miðvikudagur, desember 15, 2004

Jólagóðverkið í ár

Mig langar bara að benda ykkur á þægilegt tækifæri til að gera eitt stykki jólagóðverk í ár ljósin mín. Þannig er að Davíð ("Balli" hérna í tenglunum mínum) hefur afþakkað jólagjafirnar sínar í ár og bent fólki í staðinn á að gefa í jólagjafasjóð ABC hjálparstarfs, þar sem við eigum bæði styrktarbörn (eins og reyndar óvenju margir í yndislega vinahópnum mínum). Þetta finnst mér algert snilldarframtak hjá stráknum og fær hann klapp á kollinn fyrir það, reikningsnúmerið þeirra og allar nauðsynlegar upplýsingar getið þið nálgast á síðunni hans og auðvitað á síðu ABC. Í ár eiga allavega börnin í Úganda að fá dýnu í jólagjöf, og stefnt er á að reyna að gefa sem flestum systkinum styrktarbarnanna líka, sem ekki hafa verið svo heppin að fá stuðningsaðila. Hver dýna kostar 1200 krónur, en hinsvegar er engin lágmarksupphæð á fjárgöfunum. Reynum nú að muna eftir þeim sem minna mega sín á milli þess sem við kaupum heimabíó og GSM síma handa ástvinum okkar, þetta tekur bara örfáar mínútur í heimabankanum en maður verður allur "warm and fuzzy" að innan á eftir :)

Engin ummæli: