mánudagur, október 29, 2007

Á flótta

Um helgina flúði ég alla leið frá Sómalíu til Íslands, fótgangandi fyrir utan leiðina frá Þýskalandi til Íslands sem ég fór siglandi í sendiferðabíl. Frekar trikkí að blogga um leikinn án þess að gefa of mikið upp og skemma hann fyrir öðrum sem eiga eftir að upplifa hann. Og ég mæli með því við alla að prófa þetta, svo eiginlega myndi ég ráðleggja öllum að hætta bara að lesa hér til öryggis...
En ég mætti semsagt galvösk uppá Kjalarnes á laugardaginn þar sem ég varð að 79 ára gamalli sómalskri konu, Sui, í sólarhring. Ég flúði svo ásamt fjölskyldu minni frá Sómalíu til Íslands, (sem fól ótrúlegt en satt ekki í sér meira en ca. 20 km labb). Úff, get ekki sagt ferðasöguna í neinu samhengi án þess að skemma leikinn fyrir fólki, en hér koma nokkrir random punktar:
-79 ára gamalli konunni tókst að gera 20 armbeygjur um miðja nótt á snjóblautum vegi í Rúmeníu, sem mér finnst nokk vel af sér vikið hjá henni.
-Er öll marin og blá eftir að hafa endurtekið hent mér útaf veginum og inní runna í Tyrklandi og Búlgaríu til að fela mig fyrir hermönnum (sem fundu mig engu að síður tvisvar).
-Er líka marin og blá báðum megin á mjöðmunum eftir að hafa "sofið" á steingólfi. Er prinsessan á bauninni.
-Tókst að verða aldrei svöng þrátt fyrir að fá bara einu sinni að borða á þessum sólarhring og þá bara hálfan disk af ofsoðnum hrísgrjónum. Vatnsþambarinn ég varð hinsvegar mjög þyrst, tvö vatnsglös duga mér ekki yfir sólarhringinn, sérstaklega ekki á svona labbi.
-Var greind með Acute Stress Disorder og þunglyndi af Dr. Strangelove í Yemen (ekki skrýtið kannski þar sem fjölskyldan mín var nýbúin að reyna að selja mig á landamærunum...).
-Var á endanum sú eina sem fékk hæli á Íslandi, restin af liðinu var send til baka til Sómalíu. Ég segist hafa unnið leikinn, en dipló Rauðakrossfólkið segir að við höfum öll unnið. Meira ruglið.
-Er með harðsperrur á undarlegustu stöðum.
-Allir unglingarnir í fjölskyldunni minni voru of stórir til að ég kæmi þeim ofaní svefnpokann minn, og enginn hundur á staðnum, svo ég fraus bara. Business as usual. Skondið samt að mér var aldrei kalt úti en undantekningalaust inni. Þarf eitthvað að láta athuga þetta.
-Næturlabbið í snjókomunni var svo frábært að ég er búin að skipuleggja annað helgina 10.-11. nóvember. Velkomin með.

fimmtudagur, október 25, 2007

Misc.

Best að blogga til að draga athyglina frá því hvað ég er svöng (er fangi í eigin svefnherbergi því Sófus 4, venesúelskur doktorsnemi í heimspeki, er sofandi í stofunni og ég vil ekki trufla hann með morgunverðarbrölti).
Hélt afmælisteiti um síðustu helgi sem tókst mjög vel, var reyndar fámennt en góðmennt útaf Airwaves en það telst frekar kostur en galli þegar íbúðin er lítil og staðsett í fjölbýlishúsi. Hefði ekki getað verið ánægðari með kvöldið, en þar sem ég hef ekki ennþá komið því í verk að sækja myndavélarhleðslutækið mitt í Mosó þá gat ég engar myndir tekið af gleðinni. Verðið bara að trúa mér. Var gleði. Takk fyrir komuna og fyrir mig elsku fólk!
Annars geri ég lítið annað þessa dagana en að læra, fullt að gera í öllum kúrsum og svo á ég víst að vera að skrifa BA-ritgerð. Nóg að gera, og er að verða gróin við skrifborðstólinn minn. Um helgina krefst einn kúrsanna minna þess að ég húki á Kjalarnesi í roki og væntanlega rigningu í einn sólarhring og láti beita mig ýmiss konar andlegu ofbeldi. Ég væri ekkert nema fylgjandi því, ef ekki væri fyrir félagsskapinn sem við verðum í. Kúrs úr stjórnmálafræði HÍ + 10. bekkur Fellaskóla + einhver félagsmiðstöð úr Kópavogi. Er hrædd við unglinga. Ætla að mæta í felulitum, liggja grafkyrr útí móa og vona að enginn finni mig fyrr en 24 stundirnar eru liðnar. Annað sem ég hef áhyggjur af er svefnpokasofelsið, en það er náttúrulögmál að ég frýs í svefnpokum, meira að segja innandyra. Svo nú þarf ég að vita, hversu illa séð væri það af samfélaginu að skríða ofaní svefnpokann hjá einhverjum unglinganna? Þið vitið, til að nýta líkamshitann? (Ekki víst að það dygði reyndar, svaf með hund í svefnpokanum á landsmóti hestamanna í fyrra og fraus samt (hundurinn hafði það kósý og svaf vært) en unglingar eru eitthvað stærri en hundar svo þetta ætti allavega séns á að virka...).

mánudagur, október 15, 2007

Einu árinu nær því að verða fullorðin

24. afmælisdagurinn minn var með eindæmum góður. Ég eyddi laugardeginum í bakstur og tiltekt og bauð svo stórfjölskyldunni í heimsókn á sunnudaginn, að vísu varð ekkert eins og það átti að vera í bakkelsisdeildinni en allt var nú samt sæmilega ætt, og meira að segja súkkulaðikakan sem varð að búðingi hvarf merkilega hratt. Það var dansað í stigaganginum, ráðist á fólk með rjómasprautum og verið með almennan hávaða og ólæti, og ég hefði ekki getað verið ánægðari með samkomuna. Takk fyrir mig!
Mamma hjálpaði mér svo að taka til eftir liðið (það var líka hún sem bakaði allt sem leit sæmilega eðlilega út á veisluborðinu) svo um sjöleytið sat ég ein eftir, södd og sæl í hreinni íbúð. Nokkuð vel af sér vikið.
Daginn endaði ég svo á að þiggja sjávarréttaþemað matarboð á Viktor af Rakel, og bjóða svo henni og Olivier heim í afganga. Við Rakel duttum í að rifja upp gamlar syndir, og Olivier fékk nett menningarsjokk. Held hann sé feginn að vera á leið heim til Frakklands á ný, þar sem ostum og vínberjum er haldið í öruggri fjarlægð hvoru frá öðru og hver máltíð tekur lengri tíma en 5 mínútur (með uppvaski).

þriðjudagur, október 09, 2007

Lögst undir feld

Ég veit fátt betra þessa dagana en að sitja heima á Garðastrætinu mínu fína, með tvö teppi, stússast í BA-ritgerðinni og hlusta á rigninguna lemja gluggann. Ég vona að veðrið verði ekki svona í allan vetur því þá eru allar líkur á því að ég fari ekkert undan teppunum fyrr en í vor.

Ég held ég sé alveg óvart komin í keppni við sjálfa mig um að búa til ógeðslegasta morgunmat sögunnar. Í morgun sló ég öll fyrri met með því að henda fullt af spínati, refasmáraspírum og einum banana í blandarann þar til það varð að einhverju sem líktist hálf-jórtruðu grasi. Á morgun ætla ég að reyna að gera það ennþá viðbjóðslegra með því að bæta trefjadufti við allt draslið, og mögulega smá ananas. (Þetta gerist þegar maður býr einn og gleymir að hugsa fyrir því í Bónus að maturinn sem maður kaupir þurfi að passa saman. (Svipað vandamál í fatabúðum er ástæðan fyrir því að ég er alltaf klædd eins og álfur útúr hól)).

Ég mundi það skyndilega í gær að ég á afmæli um næstu helgi, og er að reyna að gera það upp við mig hvort ég nenni að halda innflutnings/afmælispartý eða ekki. Er ekki of seint að fara að bjóða í svoleiðis samkomu núna? Enda ég þá ekki bara með fullt hús af lúðum, því allt svala liðið er búið að lofa sér annað?

mánudagur, október 08, 2007

Myndz

Nokkrar blandaðar myndir frá fyrsta mánuðinum mínum á Íslandi

Útsýnið af svölunum mínum á Garðastrætinu, miðbæjarrómantík uppá sitt besta:
Sófus 2 að borða samloku með hrossabjúgum og uppstúf:Við Rakel fórum í bústað og höfðum það huggulegt eina helgina:

Ég ætlaði að halda villt fjögurra manna partý en 66,7% gestanna voru uppteknir við mikilvægari hluti (eins og svefn) svo við Maggi enduðum á að drekka bleika kokteila í tveggja manna partýi:Það varð villtara með hverjum bleikum kokteil:
Lenti í fínu afmæli með gleraugnaþema. Við Arna vorum þær einu sem hlýddum:Ása dró mig úr náttfötunum og í bæinn um miðja nótt, kvöldið lifir í minningunni sem verst heppnaða djamm sögunnar. Þau voru samt sniðug. Hér er Ása hress, og hægri nösin á Fjalari líka:
Ég bjó til þessa fínu Hello Kitty köku fyrir afmælið hennar Ástu Sóleyjar. Því miður gerðu ofur-stóru augun það að verkum að hún leit út fyrir að vera útspíttuð:Athyglisvert nokk gerði afmælisbarnið það eiginlega líka:

mánudagur, október 01, 2007

RIFF

Kvikmyndahátíð er algjörlega frábært fyrirbæri. Við hátíðarpassinn minn erum nú þegar búin að sjá þrjár myndir (fyrir utan Jaws, sem ég sá í Laugardalslauginni, þar sem ég flaut í fósturstellingunni á handakútum. Er hetja) og þær voru hver annarri betri.
Fyrst sá ég "Stelpur rokka!" sem var algjörlega frábær, kann ekki nógu mörg lýsingarorð til að segja ykkur hvað hún er góð, þið verðið bara að kíkja á hana sjálf. Fyndin og truflandi og skemmtileg og inspiring og mikilvæg. Stelpur eru rokkarar.
Næst sá ég "Járnbrautarstjörnur", sem er allt öðruvísi en stelpurokkið, en alls ekki síðri. Mynd sem mér fannst gerð af ótrúlega fallegri umhyggju, um fólk sem er annars ekki sýnd nein virðing í lífinu. Góð góð góð.
Rétt áðan var ég svo að horfa á "Umskipti", sem var svo hreinskilin og jarðbundin að mér hálfbrá, en þess betri fyrir vikið. Algjört menningarsjokk, en á góðan hátt.
Næstu daga er ég svo meðal annars að fara á "Ljón innanhúss", "Listin að gráta í kór", "Himinbrún", "Þið, lifendur", "Hjálpaðu mér Eros", "Tryllt ást", "4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar" og "Dökkblárnæstumsvartur". Ef einhver vill fara með á einhverja af þessum myndum, eða einhverja aðra mynd á hátíðinni, verið í bandi.