Til hamingju með páskana! Ég er orðin gömul. Ég sat í morgun og horfði á páskaeggið mitt (sem venjulega hefur átt mjög stuttan líftíma fyrir höndum eftir að málshátturinn hefur verið fjarlægður með skurðaðgerð) og mig langaði meira í ristað brauð. Svo ég fékk mér ristað brauð og horfði svo meira á eggið en ekkert gerðist. Ekkert vatn í munninn, ekkert kitl í puttana, ekkert. Þetta gæti tengst því að mér var nýlega sagt hversu margar hitaeiningar eru í einu svona eggi, en ég efast samt um það, ástríða eggjanna hefur hingað til verið yfir alla svoleiðis skynsemi hafin. Svo eggið er í ísskápnum. Til hvers eiginlega að lifa ef maður hefur misst löngunina í súkkulaði?
Reyndar hefur þetta sína kosti, nú get ég kannski farið að láta mig dreyma um að lyfta sömu þyngd og (sorglegt en satt) mamma í leikfiminni okkar, og hætt að gráta mig í svefn á kvöldin yfir því að vera meiri aumingi en allar fertugar húsmæður í bænum. Hræðilegt augnablik þegar maður uppgötvar að ekki bara myndi maður líklega þurfa að lúta í lægra haldi fyrir fílefldum karlmönnum sem maður trúði nú alltaf svona innst inni að maður gæti ráðið við ef til kastanna kæmi, heldur gætu líka allar mömmurnar með bústnu kinnarnar og bingóið tekið mann í gegn ef þær langaði. Guði sé lof að þær eru friðsöm dýrategund...
sunnudagur, apríl 20, 2003
Birt af Unnur kl. 16:00
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli