þriðjudagur, desember 30, 2003

Þá er ég komin heim aftur, merkilegt hvað það er alltaf yndislegt að stíga yfir þröskuldinn heima hjá sér. Verst að nú er svo mikill snjór í götunni minni að ég kemst ekki út aftur, en ef maður ætlar að vera strand einhversstaðar er best að það sé á manns eigin heimili en ekki flugvellinum á Akureyri eins og allt stefndi í áðan. Þetta var frekar skrautlegt ferðalag hjá okkur í dag. Fyrst snéri vélin sem var á leiðinni að sækja okkur á Vopnafjörð við vegna þess að það gleymdist að setja í hana sæti (!!!), svo vorum við strandaglópar á Akureyri í nokkra tíma áður en við hringsóluðum yfir Reykjavík ferlega lengi meðan verið var að hreinsa mesta snjóinn af flugbrautinni. Huggulegt. Við hristumst alveg ferlega í rokinu yfir borginni en við mamma hugguðum okkur við það að þeir gætu ekki látið okkur hrapa, ekki með allt þetta fræga fólk í vélinni. Þetta var algert Séð & Heyrt blað bara, Jón Gnarr, Logi Bergmann (með skvísuna sína sem ég man aldrei hvað heitir) og Jónsi svartklæddi. Ég hef nú aldrei verið neinn ákafur aðdáandi þess síðastnefnda, hélt hann hlyti að vera á lyfjum fyrst hann var alltaf svona kátur, en ég verð nú að gefa honum það kredit að hann var mjög aðlaðandi svona í eigin persónu, ferlega huggulegur og kom vel fyrir bara. Svona getur sjónvarpið blekkt okkur skítugan almúgann.

Engin ummæli: