannski 3 gjöfum á réttum tíma, en þótt ég geri þurfið þið ekki að gera það :p)
Nú stendur til að fagna atburðinum vel og vandlega um helgina, en þar sem nýja parketið okkar harðneitar að halda partý mun fögnuðurinn fara fram óformlega í hinum ýmsu heimahúsum og skemmtistöðum á stór-Reykjavíkursvæðinu, og bið ég fólk að vera bara í símasambandi til að staðsetja afmælispésann :)
Takk fyrir mig! :*

fimmtudagur, október 09, 2003

Jæja, nú fer stóri dagurinn að nálgast. Fólk er farið að pressa á mann að halda upp á áfangann með teiti en ég sé nú ekki fram á að það komi mjög margir, stór hluti af fólkinu sem maður þekkir í útlöndum og annar stór hluti að basla svo stíft í skólanum að það hefur varla tíma til að næra sig, hvað þá fara út í sveit til að skemmta sér og öðrum. Ég veit ekki hvernig þetta endar...

miðvikudagur, október 08, 2003

Þetta er ótrúlegt!!! Sögulegt augnablik! Mér, Unnsu litlu, var rétt í þessu að takast að pota teljara inn á síðuna mína, hjálparlaust með öllu! Veeeeiiiiii!!!
Nú er ekkert eftir nema komast að því hvernig ég get potað myndum á síðuna og þá nær metnaður minn með þessa síðu nú einfaldlega ekki mikið lengra... Jú, og svo væri nú huggulegt að geta sett hlekki á vini mína, sýnist fólk vera að verða nett pirrað á því að vera hunsað svona... úps...

laugardagur, október 04, 2003

Já, gleymdi einu. Það er ljótt að brjótast inn í annarra manna bíla!

Æ hvað fólk getur gert mig hissa stundum. Það var brotist inn í bílinn minn í nótt, steini hent í gegnum gluggann á honum Trausta litla sem aldrei gerir neinum neitt, og öllu rótað út um allt. Allt rifið úr hanskahólfinu og öllum töskum sem voru í bílnum og fleygt um öll gólf, og þar sem ég bý hálfpartinn í bílnum þessa dagana var af nógu að taka í drasldeildinni. Í bílnum var stafræn myndavél, geislaspilari, vodkaflaska, húslyklar, grafískur vasareiknir og hitt og þetta sem maður myndi ætla að viðkomandi óprúttni aðili hefði á brott með sér, en það gerði hann ekki. Engu var stolið. (Nema auðvitað stoltinu hans Trausta og svo mun kosta sitt að fjárfesta í nýrri rúðu.) Svo nú vil ég vita, af hverju í ósköpunum að leggja það á sig að brjótast inn í bíl bara til að rusla svolítið til?? En jæja, ekki kvarta ég, hefði víst getað verið mikið verra.
Pabbarnir mínir eru samt hetjur dagsins, annar reif sig á fætur klukkan þrjú í nótt og keyrði hálfa leið á heimsenda til að setja plast fyrir opna gluggann því það var svo mikil rigning, og hinn veitti mér áfallahjálp, gaf mér tebolla til að gráta í og hjálpaði mér að koma lagi á innvolsið (í bílnum, mitt var í fínu lagi). Svona er maður nú ríkur af foreldrum.

föstudagur, október 03, 2003

Þá er fyrstu vísundaferðinni lokið, og ég verð nú bara að segja að malbik er merkilegra fyrirbæri en mig grunaði og ég segi það ótrúlegt en satt án minnstu kaldhæðni. Að vísu mættu ekki nema 14 vísundar í þessa ferð (reiknað hafði verið með 40) og vegna samviskubits gagnvart gestgjöfum okkar var þögult samkomulag í hópnum um að reyna nú að gera veitingunum sem best skil miðað við höfðatölu. Og það gerðum við svo sannarlega, og stóðum okkur með endemum vel! Svona er maður nú vel uppalinn :)
Þaðan var förinni heitið á þýskt októberfest, þar sem vísindalega söngvatnið nýttist okkur vel og jóðlið fékk alveg nýja vídd...
Athyglisvert kvöld...

fimmtudagur, október 02, 2003

Eftir smá niðursveiflu í áhuganum á náminu held ég að ég sé komin í þrjóskukast númer tvö! Allavega er ég aftur komin með smá einbeitingu og rétt rámar í af hverju ég er að leggja þetta á mig. Nema þegar ég er að gera P dæmin í eðlisfræði, þá man ég það aldrei, en svo rifjast það upp eftir smá svefn/kaffi/ofbeldi. Svo vei! :)
Já, og ég hef allt kvenkyns í lífi mínu hérmeð grunað um að vera eigi einsamalt þar sem mig dreymir eintómar barnsfæðingar þessa dagana (næturnar...). Ég kynni afskaplega vel að meta það ef viðkomandi myndi bara játa syndir sínar fljótlega svo ég geti hætt að hafa áhyggjur af að það verði ég!
Annars er ég að verða guðmóðir á sunnudaginn, en er það nokkuð tekið með?...

mánudagur, september 29, 2003

Eftir meira en hálfs árs blogg eru hlutirnir loksins farnir að gerast. Komin með athugasemdakerfi sem er að vísu ennþá svolítið ódýrt í útliti en fyrr eða seinna mun það verða lagfært, kemur allt með kalda vatninu. En nú má fólk gjarnan láta vita af sér því ég er forvitin um hverjir aðrir en minn einlægi aðdáandi Gunni Helgi lesa þetta í alvöru :)

laugardagur, september 27, 2003

Ég er ekki alveg sátt við afköst vina minna við að svara neyðarköllum mínum þegar mér leiðist. Heimta endurbætur. Ég er stödd í tölvunni uppá Hlöðu að deyja úr vigrum og fylkjum og sendi út svona 10 neyðarköll í formi sms-skilaboða hingað og þangað og enn sem komið er hefur enginn látið svo lítið að vorkenna mér og senda mér samúðarkveðju. Þetta skal ég muna næst þegar stærðfræði ræðst á ykkur kæru vinir! Foj...

Mig langar bara að minna í hógværð minni á að nú fer að styttast í að ég eigi stórafmæli, og kannski kominn tími til að fara að huga að gjafakaupum?

laugardagur, september 20, 2003

Var að skríða inn úr dyrunum eftir fyrsta verklega eðlisfræðitímann minn. Ég er með magnaðan hausverk og hálfsjóveik eftir að hafa glápt á flöktandi línu á skjá í fjóra tíma, vonandi af öllu hjarta að ég sæi eitthvað gáfulegt útúr henni, sem gerðist aldrei. Eins freistandi og það nú væri að klína því á kennarann get ég það því miður ekki með góðri samvisku, hann má eiga það að hann svaraði öllum mínum ljóshærðu spurningum eins og þær væru fullkomlega eðlilegar og þegar ég sat bara og blikkaði heimskulega eftir langar og strangar tilraunir til útskýringa reyndi hann meira að segja að teikna skýringamyndir handa mér, og allt var þetta framkvæmt með fullkomnu jafnaðargeði. Góður kennari, en leiðinlegustu fjórir tímar sem ég hef upplifað á ævinni (þess má geta að ég hef bæði setið gegnum Titanic og Star Wars: Attack of the Clones svo þetta eru stór orð).
Eftir nokkrar umræður var því varpað fram að kannski væri betra að horfa á sveiflusjána í gegnum bjórþoku og verður sú kenning prófuð í næstu tilraun. Skál fyrir því!

fimmtudagur, september 11, 2003

Ég er búin að vera að reikna sama dæmið í tvo daga! Tvo daga! Og ég er búin með a) liðinn, á bara b) og c) eftir fyrir MORGUNDAGINN!!! Ef einhver getur minnt mig á hvað í ósköpunum ég er að gera hérna þá má hann vinsamlegast stíga fram núna áður en ég geng berserksgang um bókasafnið stingandi fólk með skrúfblýantinum mínum.

þriðjudagur, september 02, 2003

Ég hef hérmeð misst kúlið. Alveg.
Það var gaman meðan það entist...

mánudagur, september 01, 2003

Mikið gasalega eignast maður marga vini og hratt þegar maður neyðist til að vera á bíl á djammkvöldum. Ég kaupi mér vini og vinsældir og skammast mín ekkert fyrir það! En mikið er nú alltaf leiðinlegt að sjá sæta stráka eyðileggja ímyndina með því að opna munninn og reyna að tjá sig. Mín kenning er sú að hárgel hafi slævandi áhrif á heilasellur, og langar að biðja alla myndarlega stráka sem hafa ekkert að segja vinsamlega um að þegja bara og vera sæta. Takk.

miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Fyrsti dagur minn sem verkfræðinema að kveldi kominn, og gekk svona líka stóráfallalaust. Allar líkur á því að stóráfallið bresti samt á á morgun þegar ég fer í fyrsta stærðfræðitímann minn... Átti reyndar von á því í allan dag að einhver myndi pikka í öxlina á mér og benda mér á að háskólinn væri því miður ekki fyrir börn, en það gerðist furðulegt nokk ekki. Sér í alvöru enginn að ég er of lítil til að vera í háskóla?!!

mánudagur, ágúst 25, 2003

Brjálaður Íri kominn og farinn, en þetta fór betur en á horfðist. Hann hafði engan áhuga á neinu sem heitir náttúra nema hann gæti verið nakinn þar, þannig að Bláa lónið var heimsótt tvisvar, skýlulaust að sjálfsögðu, afskekktur hraunbútur var heimsóttur einu sinni til nakinna myndataka (veit ekki hvaða bækling hann las eiginlega!) og auðvitað háttaði hann sig einu sinni í miðbænum líka til að viðhalda þemanu. Ef ég kynni að setja myndir á netið myndi ég deila þeim með almúganum en enn sem komið er verður ímyndunarafl ykkar að duga. Ég gerði nokkrar persónulegar og misgagnlegar uppgötvanir; ég hef meira drykkjuþol en mig grunaði, ég er vonlaus í glímu og mun alltaf tapa jafnvel þótt ég svindli eins og ég eigi lífið að leysa og að eftir tvær lónsferðir og bjórbað deyr hár einfaldlega. Ég er gersamlega uppgefin eftir að hafa verið skemmtileg samfleytt í 5 daga og verð ekki skemmtileg aftur fyrr en í fyrsta lagi um páskana. Nú er strax farið að skipuleggja sambýli í Döbblin næsta sumar en einhvern veginn grunar mig samt að heimurinn og lifrin mín muni ekki lifa þann kokteil af!
Ps. Háskólinn byrjar með kynningarfundi á morgun en ég er að gera mitt besta til að hunsa þá staðreynd í bili þar sem ég hef hvorki sofið né talað íslensku í fimm daga og er ekki lengur viss á grundvallaratriðum eins og nafni, kennitölu og uppsprettu þeirrar sjálfspíningarhvatar sem leiddi til þess að ég skráði máladeildarhausinn minn í verkfræði til að byrja með... (Ef einhvern rámar í eitthvað af ofantöldu má hann gjarnan láta Agnar vita.)

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

Ég er að fá Íra í hausinn! 20. ágúst, hjálp! Ég kann ekki að djamma og bílið mitt er bilað, hvað í ósköpunum á ég að gera við hann??? Láta hann horfa á vídjó með litla brósa??? Úff, ef það eru einhverjir sjálfboðaliðar í ferð í Skaftafell um þetta leyti eða ef einhver er til í magnað djamm helgina á eftir má hann gjarnan láta mig vita, ég er orðin örvæntingarfull...

fimmtudagur, júlí 31, 2003

Duncan minn dafnar vel samkvæmt síðustu fréttum, og nú er komið í ljós að barnið er snillingur líkt og móðir hans. Einkunnirnar komu í dag og þær eru allar á bilinu 8.8 til 9.4 og geri aðrir betur. Til lukku Duncan, húrra, húrra, húrra! (Það kom líka ný mynd af honum nema hún er næstum alveg eins og myndin frá í fyrra, hef þá hjá ABC sterklega grunaða um að hafa bara tekið 10 myndir síðast og ætla svo að senda þær á ársfresti... samsæri...)

