mánudagur, apríl 26, 2004

Ég skellti mér til Selfoss með fjölskyldunni á laugardaginn þar sem við mamma misstum stjórn á okkur í fyrrverandi KÁ, skemmtum okkur konunglega við að skoða kaupfélagsnærur, kaupfélagssokka og allskonar kaupfélagsdúllerí. Hoppuðum um allt kaupandi bláa netasokka og kjarnorkugræna nælonsokka, ég elska kaupfélög! En Selfyssingum var greinilega ekki skemmt og hafa kallað út aðstoð við að ná vitleysingunum út því fljótlega birtust tvö kjarnakvendi, vopnuð barni og bíl, og ég vissi ekki fyrr en ég var með munninn fullan af subbi úr pylsuvagninum, syngjandi með Anastasiu og komin hálfa leið til Víkur. Það er hættulegt að vera á Selfossi.
Í Vík var ég hneppt í þrældóm og látin vaska upp margra vikna virði af leirtaui gísltaka minna. Fékk að vísu að syngja með öllum gömlu júróvissjón lögunum okkar á meðan svo ég slapp tiltölulega heil á sál og líkama og vil ég þakka þeim Sókratesi, Nínu, Kareni og Sóley kærlega fyrir stuðninginn. Eftir fullt af grillmat var mér breytt í svaka skutlu og látin fá bjór. Í dós. Ekkert glas. Þetta sveitapakk. Nýjasti Stjórnardiskurinn var settur í og svo átti að drekka þar til hann yrði skemmtilegur. Fjórum tímum seinna gáfumst við upp á því og skelltum okkur bara á ball, þar var mikið dansað við marga gamla sveitapésa sem hræddu borgar-mig alveg svoleiðis að ég var mestan hluta kvöldsins á kvennaklóinu, örugg fyrir mönnum sem vildu segja mér að þeir kysu framsókn og læsu ekkert nema sauðfjárbækur. En þegar samkoman svo leystist upp enduðu allir einhvernveginn í húsi gísltaka minna og fóru þar fram líflegar stjórnmálaumræður fram eftir morgni. Eins og allir vita slökknar á mér um þrjúleytið svo ég lá og horfði á kettlingana (mússí) og beið eftir að vasapelaliðið yfirgæfi svæðið, fyrir utan það að fullt fólk að ræða stjórnmál er mesta tímasóun í sögunni, enginn hlustar á neinn nema sjálfan sig og rifist fram í rauðan (áfengis)dauðann. Svo fékk ég að fara að lúlla.
Daginn eftir borðaði ég svo óhollt að mér verður illt í bumbunni við tilhugsunina, var marineruð í heitum potti, notuð í auglýsingaskyni, yfirgefin vegna fundarhalda og svo skilað heim. Takk fyrir mig :)

Engin ummæli: