laugardagur, ágúst 19, 2006

Spandexdagurinn (a.k.a. maraþonið)

Í dag er Reykjavíkurmaraþon, og þar ætlar meðal annars hann Jón Örn að hlaupa til styrktar MND félaginu. Allir sem hitta á hann á næstunni ættu að gefa honum klapp á bakið fyrir það, enda ekki allir tölvunarfræðinemar sem eru til slíkra stórræða. Ég efast ekki um að þetta maraþon sé vel skipulagt að flestu leyti, en eitthvað verður undan að láta þegar svona stórviðburðir eru skipulagðir og í ár voru það merkingar um lokun á Sæbraut á leiðinni frá heimili mínu og að Laugum. Þetta benti ég manninum í gula vestinu sem sveiflaði prikinu sínu ógnandi í áttina til mín vingjarnlega á þegar ég, ásamt tveimur öðrum grunlausum ökumönnum, var allt í einu stödd keyrandi í miðju spandexhafinu.
Í öðrum fréttum þá er ég að vinna síðustu helgarvaktina mína sennilega næsta árið eða svo í þessum töluðu.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Más, blás, hóst...


Aumingjans litlu lungun mín. Ég söng svo mikið í bílnum áðan að mig fór að svima. Segir mér kannski að það hafi ekki verið góð hugmynd að sleppa hlaupaæfingunni áðan...

föstudagur, ágúst 11, 2006

22 dagar

Þá er ég loksins búin að panta mér flug, brottför er áætluð 2. september. Hefði reyndar viljað fara aðeins seinna, og geta verið viss um að ná að kynna mig fyrir unganum þeirra Ásu og Fjalars, en þori ekki að hætta á að ná ekki að klára alla pappírsvinnuna sem fylgir þessu víst þarna úti. Ása mín, þú verður bara að kreista hann út á réttum tíma! Komaso!
Um daginn komst ég svo að því að ég er algerlega að fara til vitlauss lands, fyrst komu hingað Frakkar sem reyndu að tala við mig og það hefði alveg eins getað verið kínverska fyrir mér, svo kom spænsk kona og ég skildi hana vandræðalaust. Kannski að ég laumi mér bara yfir til Spánar ef allir benda á mig og hlæja fyrir að vera stúpidd. Sumarið mitt á Spáni forðum er samt heilmikið að hjálpa mér við undirbúninginn, það sem mig vantaði mest þar var íslensk tónlist og myndir af fólkinu mínu öllu, svo það er einmitt það sem ég er að sanka að mér núna. Þið megið eiga von á mér og tölvunni minni í heimsókn á næstu dögum þar sem við förum í gegnum geisladiskahillurnar. Svo er ég að fara að framkalla helling af gömlum myndum, taka nýjar og ráðast í nokkrar tölvur hjá vinum og vandamönnum þar sem ég veit af myndum sem mig langar í. Ég er semsagt að fara að vera frek og uppáþrengjandi, en það er allt gert til þess að þið saknið mín minna.
Á meðan ég er að hafa áhyggjur af þessu þá er ég að gefa skít í allt annað sem ég þarf að hafa með mér, og sumarprófið sem ég er að fara í 24. ágúst. Svona er forgangsröðin manns stundum spes.
PS. Ég held mér verði óglatt af appelsínum.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Menningarárekstur nr. 1 (af áætluðum 317)

Ég var að fá senda pappíra frá eiganda íbúðarinnar á Slátrarastrætinu sem ég þarf að fylla út og senda honum aftur. Gott og vel. Með þessum pappírum kom tölvupóstur, bæði frá honum og svo frá annarri Matthildinni minni í sambandi við greiðslu á smá leigu fyrirfram. Allt eðlilegt þar. Nema hvað að bæði Matthildurin og eigandinn taka það sérstaklega fram að FORELDRAR mínir þurfi að greiða svo og svo mikið fyrir leiguna. Ekki ég. Foreldrar mínir. Þó ég sé að verða 23ja. Þá veistu það mamma, þú borgar víst leiguna!

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

End of an era

Á sunnudaginn vann ég síðustu vaktina mína í World Class í bili, eftir tæplega þriggja ára blóð svita og tár þar. Mikið er ég glöð að vera hætt, allavega í bili, en ég er samt ennþá glaðari yfir að hafa tekið þessarri vinnu þegar mér bauðst hún á msn um árið (takk Hrefna :*). Þetta hús og fólkið í því er orðið svo stór hluti af rútínunni minni að ég get ekki ímyndað mér hvernig líf mitt væri án þess í dag, þetta er búið að vera svo mikið athvarf síðustu árin og mörgum af mínum bestu vinum kynntist ég þar. Ég setti mynd af mér á desktoppinn á tölvunni í kveðjuskyni, því ég er sannfærð um að mín verði saknað gífurlega. Starfslok mín væru samt mun dramatískari ef ég væri ekki að fara að vinna hinumegin við ganginn í vinkifjarlægð næstu þrjár vikurnar...

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Save the last dance for me...

Aumingja köngulóin mín þarf að hafa fyrir lífinu í vindinum í kvöld, ríghélt sér alveg í vefinn sinn þegar ég kom heim. Ég hefði boðið henni inn í lognið og hlýjuna, en ég er hrædd við hana. Samt er mér alls ekki sama um örlög hennar, við erum nú einu sinni sambýliskonur og búnar að vera í allt sumar, ég vona að hún spjari sig í nótt. Og ég vona að hún sé búin að fyrirgefa mér það að hafa slitið eitt lítið band af vefnum hennar um daginn (sem var komið þvert yfir miðja hurðagættina mína, en hélt greinina heila klabbinu saman því vefurinn hennar rúllaðist upp eins og rúllugardína þegar ég sleit hann).
Ég er sykurpúði í kvöld.