laugardagur, maí 03, 2003

Ég er að missa af öllum skemmtilegu frídögunum!!! Fyrst fóru páskarnir fyrir lítið, svo sumardagurinn fyrsti og frídagur verkamanna fyrir ennþá minna, held ég hafi jafnvel borgað með þeim bara... Öllu þessu annars hefðbundna aðgerðaleysi fórnað á blóðugu altari stúdentsprófa. Ég er að læra fyrir próf í fyrsta skipti á ævinni og verð nú bara að segja að það er ofmetið, allavega er ég ekki ennþá farin að fá neitt ,,kikk" útúr þessu. Reyndar er gaman að troða sig út af súkkulaði en það voru samt bara páskaeggin sem hefðu farið niður hvort sem væri fyrir próflestur eða ekki, bara spurning um hvort maður liggur og horfir á páskadagskrána (eða uppáhaldið mitt þegar ég er að borða margra daga virði af kaloríum í einum rykk, hádegisleikfimina hennar frú Johnson á stöð tvö!) eða les um fjöldamorð, arðrán á þróunarlöndum og annan vibba og páfagaukar alltsaman á meðan átið fer fram. Mín niðurstaða eftir allmargra daga dvöl undir feldi: Fjöldamorð á kaloríum er afskaplega mikið ánægjulegra en fjöldamorð á fólki.