mánudagur, janúar 09, 2006

Það vill svo til

Sko. Krakkar. Þegar ég blogga ekki í einhvern tíma þýðir það að ég er gersamlega andlaus og leiðinleg og hef ekkert að segja. Þegar þið rukkið mig um blogg í þessu ástandi verður bloggið líka andlaust og leiðinlegt og til þess fallið að breiða út þessi einkenni enn frekar til ykkar sakleysingjanna. Ég skal koma með dæmi:
Í dag byrjaði ég í hraðkúrsinum sem ég verð í þessa vikuna, áður en skólinn byrjar næsta mánudag. Það er yndislega skemmtilegur Skoti að kenna mér, hann gleymdi að vísu pilsinu sínu heima en kom með sekkjapípurnar sínar sem hann spilar víst ofsa fínt á, en það mun ég reyndar skilst mér sannreyna á morgun þegar hann hyggst gefa okkur tóndæmi. Gott og vel.
Ég er með biiilaða tannpínu en samt heldur tannlæknirinn minn því fram blákalt að ég sé með alheilbrigðar tennur. Það þýðir að ég er komin með andlega tannpínu sem er allt annað og verra mál og ekkert gefið við því skilst mér nema klapp á kollinn.
Uh. Já. Ég er farin að sofa eins og manneskja á ný eftir margra ára streð við að sofna allavega fyrir sólarupprás. Núna er ég að blogga rétt fyrir miðnætti og ég hef ekki vakað svona lengi síðan í prófunum, enda ætla ég beinustu leið í háttinn þegar ég er búin að skyldublogga. Ætli þetta sé byrjunin á tíðahvörfum? Ég er allavega farin að vakna spikk og span fyrir klukkan 6 alla morgna, vekjaraklukkulaust, sem hlýtur að teljast til kraftaverka og ég heimta að minnsta kosti titilinn Sir Unnur ef ég verð ekki bara hreinlega tekin í tölu dýrlinga. Dýr-lingur/vett-lingur, tilviljun? Ég held ekki. Sankti Unnur? Nú fæ ég eldingu í hausinn...

Engin ummæli: