þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Þessa dags verður minnst fyrir þær sakir að Unnsa litla slapp naumlega frá ótímabærum dauðdaga á veitingahúsinu Mekong í Sóltúninu. Nú er ég þess fullviss að vondir kallar þessa heims hafa áttað sig á þvílík þjóðþrifaverk ég á eftir að vinna í framtíðinni og hafa því ákveðið að taka höndum saman og koma mér fyrir kattarnef, og ég verð nú að segja þeim til hróss að þessi fyrsta tilraun var ansi frumleg. Prik fyrir það.
Ég var sumsé að fá mér í gogginn á Mekong í hádeginu í dag (eftir smávægilegar hremmingar í umferðinni af völdum hálku) og svona framan af máltíðinni gekk það framar vonum, fínn matur og svo vel útilátinn að ég gat tekið heila máltíð með mér heim afgangs eftir að hafa þó borðað mig rúmlega sadda á staðnum. En þar sem ég sat í sakleysi mínu og var að einbeita mér að því að hefja meltingu (viðkvæmt ferli), fór mig að kitla einkennilega í hálsinn. Það var smávægilegt í fyrstu og kenndi ég kvefinu mínu um, þar til átfélagarnir mínir fóru líka að hósta. Eftir nokkrar mínútur voru allir á staðnum farnir að hósta ákaflega og þar kom að lokum að við spurðum afgreiðslumanninn (sem hóstaði okkur til samlætis) hvað gengi eiginlega á í eldhúsinu. Hann grennslaðist fyrir um það og sagði að kokkarnir væru að sjóða chilipipar! Klukkan rétt rúmlega tólf, í miðri hádegisösinni! Annar þeirra, lagleg ung stúlka, kom skælbrosandi fram og fannst greinilega mjög skondið að fylgjast með viðskiptavinunum í dauðatygjunum. Við vorum ekki lengi að láta okkur hverfa og mættum í dyrunum nokkrum svöngum sakleysingjum. Við vorum of upptekin við að bjarga lífi okkar og limum til að vara þá við hættunni en heyrðum að þeir voru strax farnir að hósta lifur og lungum, og ekki einu sinni búnir að panta...

Engin ummæli: