Kynningar af öllu tagi eru skemmtilegar. Gaman að sjá fólkið sem sér um kynningarnar rembast við að vera eins skemmtilegt og geislandi af lífsorku og persónutöfrum og það mögulega getur, en sorglegt að sjá hversu illa sumum tekst upp... Líka alltaf ánægjulegt að komast að því að þrátt fyrir að maður sé að verða alveg hundgamall eru ókeypis pennar ennþá spennandi.
Háskólakynningin var semsagt í dag, og ég verð nú bara að segja að hjúkrunarnemarnir stóðu sig langbest, allavega strákarnir tveir sem náðu í skottið á mér. Þeir vissu svörin við öllum spurningunum sem okkur datt í hug (fyndið hvað setningin "hefurðu einhverjar spurningar?" er áhrifarík í að eyða öllu því sem maður ætlaði að spyrja um úr minninu...) og voru bara ferlega næs og skemmtilegir. Ég pant láta þá sprauta mig næst! Allavega hleypi ég ekki læknum framtíðarinnar nálægt mér með nál í hönd, nema þeir séu með götóttan sokk í hinni... Læknanemarnir voru hörmung, annar var of feiminn til að tjá sig og hinn vissi ekki nokkurn skapaðan hlut, eða var allavega of upptekinn við að vera töff til að geta komið því frá sér. Ég segi nú fyrir mitt leyti að ef svo illa færi að ég til dæmis dytti í tvennt og það þyrfti að tjasla mér saman í snatri væri mér nokk sama hversu töff læknirinn minn væri, og ég vona að hann falli á prófunum blessaður... Niðurstaðan eftir þá kynningu var í meginatriðum sú að maður þyrfti að fara að huga betur að heilsunni, því það fer að verða stórvarasamt að leita sér læknisaðstoðar. Annar leiklistarneminn hræddi mig líka. Það voru læti í honum og þessi týpa sem þarf með hverri setningu að sanna að hann sé sko ekki feiminn fer í mínar fínustu, enda held ég að þetta hljóti að vera manngerðin sem að lokum missir það gersamlega og hefur skothríð í Bónus einhvern föstudaginn... Kynjafræðin fær hiklaust verðlaunin fyrir besta bæklinginn, þar sem velt var upp sumum af þeim spurningum sem er hvað mikilvægast fyrir nútimasamfélag að fara að finna svör við, spurningar eins og "Af hverju þurfa karlmenn áskrift að Sýn fyrir að vaska upp?" og "Fá hommar vinnu í Kópavogi?" Svo buðu þau líka upp á Ópal...
Árangur kynningarinnar var mjög misjafn, að henni lokinni langar mig að læra allt sem er boðið upp á í háskólum landsins og helst tvisvar, á meðan félagsskapurinn minn snarmissti í bili áhugann á öllu sem heitir skóli. Þessi staðreynd held ég að leiði til mikilvægustu niðurstöðu sem þessi kynning gat af sér: Ást mín og áhugi eru til sölu fyrir sælgæti!
sunnudagur, mars 09, 2003
Birt af Unnur kl. 17:05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli