laugardagur, febrúar 22, 2003

Ég er hætt í stærðfræði og hætt við að taka stúdentinn í vor. Ég fann í gær mína hillu í lífinu, þar verður borgað undir rassinn á mér útum allan heim og á fín hótel, ég fæ bílstjóra til að snattast með mig um allt og meira að segja mína eigin sterilíseruðu vatnsflösku í löndum þar sem vatnið kemur hreinna úr krönunum! Og þessi hilla krefst þess ekki að ég vinni handtak, heldur geri bara það sem ég er best í, vera leiðinleg, fyrir framan slatta af fólki svona einu sinni í viku. Ég ætla semsagt að verða uppistandari, nánar tiltekið, ég ætla að verða Robert Townsend!!! Reyndar er það að setja markið fullhátt en maður verður að hafa eitthvað að stefna að... Ég efast ekki um að til að verða svona yfirnáttúrulega leiðinlegur þurfi eitthvað að koma til, þrotlausar æfingar, klukkustund eftir klukkustund af Maður er nefndur, horfa á allar Stjörnustríðsmyndirnar í röð (með pissuhléi reyndar, má ekki verða sjálfspíning, á bara að drepa niður öll skemmtilegheit sem gætu leynst einhversstaðar innra með manni) og eftir margra ára virði af leiðindum af ýmsu tagi verð ég tilbúin til að fara á svið og freista þess að vera jafn viðbjóðslega óskemmtileg og Robbi litli.
Nei í alvöru, má þetta??? Má þiggja peninga fyrir að vera skemmtilegur í klukkustund eða svo, taka við fénu og fara svo á svið og kynna fyrir þjóðinni alveg nýtt stig af leiðindum? Og þetta eru ekki gallabuxnafordómar, ég er nógu stór manneskja til að geta fyrirgefið honum þær, enda hljóta þær að vera kall einmana sálar á hjálp, því ég get ekki ímyndað mér að maðurinn sé hrókur alls fagnaðar í samkvæmum... Og þó, annað eins hefur nú gerst, Geir Ólafs fær víst stundum pantanir líka... Smekklaust fólk er til, en eitt vil ég segja um málið; þótt maður sé lokaður inni í dimmum sal með fullt af öðrum saklausum, óspjölluðum hugum, og sagt að maðurinn sem stígi brátt á svið sé fyndinn er ekki víst að hann sé það, og hana nú! (Nú er ég farin að þurrka blóðið úr eyrunum á mér, það rennur enn síðan í gærkveldi...)

Engin ummæli: