Jæja börnin góð, ég er búin að þjást af nettri bloggleti síðustu daga, og geri reyndar enn, en mamma hefur greinilega ekki nóg að gera í vinnunni og ég get ekki setið undir suðinu í henni lengur! Ætla að skjóta inn málamyndafærslu sem verður að duga þar til andinn kemur yfir mig aftur...
Helstu fréttir eru að ég er búin að finna mér strák til að dansa við, jei! Hann bauð sig meira að segja fram að fyrra bragði, sem í mínum bókum er einstakur hetjuskapur því ég var orðin pínu þreytt á að væla yfir þessum skorti á fótafimi hjá íslenskum karlmönnum. Svo nú eru það samkvæmis aftur eftir jól, þ.e. ef dúddinn guggnar ekki :) Erum að fara í prufutíma á þriðjudaginn, hlakka voða til, en hinsvegar þá var ég að tala við kennarana og komst að því að ef ég safna nokkrum pörum saman verður búinn til sértími fyrir okkur, svo allir sem voru að skæla um að þeir vildu læra að dansa fyrir ca. ári síðan þegar ég var að kenna mega endilega hafa samband núna og láta mig vita, veit nú þegar um nokkur pör og það væri frábært að geta bara haft sértíma fyrir okkur vinina! Komaso!
Nú á líka að draga Unnsu litlu á eitthvað hestamannaball á laugardaginn sem hljómar ekkert svaka spennandi af því að:
- Ég er hrædd við hesta og þar með hestamenn, sem eru greinilega samsekir.
- Það er skrýtin lykt af hestamönnum.
- Það er ennþá skrýtnari lykt af hestamönnum þegar búið er að vökva þá með etanóli, sem mér skilst að sé planið á laugardaginn.
- Stelpurnar í vinnunni hóta að vökva mig líka og koma mér svo saman við hestamann/menn, sem mér finnst slæm hugmynd (sjá liði 1-3).
- Síðast þegar ég djammaði með vinnuliðinu gerðust slæmir hlutir... Sem munu aldrei verða ræddir framar... Jeminn...
- Strangar reglur hafa verið settar um klæðaburð umrætt kvöld og ég er ekki viss um að bara belti fari mér mjög vel!
Stelpur, ég er asnaleg þegar ég er full og ég vil ekki vera asnaleg... Og ég vil ekki láta loka mig inni á Broadway með fullum gömlum köllum sem halda að þau séu þarna til að kreista þau! Má ég plís bara keyra og sækja stelpurnar mínar og vera siðgæðisvörðurinn þeirra?
miðvikudagur, nóvember 10, 2004
Stutta útgáfan...
Birt af Unnur kl. 18:32
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli