þriðjudagur, janúar 22, 2008

Engrish

Ég hef loks komist til gruggugs botnsins í þessu TOEFL máli, eftir ótal símtöl, tölvupósta og skrifstofuheimsóknir. Meira hvað það er erfitt að toga svör uppúr þessu liði. En þar sem svo margir sem ég þekki virðast vera í sömu stöðu og ég þá fannst mér patent að láta ykkur vita að isoft.is ætlar að halda TOEFL próf á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð (en eru ekkert sérstaklega dugleg að skipuleggja próf fram í tímann, fullyrða samt að þau verði í boði eitthvað áfram). Þau verða ekki með GRE próf.
Ég verð þá að finna mér aðra afsökun fyrir að fara til London. Einhverjar hugmyndir?

(Takk fyrir allar góðu ábendingarnar í kommentunum síðast allir! Lovlí!)

miðvikudagur, janúar 09, 2008

2008 sófar

Enn og aftur lýsi ég eftir hæfum einstaklingi til að taka fyrir mig ákvarðanir. Viðkomandi þarf ekki að taka allar ákvarðanirnar samt, ég vil sjálf fá að ákveða hvað ég borða og í hverju ég er og svona (þó ég viti að ákveðnir fjölskyldumeðlimir hafi reynt að fá mig svipta sjálfræðinu vegna þess síðarnefnda). Umsækjandi þarf bara að vera tilbúinn að ákveða allt þetta stóra, hvert á ég að fara í master og í hverju, hvenær, hvar á ég að vinna í millitíðinni ef það er einhver millitíð og svo framvegis. Kökusneið. Hver er til?
Mér sýnist ég í öllu falli þurfa að skella mér til London fljótlega til að taka TOEFL próf, ég get ekki séð að það sé í boði að taka þau á Íslandi eins og er. Veit einhver betur?
En í stuttu máli þá voru áramótin fín, þrettándinn líka, og eiginlega bara allir hinir dagarnir sem liðnir eru af þessu ágæta ári. Engin sérstök áramótaheit strengd en margt á teikniborðinu, engin lognmolla frekar en vanalega og það er ágætt.
Planið er ennþá að byrja í samkvæmisdansi í næstu viku en þessir strákar eru svo erfiðir viðureignar að það á enn eftir að koma í ljós hvort það gengur upp. Vona það samt. Er bara að segja ykkur frá þessu því ef gæinn sem er efstur á dansfélagaóskalistanum reynist of upptekinn þessa önnina til að geta dansað við mig (hæ Gunni!) þá mega allir karlkyns sem ég þekki (og lesa örugglega fæstir vettlinginn en ég vona að þetta berist þeim með hugarorkunni *bzzz*) eiga von á því að það verði vælt og skælt í þeim. Farið að hita upp og teygja, just in case.
Mamma var ósátt við að hafa verið skilin útundan í jólamyndabirtingum, svo hér erum við mæðgur að bjóða nýja árið velkomið. Góluðum svo mikið af flugeldaaðdáun að nágrannarnir hafa sennilega haldið að við værum hættar að taka lyfin okkar:Ritgerðaskil á föstudag. Engar einkunnir komnar í hús enn. Þakka bara fyrir að vera ekki að bíða eftir námslánum.