mánudagur, nóvember 14, 2005

Blogghlé

Hér verður ekki bloggað allra næstu vikurnar af persónulegum ástæðum, hafið það nú gott öllsömul, ég sný aftur fyrr en seinna hérna.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Unnsa svampur

Ég þarf greinilega að fylgjast betur með umhverfi mínu. Búin að vera í vinnunni í rúma tvo tíma og skil ekkert í því hvað ég er allt í einu orðin eitthvað mjúk og væmin að innan, uppgötva svo að sándtrekkið úr Notting Hill er búið að vera á rípít í spilaranum síðan ég kom... Ég skipti snarlega yfir í Sítt að aftan, og er núna að reyna að föndra herðapúða úr gömlu Séð og heyrt blaði inní bolinn minn. Meira hvað maður er áhrifagjarn af tónlist. Vona bara að engun detti í hug að spila hérna Smack my bitch up eða Burning down the house, það gæti farið afskaplega illa.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Fréttatilkynning dagsins


Í stað þess að vinna í ritgerðunum tveim sem ég á að skila innan skamms verð ég að vinna frá því kl. 16 í dag til kl. 14 á sunnudag. Bara ef ske kynni að þið hélduð að ég væri týnd. Ég verð nú samt í góðum félagsskap í vinnunni, bæði samstarfsfélagalega séð og kúnnalega séð, svo ég spjara mig alveg, en það er alltaf gott að nöldra, bara smávegis svona. Annars er ég komin í bullandi jólaskap alveg, langar ekkert að gera nema maula piparkökur og krulla pakkabönd, en það er ekki í boði alveg strax. Held ég klári ritgerðirnar tvær, vindi mér svo í jólin og klári þau áður en prófin byrja. Síðasta prófið er nefnilega 21. desember og ég fer líklega austur 22., og þó ég hafi í hitteðfyrra keypt allar jólagjafirnar, pakkað þeim inn og komið til skila á hálfum degi er ég ekki viss um að ég treysti mér í svoleiðis læti aftur í ár. Vil allavega heilan dag til að dunda mér við þetta, svona verður maður kröfuharður með aldrinum. Svo ef einhver er í jólainnkaupahugleiðingum ca. 23. nóvember þá vantar mig verslunar- og raulfélaga.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Bókalaus og tímalaus

Nú er ég komin á fullt span að reyna að vinna upp allt sem ég missti úr meðan ég var veik. Eini gallinn á því plani er að ég hef ekki mjög mikinn tíma til þess þar sem ég er alltaf að vinna, upprunalega planið mitt fyrir veturinn gerði víst ekki ráð fyrir neinum óvæntum uppákomum, það er ég að sjá núna... En tímaleysi er nú ekki nýtt vandamál í mínum bókum, og ég geri ráð fyrir að það sleppi fyrir horn eins og það hefur gert hingað til. Stærsta (og hneykslanlegasta) vandamál dagsins er að bókin sem ég átti að kaupa fyrir einn kúrsinn minn meðan ég var lasin, en komst ekki til að gera fyrr en áðan, er uppseld, og kemur ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir hálfan mánuð. Þetta gerðist líka í fyrra, ég fékk ekki kennslubókina í hagfræðikúrsinum mínum fyrr en mánuði eftir að skólinn byrjaði og gat þar af leiðandi ekkert byrjað að læra fyrr en þá. Er til of mikils ætlast að skyldulesefnið í kúrsunum við skólann sé bara til, jafnvel eins og mánuði fyrir próf? Garg! Jeminn eini hvað ég er hress í dag...

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Æi...

Ég er komin með samviskubit yfir að hafa líkt Kastljóss-Jóhönnu við Myrkrahöfðingjann. Mér finnst hún nefnilega að hárinu slepptu ofsalega indæl og góð sjónvarpskona og á þess utan ekkert með að vera að gagnrýna neins hár eins og er. Mitt er í augnablikinu mun djöfullegra en hennar hár nokkurn tíma. Nú vona ég að litla glerhúsið mitt fái að standa örlítið lengur...