þriðjudagur, júní 17, 2003

Gærkveldið var gífurlega ánægjulegt. Ég er alltaf að komast að því betur og betur að djammgenið mitt er gallað og ég skemmti mér yfirleitt betur ef ég er bara í spjallgírnum að stúta kaffibollum og vatnsglösum til skiptis og fylgjast með dýralífinu á skemmtistöðum borgarinnar. Sem er ansi fjölskrúðugt... Svo neita ég að taka þátt í samsæri leigubílstjóranna og þá er ágætt að hafa bara verið í koffíninu, það er víst ekki vel séð að keyra mikið drukkinn. En í veðri eins og í gær er eiginlega ekki hægt að klúðra kvöldinu, stemmningin í miðbænum er svo ágæt þegar það er hvorki rigning né rok, albjart og göturnar fullar af fólki sem er, fannst mér, ekki jafn sauðdrukkið upp til hópa og það er venjulega við sama tækifæri á veturna, þegar maður þarf að drekka hita í táslurnar. Það er á nákvæmlega svona kvöldum sem Ísland er bara sérdeilis prýðilegt sker að hafa strandað á!

sunnudagur, júní 15, 2003

Úps. Var að lesa mína eigin þvælu hérna og sé að ég hef verið ansi harðorð í garð læknanema eftir háskólakynninguna frægu. Þar sem ég er nú að vinna með einu stykki núna þori ég ekki öðru en að draga þá alhæfingu mína til baka að allir af tegundinni séu vanhæfir til annars en að stoppa í sokka. Hver sá karlmaður sem fer í hvítan "baðkjól" á hverjum degi í vinnunni af fúsum og frjálsum hlýtur að launum mína virðingu sjálfkrafa. Voila!
Ég er mjög glöð með sumarvinnuna mína þetta árið. Mitt ofurnæma lyktarskyn var mér fjötur um fót til að byrja með en eftir að ein eldri starfskvennanna á staðnum gaukaði að mér leyndarmálinu bak við jafnaðargeðið og síkætina (pota hlutum upp í nebbann svo lítið beri á áður en lagt er í stórframkvæmdir) hefur starfshamingja mín stóraukist dag frá degi. Annars er það magnað hvað þarf lítið til að gleðja mann. Ég er núna búin að vera kát án afláts síðan hitinn fór að skríða upp fyrir 10 gráðurnar á daginn, jafnvel þótt ég sjái fram á einhleypt stærðfræðisumar. Sem hljómar reyndar ekki jafn illa í mínum eyrum og eðlilegt skyldi teljast, styttist líklega í að máladeildarstúdentinn neyðist til að játa að stærðfræði geti verið töluvert ánægjuleg... Ætli það séu til pillur við þessu árstíðatengda sólheimaglotti? (Tiltölulega niðurlægjandi orðatiltæki fyrir hina listrænu og skapandi íbúa Sólheima. Hmm. Note to self: Venja sig af þessu og finna staðgengil. Prozac-glott? Neh. Vinna í þessu...)
Sem minnir mig á það. Mig langar einhverja helgina í dagsferð að Sólheimum, endalaust að gerast þar í sumar, sýningar og uppákomur, en enginn virðist hafa áhuga á að koma með. Sjálfboðaliðar rétti upp hönd. Eða hringi. (PS. ef ykkur hefur ekki verið náðarsamlegast afhent símanúmer eða msn heiti undirskrifaðs belgvettlings eru það skýr skilaboð um að a) þið séuð ekki velkominn félagsskapur í nefndan leiðangur og b) þið eigið ekki að vera að bera boðskapinn augum til að byrja með. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir.)