mánudagur, júlí 28, 2003

Einni Frakklandsferð og tveimur Víkurferðum seinna... Og hættið að skamma mig fyrir að skrifa sjaldan, ég skrifa bara þegar mig langar til takk fyrir, og ekki mínútunni fyrr! Ég skal nú samt játa að ég er hvorki búin að vera dugleg að skrifa hér né bara hafa samband við félagana yfirleitt, og biðst ég hér með afsökunar.
Frakkland stóð alveg fyrir sínu, þema ferðarinnar virtist mér vera að klifra upp í alla turna, vita og aðrar byggingar sem ögra þyngdaraflinu og lærvöðvunum og borða svo eins mikið og er líkamlega gerlegt. Og ég stóð mig eins og hetja, hef séð allt sem er þess virði að sjá í þessum landshluta bæði af jafnsléttu og ofan frá, hlustaði samviskusamlega á það hvernig reipi hafa verið búin til í Frakklandi frá upphafi, hvernig skútur virka og hver drap hvern, hvenær og af hverju í La Rochelle í gamla daga, allt á því illskiljanlega tungumáli frönsku. Ég fórnaði sjálfsvirðingunni fyrir ættjarðarástina og gólaði íslensk þjóðlög eins og lífið lægi við á "international night" og varð full af einum litlum Heineken í París. Geri aðrir betur.
Ferðin var frábær og ég kynntist svo mikið af góðu fólki að ég veit ekki hvað ég á að gera við það alltsaman, en verð nú samt að segja að eftir svona ferð skilur maður hvað það er ómetanlegt að geta deilt því sem maður sér með fólki sem skilur húmorinn manns og þekkir mann nógu vel til að maður þurfi ekki allan daginn að vera að hafa áhyggjur af því að einhver hafi misskilið mann.
Franska nafnið mitt er Renée, hópurinn var ekki lengi að ákveða að við ungfrú Zellwager hefðum verið aðskildar við fæðingu og það er víst auðveldara að muna en Unnur. Unnur á tvo bræður, Renée á allavega 5 stóra bræður. Ég var semsagt svolítið grunlaus um hættur franskra stórborga og vakti með rauli og valhoppi upp stórabróðurstilfinningar í öllu karlkyns í hópnum, sem hljóp á eftir mér skelfingu lostið og sagði "ekki gera þetta", "ekki svara þessu" og "passaðu þig á þessu" við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Þeir fóru líklega allir heim með hækkaðan blóðþrýsting blessaðir en stóðu sig vel engu að síður, og voru til margra hluta nytsamlegir, til dæmis til að drepa köngulærnar... foj... Ég komst líka að því að útlendingar eru hallærislegir upp til hópa sem hentaði mér ágætlega þar sem það gerði mig að "stíliseruðustu" manneskjunni í hópnum og var ég því fljótlega gerð að ráðgjafa hópsins í sambandi við smekklegheit í klæðaburði. Hihi. Það getur ekki endað vel...

miðvikudagur, júlí 23, 2003

Til þeirra sem ekki fengu tölvupóstinn:
Kæru félagar.
Mér þykir leitt að þurfa að tilkynna að minn elskulegur Lárus var hnepptur í gíslingu síðastliðið föstudagskvöld í þjófabælinu Þorlákshöfn og hefur ekkert til hans spurst síðan. Engar kröfur um lausnargjald hafa borist og vonin um að endurheimta gamlan félaga dofnar með hverri mínútunni sem líður.
Blóm og kransar engan veginn afþakkaðir.
Af virðingu við minningu Lárusar sé ég mér ekki fært að fá annan til að fylla í skarð hans samstundis.
Því vil ég benda þeim sem vilja votta mér samúð í sorg minni eða þurfa að ná í mig vegna annarra mála á hina úreltu uppfinningu "heimasímann" sem ykkur rámar kannski í úr æsku. Eftir dálitla rykhreinsun hef ég komist að því að hann virkar enn og svarar enn sínu gamla kalli, 5667662.
Með sorg í hjarta,
Unnur.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

5 dagar í Frakkland! Ég varð að lokum að horfast í augu við þá staðreynd að það væri nauðsynleg öryggisráðstöfun að fá sér kreditkort fyrir ferðina, svona ef eitthvað skrautlegt og óviðbúið kæmi uppá (sem það gerir yfirleitt þá daga sem ég á annað borð fer útúr húsi...). Svo ég kyngdi stoltinu og fyllti út umsóknareyðublaðið með það sterklega á tilfinningunni að þetta væri upphafið að endalokunum. Sem það líklega er. Vildi bara koma þessu frá mér ef ske kynni að ég hyrfi í útlandinu. Death by Visa...
Annars hef ég tekið þá dramatísku ákvörðun að borga greiðsluseðilinn frá Háskólanum. Ekki með Visa. Sem þýðir að frá og með morgundeginum verður þetta ekki aftur tekið, le moufle mun breyta verkfræðideildinni eins og Palli breytti Júróvissjón. Mínus latexið... Úff, hvernig tilfinning ætli það sé að faaalla, með 4.9, tvítvítvítvítvítvííí?

þriðjudagur, júní 17, 2003

Gærkveldið var gífurlega ánægjulegt. Ég er alltaf að komast að því betur og betur að djammgenið mitt er gallað og ég skemmti mér yfirleitt betur ef ég er bara í spjallgírnum að stúta kaffibollum og vatnsglösum til skiptis og fylgjast með dýralífinu á skemmtistöðum borgarinnar. Sem er ansi fjölskrúðugt... Svo neita ég að taka þátt í samsæri leigubílstjóranna og þá er ágætt að hafa bara verið í koffíninu, það er víst ekki vel séð að keyra mikið drukkinn. En í veðri eins og í gær er eiginlega ekki hægt að klúðra kvöldinu, stemmningin í miðbænum er svo ágæt þegar það er hvorki rigning né rok, albjart og göturnar fullar af fólki sem er, fannst mér, ekki jafn sauðdrukkið upp til hópa og það er venjulega við sama tækifæri á veturna, þegar maður þarf að drekka hita í táslurnar. Það er á nákvæmlega svona kvöldum sem Ísland er bara sérdeilis prýðilegt sker að hafa strandað á!

sunnudagur, júní 15, 2003

Úps. Var að lesa mína eigin þvælu hérna og sé að ég hef verið ansi harðorð í garð læknanema eftir háskólakynninguna frægu. Þar sem ég er nú að vinna með einu stykki núna þori ég ekki öðru en að draga þá alhæfingu mína til baka að allir af tegundinni séu vanhæfir til annars en að stoppa í sokka. Hver sá karlmaður sem fer í hvítan "baðkjól" á hverjum degi í vinnunni af fúsum og frjálsum hlýtur að launum mína virðingu sjálfkrafa. Voila!
Ég er mjög glöð með sumarvinnuna mína þetta árið. Mitt ofurnæma lyktarskyn var mér fjötur um fót til að byrja með en eftir að ein eldri starfskvennanna á staðnum gaukaði að mér leyndarmálinu bak við jafnaðargeðið og síkætina (pota hlutum upp í nebbann svo lítið beri á áður en lagt er í stórframkvæmdir) hefur starfshamingja mín stóraukist dag frá degi. Annars er það magnað hvað þarf lítið til að gleðja mann. Ég er núna búin að vera kát án afláts síðan hitinn fór að skríða upp fyrir 10 gráðurnar á daginn, jafnvel þótt ég sjái fram á einhleypt stærðfræðisumar. Sem hljómar reyndar ekki jafn illa í mínum eyrum og eðlilegt skyldi teljast, styttist líklega í að máladeildarstúdentinn neyðist til að játa að stærðfræði geti verið töluvert ánægjuleg... Ætli það séu til pillur við þessu árstíðatengda sólheimaglotti? (Tiltölulega niðurlægjandi orðatiltæki fyrir hina listrænu og skapandi íbúa Sólheima. Hmm. Note to self: Venja sig af þessu og finna staðgengil. Prozac-glott? Neh. Vinna í þessu...)
Sem minnir mig á það. Mig langar einhverja helgina í dagsferð að Sólheimum, endalaust að gerast þar í sumar, sýningar og uppákomur, en enginn virðist hafa áhuga á að koma með. Sjálfboðaliðar rétti upp hönd. Eða hringi. (PS. ef ykkur hefur ekki verið náðarsamlegast afhent símanúmer eða msn heiti undirskrifaðs belgvettlings eru það skýr skilaboð um að a) þið séuð ekki velkominn félagsskapur í nefndan leiðangur og b) þið eigið ekki að vera að bera boðskapinn augum til að byrja með. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir.)

laugardagur, maí 03, 2003

Ég er að missa af öllum skemmtilegu frídögunum!!! Fyrst fóru páskarnir fyrir lítið, svo sumardagurinn fyrsti og frídagur verkamanna fyrir ennþá minna, held ég hafi jafnvel borgað með þeim bara... Öllu þessu annars hefðbundna aðgerðaleysi fórnað á blóðugu altari stúdentsprófa. Ég er að læra fyrir próf í fyrsta skipti á ævinni og verð nú bara að segja að það er ofmetið, allavega er ég ekki ennþá farin að fá neitt ,,kikk" útúr þessu. Reyndar er gaman að troða sig út af súkkulaði en það voru samt bara páskaeggin sem hefðu farið niður hvort sem væri fyrir próflestur eða ekki, bara spurning um hvort maður liggur og horfir á páskadagskrána (eða uppáhaldið mitt þegar ég er að borða margra daga virði af kaloríum í einum rykk, hádegisleikfimina hennar frú Johnson á stöð tvö!) eða les um fjöldamorð, arðrán á þróunarlöndum og annan vibba og páfagaukar alltsaman á meðan átið fer fram. Mín niðurstaða eftir allmargra daga dvöl undir feldi: Fjöldamorð á kaloríum er afskaplega mikið ánægjulegra en fjöldamorð á fólki.

sunnudagur, apríl 20, 2003

Til hamingju með páskana! Ég er orðin gömul. Ég sat í morgun og horfði á páskaeggið mitt (sem venjulega hefur átt mjög stuttan líftíma fyrir höndum eftir að málshátturinn hefur verið fjarlægður með skurðaðgerð) og mig langaði meira í ristað brauð. Svo ég fékk mér ristað brauð og horfði svo meira á eggið en ekkert gerðist. Ekkert vatn í munninn, ekkert kitl í puttana, ekkert. Þetta gæti tengst því að mér var nýlega sagt hversu margar hitaeiningar eru í einu svona eggi, en ég efast samt um það, ástríða eggjanna hefur hingað til verið yfir alla svoleiðis skynsemi hafin. Svo eggið er í ísskápnum. Til hvers eiginlega að lifa ef maður hefur misst löngunina í súkkulaði?
Reyndar hefur þetta sína kosti, nú get ég kannski farið að láta mig dreyma um að lyfta sömu þyngd og (sorglegt en satt) mamma í leikfiminni okkar, og hætt að gráta mig í svefn á kvöldin yfir því að vera meiri aumingi en allar fertugar húsmæður í bænum. Hræðilegt augnablik þegar maður uppgötvar að ekki bara myndi maður líklega þurfa að lúta í lægra haldi fyrir fílefldum karlmönnum sem maður trúði nú alltaf svona innst inni að maður gæti ráðið við ef til kastanna kæmi, heldur gætu líka allar mömmurnar með bústnu kinnarnar og bingóið tekið mann í gegn ef þær langaði. Guði sé lof að þær eru friðsöm dýrategund...

föstudagur, apríl 18, 2003

Vettlingur hefur snúið aftur úr einangrun sinni, heilbrigðari en nokkru sinni! Engin flensa hér takk. Hins vegar kom berlega í ljós á meðan á einangrun minni stóð að heimurinn virkar ekki eðlilega án mín, gerð var hetjuleg tilraun til að dimmitera en sú tilraun fór illa þar sem býflugur nokkrar gengu í skrokk á saklausu manngreyi í miðbænum (sem á nú undir högg að sækja fyrir í landinu þar sem rokið er sjaldan bara úr einni átt í einu...) og allt fór á hinn versta veg. Reyndar fór einangrun mín þann dag að mestu leyti fram í pöndugervi á Ingólfstorgi en þar sem ég er enginn boxhanski er engin leið að reyna að klína þessum ólátum á mig, ég var hreint til fyrirmyndar í allri hegðun (og hógværð). En dagurinn hefði að vísu ekki verið nándar nærri eins ánægjulegur ef starfsmenn Subway hefðu ekki lagt til hina ágætustu salernisaðstöðu fyrir lýðinn og má telja nokkuð víst að dagurinn hefði án hennar einkennst af annars konar ólátum en raunin varð. Þúsund þakkir fyrir það, ykkur er hér með fyrirgefið að ganga með der dagsdaglega!

mánudagur, mars 31, 2003

Nú hefur flensan loksins komið klónum í fjölskylduna, sá minnsti féll fyrstur hefðinni samkvæmt og lýsir sjúkdómurinn sér eins og slæmt kvef nema þessarri pest fylgir að auki óstjórnleg þörf fyrir áður óséðar teiknimyndir og alger missir hæfninnar til að borða nokkuð annað en hlaupbangsa. Þar sem ég hef takmarkaða trú að ágæti hlaupbangsa sem heilafóðurs fyrir stúdentspróf og efast um að þar komi spurningar um hvers konar pöddur Púmba kýs fram yfir aðrar er ég nú fangi í eigin herbergi, litli sýkillinn hefur ekki enn komist hér inn með bakteríurnar sínar og ég lifi í voninni um að gleymast bara hér og finnast ekki fyrr en faraldurinn er genginn yfir (ef ég get þá opnað hurðina fyrir mosagróðri...). Að vísu eru nokkrir hnökrar á þessari áætlun. A) Salernisaðstaðan er í sýkta hlutanum (að vísu er fullkomlega brúklegt gat í bílskúrsgólfið en ég hef áreiðanlegar heimildir um að sýkti aðilinn viti það líka og hafi töluvert meira gaman af en eðlilegt skyldi teljast). B) Sólhatturinn er líka í sýkta hlutanum og er hann nauðsynlegur útbúnaður í baráttunni gegn vibbanum. Maturinn er á sama svæði en ég hef takmarkaðan áhuga á honum eftir að hafa séð pestargemlinginn áðan... Og síðast en ekki síst C) Sálsjúki kötturinn er ýmist á sýkta eða ósýkta hlutanum eftir geðþótta, berandi sjúkdóma þvers og kruss og virðir að vettugi allar mínar aðvaranir um að tekið verði til aðgerða til að stöðva þessa umferð verði ekki bundið enda á vappið af fúsum og frjálsum. Held að einangrun í bílskúrnum sé eina leiðin til að hafa heimil á skæruliðanum (þetta er náttúrulega ekkert annað en sýklahernaður).

miðvikudagur, mars 26, 2003

Nú er það ekki lengur smáborgaralegi, "tvíþumlaísparnaðarskyni", íslenski belgvettlingurinn sem talar heldur hinn hámenningarlegi, fágaði le moufle! Hann fékk nafngiftina þegar hann talaði tungum svo ljóðrænt um helgina að viðstaddir fundu sig knúna til að splæsa á hann ferð til Frakklands í sumar. Ekki kvarta ég. Hentar ágætlega einmitt núna að gerast Frakki, ganga í lið með þeim sem þora að standa upp og mótmæla allri vitleysunni. Frakkar kunna líka að mótmæla öllu milli himins og jarðar, listgrein sem íslendingar hafa látið sitja á hakanum en eru í staðinn orðnir fagmenn í þjóðaríþróttum eins og lestarstjórnun á þjóðvegum landsins og óhóflegu nöldri sem fer þó aldrei yfir þau augljósu velsæmismörk að gera eitthvað í málunum. Svo herrar mínir og frúr, ég kynni, LE MOUFLE!

þriðjudagur, mars 18, 2003

Nú ríkir sorg í herbúðum vettlingsins. Fór og gerði magninnkaup á friðarkertum þar sem þau líta út fyrir að verða nauðsynlegur útbúnaður friðarsinnans á næstunni. Skokkaði svo niður að sjó og kveikti í einu þeirra sem vott minn um samhug með þeim sem munu eiga um sárt að binda í kjölfar yfirvofandi hernaðarátaka. Mæli með að aðrir geri slíkt hið sama, að láta loga á friðarkerti við húsið sitt er friðsamleg leið til að láta í ljós andstöðu sína við stríðið sem bláa höndin hefur sjálfkrafa lýst okkur samþykk. Ingibjörg Sólrún vann sér endanlega inn mitt atkvæði í gær með því að mæta með skítugum almúganum á friðarsamkomuna á Lækjartorgi.
En nú hefur undirritaður vettlingur sumsé formlega flaggað í hálfa yfir þessu öllu saman.

mánudagur, mars 17, 2003

Ég held ég hafi verið að hræða líftóruna úr einu stykki Nojara, fékk þá skipun að skrifa honum bréf og gerði í kjölfarið þá hræðilegu uppgötvun að ég er einstaklega fáfróð um Noreg. Lái mér hver sem vill. Í meginatriðum takmarkast viska mín í þeirri deild við þá staðreynd að þeir fundu í nísku sinni upp ostaskerann, svo ég ræddi það í nokkra stund og þakkaði honum kærlega fyrir það fyrir hönd Íslendinga, því ef maður fer að spá í það, hversu mikið flóknara væri líf manns á ostaskerarans?

föstudagur, mars 14, 2003

Fyrir þá sem eru ekki nógu góðir til að vera í innsta hring mafíunnar minnar, og fengu þar af leiðandi ekki tölvupóst frá mér um málið, en eru samt nógu góðir til að fá að lesa þetta, þá hvet ég ykkur til að mæta með kertaljós á Lækjartorg núna á sunnudaginn kl. 19 til að sýna stuðning ykkar við heimsfriðinn og andstöðu við rembing Gogga W. Runna til að sýna pabba sínum að hann sé sko víst duglegur strákur. Það gerir hvort eð er aldrei neinn neitt á sunnudögum, alveg eins gott að eyða kvöldinu þar eins og heima í sófa, veriði bara vel klædd elskurnar því það er svæsin flensa að ganga!
Og er það bara ég eða er fólk alveg hætt að pæla í nokkrum sköpuðum hlut? Hverslags bjánar kaupa slagorðið "Það þarf stríð til að hafa frið". Bull og endemis vitleysa, þetta hljómar skynsamlega kannski, en er það bara alls ekki því: Ef það er stríð er EKKI friður, það er stríð. Eina leiðin til að hafa frið er að fara ekki í stríð, þá er friður... Einfalt. Ekki kannski alltaf framkvæmanlegt en það skal enginn fá mig til að kaupa það að Goggi litli sé að gera okkur einhvern massívan persónulegan greiða með því að fara í herferð gegn öllum sem aðhyllast þá lífseigu tískubylgju að ganga með viskustykki á hausnum. Ég á viskustykki og vil ekki þurfa að óttast um líf mitt ef ég einhvern daginn ákveð að það sé það eina sem fari vel við nýju buxurnar mínar.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Síðan hvenær eru "nei, því það breytir ekki heiminum" gild rök fyrir að gera hluti ekki??? "Viltu koma í bíó?" "Nei, því það breytir ekki heiminum." Ha? Af hverju missti ég? Var að dreifa bæklingum um styrktarbörn í þróunarlöndunum fyrir ABC í dag og fékk þetta í hausinn. "Ég vil ekki styrkja barn því það breytir ekki heiminum." Minn rass sko, ég er brjáluð! Fyrir utan það að auðvitað breytir það heiminum að taka þátt í þessu, það breytir honum fyrir barnið sem þú styrkir, þá má fólk auðvitað ráða því hvort það kýs að gera þetta eða ekki, án þess að vera neitt verri manneskjur fyrir vikið. En þessi ömurlega réttlæting var bara einum of... Fólki er fullkomlega frjálst að búa í eigin boru alla ævi svo lengi sem það gerir það án þess að blekkja sjálft sig og aðra, en að reyna að réttlæta gjörðir sínar svona, foj...

sunnudagur, mars 09, 2003

Kynningar af öllu tagi eru skemmtilegar. Gaman að sjá fólkið sem sér um kynningarnar rembast við að vera eins skemmtilegt og geislandi af lífsorku og persónutöfrum og það mögulega getur, en sorglegt að sjá hversu illa sumum tekst upp... Líka alltaf ánægjulegt að komast að því að þrátt fyrir að maður sé að verða alveg hundgamall eru ókeypis pennar ennþá spennandi.
Háskólakynningin var semsagt í dag, og ég verð nú bara að segja að hjúkrunarnemarnir stóðu sig langbest, allavega strákarnir tveir sem náðu í skottið á mér. Þeir vissu svörin við öllum spurningunum sem okkur datt í hug (fyndið hvað setningin "hefurðu einhverjar spurningar?" er áhrifarík í að eyða öllu því sem maður ætlaði að spyrja um úr minninu...) og voru bara ferlega næs og skemmtilegir. Ég pant láta þá sprauta mig næst! Allavega hleypi ég ekki læknum framtíðarinnar nálægt mér með nál í hönd, nema þeir séu með götóttan sokk í hinni... Læknanemarnir voru hörmung, annar var of feiminn til að tjá sig og hinn vissi ekki nokkurn skapaðan hlut, eða var allavega of upptekinn við að vera töff til að geta komið því frá sér. Ég segi nú fyrir mitt leyti að ef svo illa færi að ég til dæmis dytti í tvennt og það þyrfti að tjasla mér saman í snatri væri mér nokk sama hversu töff læknirinn minn væri, og ég vona að hann falli á prófunum blessaður... Niðurstaðan eftir þá kynningu var í meginatriðum sú að maður þyrfti að fara að huga betur að heilsunni, því það fer að verða stórvarasamt að leita sér læknisaðstoðar. Annar leiklistarneminn hræddi mig líka. Það voru læti í honum og þessi týpa sem þarf með hverri setningu að sanna að hann sé sko ekki feiminn fer í mínar fínustu, enda held ég að þetta hljóti að vera manngerðin sem að lokum missir það gersamlega og hefur skothríð í Bónus einhvern föstudaginn... Kynjafræðin fær hiklaust verðlaunin fyrir besta bæklinginn, þar sem velt var upp sumum af þeim spurningum sem er hvað mikilvægast fyrir nútimasamfélag að fara að finna svör við, spurningar eins og "Af hverju þurfa karlmenn áskrift að Sýn fyrir að vaska upp?" og "Fá hommar vinnu í Kópavogi?" Svo buðu þau líka upp á Ópal...
Árangur kynningarinnar var mjög misjafn, að henni lokinni langar mig að læra allt sem er boðið upp á í háskólum landsins og helst tvisvar, á meðan félagsskapurinn minn snarmissti í bili áhugann á öllu sem heitir skóli. Þessi staðreynd held ég að leiði til mikilvægustu niðurstöðu sem þessi kynning gat af sér: Ást mín og áhugi eru til sölu fyrir sælgæti!

mánudagur, mars 03, 2003

Af hverju, af hverju, af hverju er alltaf svona kalt í bíó? Og fyrst það þarf að vera svona kalt, ætti þá ekki að minnsta kosti að vera hægt að fá teppi eða heitt kakó þar? (Hvorugt hægt, ég hef spurt...) Þetta er hneisa, blöðin í málið! Viss um að það er klausa um þetta í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, svona er traðkað á grundvallarmannréttindum manns! Gott ef þetta er ekki bara eitt af boðorðunum...

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Þetta veður er að gera mig gersamlega veruleikafirrta. Nú er til dæmis komið vor, sólin skín og grasið er farið að grænka, sem er gott mál, nema ég er farin að efast um að snjórinn sem ég skóf af bílnum mínum í morgun hafi verið raunverulegur, ætli andleg hríð geti líka sest á bílinn manns? Það hjálpar ekki að hafa setið yfir heimspeki síðasta sólarhringinn, þessi snjór gæti hafa verið efnislegur frumhlutur, verund, skynmynd, hugmynd eða bara hvað sem er nema H2O í föstu formi því efni er ekki til því það verður ekki skynjað, og ég veit hvað ég syng, ég hugsa nefnilega og þess vegna er ég! Of mikil heimspeki, of lítill svefn...
Þegar maður er tiplandi á brún geðveikinnar fyrir, er þá sniðugt að sökkva sér ofaní hugsanir allra hinna í sögunni sem voru að missa vitið? "Allt er vatn", hver kaupir svona lagað eiginlega? Ef þessi maður hefði til dæmis haldið til á Hlemmi en ekki í Aþenu (eða hvar sem hann var, hann var allavega þyrstur...) þá hefði enginn tekið mark á þessu bulli. Ég held það væri nær að kenna manni að telja fram til skatts, ekki kann ég það ennþá og þeim er sko alveg sama þótt allir peningarnir sem ég vann mér inn á síðasta ári séu vatn...

laugardagur, febrúar 22, 2003

Ég er hætt í stærðfræði og hætt við að taka stúdentinn í vor. Ég fann í gær mína hillu í lífinu, þar verður borgað undir rassinn á mér útum allan heim og á fín hótel, ég fæ bílstjóra til að snattast með mig um allt og meira að segja mína eigin sterilíseruðu vatnsflösku í löndum þar sem vatnið kemur hreinna úr krönunum! Og þessi hilla krefst þess ekki að ég vinni handtak, heldur geri bara það sem ég er best í, vera leiðinleg, fyrir framan slatta af fólki svona einu sinni í viku. Ég ætla semsagt að verða uppistandari, nánar tiltekið, ég ætla að verða Robert Townsend!!! Reyndar er það að setja markið fullhátt en maður verður að hafa eitthvað að stefna að... Ég efast ekki um að til að verða svona yfirnáttúrulega leiðinlegur þurfi eitthvað að koma til, þrotlausar æfingar, klukkustund eftir klukkustund af Maður er nefndur, horfa á allar Stjörnustríðsmyndirnar í röð (með pissuhléi reyndar, má ekki verða sjálfspíning, á bara að drepa niður öll skemmtilegheit sem gætu leynst einhversstaðar innra með manni) og eftir margra ára virði af leiðindum af ýmsu tagi verð ég tilbúin til að fara á svið og freista þess að vera jafn viðbjóðslega óskemmtileg og Robbi litli.
Nei í alvöru, má þetta??? Má þiggja peninga fyrir að vera skemmtilegur í klukkustund eða svo, taka við fénu og fara svo á svið og kynna fyrir þjóðinni alveg nýtt stig af leiðindum? Og þetta eru ekki gallabuxnafordómar, ég er nógu stór manneskja til að geta fyrirgefið honum þær, enda hljóta þær að vera kall einmana sálar á hjálp, því ég get ekki ímyndað mér að maðurinn sé hrókur alls fagnaðar í samkvæmum... Og þó, annað eins hefur nú gerst, Geir Ólafs fær víst stundum pantanir líka... Smekklaust fólk er til, en eitt vil ég segja um málið; þótt maður sé lokaður inni í dimmum sal með fullt af öðrum saklausum, óspjölluðum hugum, og sagt að maðurinn sem stígi brátt á svið sé fyndinn er ekki víst að hann sé það, og hana nú! (Nú er ég farin að þurrka blóðið úr eyrunum á mér, það rennur enn síðan í gærkveldi...)

föstudagur, febrúar 14, 2003

Elsku litli vettlingurinn minn varð fyrir árás á einkalíf sitt nýlega. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir við fjölmiðla um að fá að halda tilveru sinni leyndri fyrir skítugum almúganum hafði einn aðili (sem verður hér eftir kallaður Júdas) samvisku í að hafa hlekk á sinni síðu yfir á mína. Hans síða getur varla talist siðmenningu okkar til hróss með öllum sínum sora og vil ég biðja aðra aðila sem halda úti slíkum viðbjóði á alnetinu og hafa á fölskum forsendum lætt sér inn í líf mitt vegna þeirra forréttinda að verða reglulegir lesendur "vettlingsins" (sem ég skil reyndar mjög vel) að reyna að halda aftur af sér með að deila dýrðinni með utanaðkomandi og óverðugum einstaklingum. Að ég tali nú ekki um þá sem eru að lesa þetta án þess að hafa fengið til þess formlegt boð, viljið þið ekki bara hlera símtölin mín líka??? (Þetta var grín, kaldhæðni, vinsamlegast ekki hlera símann minn, ég kann ekki að meta svoleiðis lagað...) Vík burt ruslaralýður!

fimmtudagur, febrúar 06, 2003

Eftir að ég sá Fridu hefur mig langað í yfirvaraskegg, búin að vera að einbeita mér að því að láta það vaxa alla vikuna en enn bólar ekkert á því... Argans kvenhormón... Hef ákveðið að láta lappahárin bara vaxa villt í staðinn, og ekki stendur á árangrinum þar! Þétt og fín!

laugardagur, febrúar 01, 2003

Hér ritar nú kona sem er einu líffærinu fátækari en reynslunni ríkari. Finnst samt gífurlega ósanngjarnt gagnvart líffærum eins og hjarta og lifur að gagnslaus varta eins og botnlanginn fái borið sömu nafngift; líffæri. Af hverju í ósköpunum er svona drasli ekki bara kippt úr við fæðingu, ásamt kirtlum, öðru nýranu, nokkrum eitlum og öðru sem við komum aldrei til með að þurfa? Þessi hugsunarháttur er kannski ástæða þess, í hnotskurn, að mér yrði aldrei hleypt í læknisfræði... En hvers vegna er það, að þegar annað fólk er skorið upp á stöðum með nöfn eins og Borgarspítalinn eða Landsspítalinn að þá enda ég alltaf einhvernveginn á Heilsubælinu? Svo virðist sem allir heilbrigðisstarfsmenn (að undaskildu hraðvirka hjúkkugenginu sem kom í skólann til að bólusetja okkur gegn heilahimnubólgu, þvílík atorka!) þjáist af leyndri meinloku sem er þá aðeins vandamál sé háttsett ég á svæðinu. Meira að segja lífvana tæki og tól virka ekki nálægt mér á spítölum, dvöl mín kostaði tvö, TVÖ, saklaus blóðþrýstingsmælitæki lífið, ég fer eins og fellibylur um ganga spítalanna og skil eftir mig slóð eyðileggingar og örvæntingar! En hefnd hjúkkanna var ekki lengi að bíða, og hún var grimmileg, bannað að fara í bað í viku!!! Í viku! Ég á hvorki vini né ættingja lengur, meira að segja kötturinn er hættur að vitja mín...

