laugardagur, desember 29, 2007

Nokkrar jólamyndir

Á Þorláksmessu var soðin skata, en það kunnu ekki allir af mölinni að meta ilminn:

Jólaborðið okkar var hefðbundið og ljúffengt, eins og alltaf:
Við systkinin vorum sérstaklega fín og sæt á aðfangadagskvöld að okkar eigin mati, en fengum engan til að mynda okkur svo við gerðum það bara sjálf:
Ég gerði mitt besta til að ná mynd af okkur ömmu saman en hún var ekkert sérstaklega samvinnuþýð:

Bróðirinn var eins manns skemmtinefnd:
Gamla góða plastjólatréð stóð sig sæmilega eftir að fæturnir undir það fundust loksins, en hallaði samt alltaf meira og meira með hverjum deginum. Það er ólæknandi, enn sem komið er:

Eigið góð áramót!

fimmtudagur, desember 27, 2007

Bakkafjörður, París Langaness...

Minnisbók Sigurðar Pálssonar er stórhættuleg, og ég ráðlegg öllum sem tök hafa á að halda sig sem lengst frá henni. Það er of seint að bjarga mér, ég er búin að lesa hana og þegar orðin langt leidd af Parísarsýkinni, en bjargið sjálfum ykkur! Nú langar mig ekkert meira en að halda aftur til Frans, í þetta sinn til Parísar, læra meiri frönsku, borða meiri ost og drekka meira rauðvín. Langaði að verða skáld í smástund meðan ég var að lesa hana en það bráði sem betur fer fljótlega af mér.
Verst ég nenni ekki aftur ein, allavega ekki eins og er, svo ég þarf að finna mér partner in crime. Og fá nóg af Íslandi, sem ætlar að gerast frekar hægt í þetta sinn. Kann svo ágætlega við mig í rokinu ennþá. Fannst ég á tímabili vera að rykfalla í hnetunni í Strass, en síðan ég flutti heim hefur nú verið loftað ærlega út. Takk Kári*.

*Kári kuldaboli, svo það komist nú ekki á kreik fleiri samsæriskenningar um ástalíf mitt. Jeminn.

mánudagur, desember 24, 2007

Gleðilega hátíð!

Þá er ég mætt í sveitina og öllum meiriháttar jólaundirbúningi lokið. Kökur hafa verið bakaðar, gólf skúruð, gjöfum pakkað inn, jólakortum dreift, fólk knúsað og vettlingur jólabaðaður. Nú er ekkert að gera í stöðunni nema bíða eftir blessuðum jólunum. Og kannski greiða sér.
Sný aftur til höfuðstaðarins 28. desember.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og hamingjuríks nýárs.
Ást og friður.
Vettlingur út.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Jólatölfræði

Próf eftir: 0
Jólagjafir keyptar: 0
Jólakort send: 0
Dagar þar til ég fer í sveitina: 2
Jólatónleikar séðir (heyrðir?): 3
Fólk sem mig langar að hitta og jólaknúsa áður en ég fer í sveitina: 100+
Jólaelgar (elgir?) í stofunni minni: 4
Sérsniðin jólasveinahúfa á Hundmund: 1! (hann er ó svo fínn)

Er samt alltsaman á réttri leið, vinn mikið hraðar eftir að ég pakkaði loksins niður svefnpokanum sem ég er búin að vera að ánamaðkast í heima hjá mér síðustu daga. Stórvarasamt. Nágranninn á hæðinni fyrir neðan heldur sennilega að ég hafi gefið sjálfri mér pogo-prik í snemmbúna jólagjöf eftir allt svefnpokahoppið. Skjús mí.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Skólajól (jólaskól?)

Próflestur kominn á fullt skrið og ég er óþarflega lítið stressuð. Sennilega af því þessi próf eru á tungumáli sem ég skil svona sæmilega, í síðustu prófum hafði ég mestar áhyggjur af því að skilja ekki spurningarnar, ef svo heppilega vildi síðan til að ég vissi svörin við þeim var það bara bónus.
Fór annars í frábæra sundferð í gær, í brjáluðu roki og rigningu. Gott til þess að hreinsa aðeins til í hausnum. Mæli með því.
Á næstu dögum fæ ég, á milli þess sem ég læri fyrir próf, að búa til felt-jólasveina, skera út laufabrauð, kreista trölladeig í jólaleg form og dreifa glimmeri um heiminn. Gaman að vinna í barnaskóla fyrir jólin!

sunnudagur, desember 09, 2007

Brr...

Sófus sjötti er uppáhalds. Er að spá í að fela mig í töskunni hans þegar hann fer heim. Erum búin að blaðra stanslaust síðan hann mætti á svæðið og ég á eftir að sakna hans þegar hann fer, þó það muni nú hugga mig örlítið að endurheimta sængina mína. Hélt ég myndi deyja úr kulda undir aumingjalegu teppi í nótt.
Annars er þetta sniðugasti brúðhjónadans sem ég hef séð, hef þetta í huga ef mér skyldi detta í hug að gifta mig einhvern daginn:

miðvikudagur, desember 05, 2007

Jólaflöff

Foreldraeiningin kíkti í heimsókn áðan til að hengja upp jólaljós í gluggana mína. Þau tóku með sér aðventuljósið með plastblómunum sem er búið að lýsa inn aðventuna síðan ég man eftir mér, og það situr núna í miðjum stofuglugganum mínum. Mömmu finnst það ferlega ljótt og segist vera fegin að losna við það úr húsinu sínu, en mér gæti ekki þótt vænna um það. Fór á kaffihús áðan og þegar ég slökkti loftljósin á leiðinni út var birtan af aðventuljósinu og jólastjörnunni í eldhúsglugganum var svo falleg að ég varð öll flöffí að innan.
Varasöm þessi jól. Gera mann allan meyran.

sunnudagur, desember 02, 2007

Við kveikjum einu kerti á

Í gærkvöldi gerðist svolítið merkilegt. Við Rakel unnum tvo karlmenn í pool. Svo vann ég ein og sjálf einn karlmann í pool. Það er eitthvað skrýtið að gerast með þessa veröld. (Varð að vísu fyrir aðkasti því ég kallaði kjuðann "prik". en mér finnst að þeir sem nota svo umrætt prik aðallega til að skjóta kúlunum útaf borðinu og í höfuð nærliggjandi súkkulaðidrengja ekki eiga að kasta steinum.)
Annars róleg og góð helgi að klárast, búin að eyða töluverðum hluta af henni með familíunni og ekkert nema agalega gott um það að segja. Hef reyndar verið yfirheyrð nokkrum sinnum fyrir ákvörðun mína um að fresta BA skilum en hef mínar ástæður, sem ég nenni ekki að útlista hér en ef einhvern langar að kíkja í kaffi og fá löngu útgáfuna þá er það velkomið. Ennþá velkomnara eftir að ég jólaskreytti pleisið áðan. Meira að segja komin með aðventukrans á réttum degi, sem hlýtur að hafa komið æðri máttarvöldum ferlega á óvart.
PS. Þeim sem eiga erindi í Rúmfatalagerinn fyrir jólin vil ég benda á að veita athygli jólahórunni sem er þar til sölu. Mjög kósý.