þriðjudagur, janúar 21, 2003

Jæja, svo bregðast búálfar sem aðrir álfar... Hann er alveg búinn að týna mér, hinsvegar virðist ég vera algerlega ein um það því allir hinir STRÁKARNIR (note bene) spyrja aldrei um neitt. Svo ég spyr; gildir þessi fælni stráka við að spyrja til vegar og lesa leiðbeiningar líka um að viðurkenna fávisku sína í stærðfræði og pota eins og einum skanka líkama síns lóðrétt upp í loft í von um svör? Vona það, annars líð ég allavega tiltölulega mikið meiri gáfuskort en mig grunaði. Sem er ekki góð uppgötvun að gera rétt fyrir stúdentspróf, sérstaklega ekki svona stuttu eftir að trú manns á kennsluhæfileika búálfa er tekin og troðið niður í svaðið...

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Ég steig mín fyrstu skref sem öldungur í dag og uppskar, ja, aðallega hausverk... Jók ekkert átakanlega við þekkingu mína en það gæti verið vegna þess að ég gleymdi að hugsa fyrir hlutum eins og námsbókum, vasareiknum og öðrum munaði sem er víst orðinn staðlaður útbúnaður stærðfræðinema í þessu neysluþjóðfélagi okkar. Var nú ekkert sérlega glöð með sjálfa mig þegar ég uppgötvaði mistökin en var ekki lengi að taka gleði mína á ný þegar í ljós kom að kennarinn minn er búálfur, sem mér finnst gríðarlega ánægjulegt því ég hef alltaf haldið því fram að ekkert sé ofar manns skilningi hafi maður búálf til að útskýra það! Nú þarf ég bara að fá Möggu mína til að grafa upp gömlu stærðfræðibókina sína, veiða mér grafískan vasareikni og þá verð ég til í slaginn...

föstudagur, janúar 10, 2003

Jahá, nú er ég, 19 ára gömul, formlega orðin öldungur, á meira að segja pappírana til að sanna það! Ég vissi að æskudýrkunin væri komin út í dálitlar öfgar en fyrr má nú aldeilis fyrr vera... Að stimpla mann öldung, miskunnarlaust og án þess að maður fái nokkuð um það sagt eða tekið sé tillit til aldurs manns eða hugarástands, Menntaskólinn við Hamrahlíð ætti bara að skammast sín! Maður ætti kannski bara að sætta við við orðinn hlut og reyna að eldast með reisn, hætta að þykjast vera hrukku- og kærulaus unglingur og fara að sækja bingókvöld. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að samfélagið hafi séð fyrir löngu það sem ég sá ekki fyrr en í dag og að ég sé kannski ein af þessum sorglegu, útbrunnu kerlingum sem neita að viðurkenna aldur sinn og klæða sig og tala eins og unglingar, þrátt fyrir að geta geymt veskið sitt í hrukkunum á andlitinu... Til hvers eiginlega að eiga vini ef þeir segja manni ekki svona lagað? (Note to self; segja öllum vinum upp og endurnýja).

miðvikudagur, janúar 08, 2003

Það virkaði! Sem er reyndar engin trygging fyrir að það virki aftur en maður verður að lifa svolítið hættulega... Ætli það nái í gegnum textann að hann sé skrifaður af manneskju í peysu frá GK? Vona það, er voða stolt, hef aldrei verslað í svona fínni búð, ætli ég sé núna orðin þotulið? Hvernig ætli maður komist að svoleiðis? Ég hlýt að koma í Andreu fljótlega... Hún kostaði samt bara 2.500, það er kannski ekki tekið með... Langar samt að vita af hverju þau þurftu endilega kennitöluna mína til að ég gæti keypt hana, kannski til að skrá mig opinberlega sem þotulið? Á eftir að missa svefn yfir þessu sko. Komst reyndar líka að því (ekki í fyrsta sinn, samt alltaf jafn hissa og svekkt...) á ferð minni um frumskóga útsalanna að enn hefur enginn hommanna í París vaknað og ákveðið að hanna buxur sem passa á litlu mig, maður myndi halda að miðað við fjöldann af þessu drasli sem er til myndi eitthvað af því komast allavega nálægt því að passa á mig en nei, svo virðist ekki vera samkvæmt fyrstu athugunum. Hefði líka haldið að það að skreppa skyndilega saman og passa þar af leiðandi ekki í gömlu buxurnar myndi óhjákvæmilega leiða af sér skemmtilega verslunarferð þar sem maður kæmist að því að maður hefði hoppað niður um nokkrar stærðir, en aftur nei, því stærðin mín núna virðist vera dularfull "milli númera stærð" sem engum hefur ennþá dottið í hug að framleiða. Sorglegt.
Hmm, aldrei hefði mér dottið í hug að loksins þegar ég kæmi mér að því að skrifa dagbók yrði hún um föt... Þetta eru gífurleg vonbrigði, hélt ég myndi a.m.k. leysa eitt stórt vandamál sem blasir við heimsbyggðinni, t.d. eyðingu regnskóganna... Það kemur samt ábyggilega um leið og ég fæ buxur!

Mig hefur langað að skrifa dagbók alveg síðan ég las dagbækurnar um hana Kötu þegar ég var lítil. Eftir að hún fór að skrifa dagbók táldró hún spænskan fola, varð módel og súpergella og öll hennar vandamál gufuðu upp. Ætli mín hafi sömu áhrif? Bara ein leið til að komast að því! Hef samt aldrei haft þolinmæði í að skrifa reglulega, oft reynt en aldrei tekist, yfirleitt vegna þess að um leið og ég byrja að skrifa kemst ég að því að ekkert hefur gerst yfir daginn þess virði að skrifa um það, verð leið og þarf að hætta að skrifa til að borða nammi...
Best að reyna að pósta þetta áður en ég skrifa meira, veit ekkert hvernig þetta virkar og verð brjáluð ef ég skrifa fullt og týni því svo! Grr....