Kisa fór semsagt í aðgerð á föstudaginn og kom heim alveg húrrandi full. Öll saumuð á mallanum og hausnum og á svo sterkum verkjalyfjum að hún vissi hvorki í þennan heim né annan. En svo braggaðist hún nú að lokum, og ég fór áhyggjulaus að gæsa Guðnýju frænku á laugardaginn. Það heppnaðist æðislega vel, upprunalega planið fór víst alveg í vaskinn daginn áður vegna veðurs og ég skil ekki hvernig stelpunum tókst að skipuleggja þetta með svona litlum fyrirvara. Fórum um allt, í Sorpu, Húsdýragarðinn (hún átti að leita að okkur þar, vorum dreifðar um garðinn. Ég var sett í kanínuhúsið og jeminn, þær eru sko ekki spéhræddar! Kanínudónar...), í afró í Betrunarhúsinu, til ókunnugrar gamallar konu í Garðabænum að baka pönnsur, í Smáralindina... Ekki skrýtið að maður hafi verið orðinn þreyttur þegar við skriðum aftur í heimahús til að borða gómsæta grillpinna og klæmast í heita pottinum. Gerðum svo heiðarlega atlögu að djamminu en það var dæmt frá byrjun, engin orka eftir svo við stauluðumst fljótlega heim (sorrý Hrefna mín!). Hápunktar dagsins voru annars vegar afróið, sem er held ég bara það skemmtilegasta sem ég hef gert, algjör snilld að þramma þarna um (næstum) í takt við tvo trommuleikara á spítti og finnast maður æðislega töff gella þar til maður leit í spegilinn (verst að þetta var allt tekið upp og verður sýnt í brúðkaupinu. Minnið mig á að vera búin að fá mér örlítið í stóru tána áður en það gerist), og hinsvegar heimsóknin til ókunnugu konunnar sem reyndist vera ekki bara ferlega indæl heldur líka frá Sigló eins og allar í hópnum nema tvær. Var mikið spjallað um ættfræði, sem er alltaf hressandi.
En svo þegar ég vaknaði á sunnudaginn og kom fram að kíkja á kisuna mína var hún að dunda sér við að naga af sér saumana á mallanum! Komið á hana stærðarinnar gat svo við kölluðum út dýralækninn og þutum með hana að láta svæfa hana aftur og sauma sárið saman. Svo sátum við prinsessurnar bara saman það sem eftir var dags meðan þessi minni jafnaði sig af svæfingunni. En til þess að læra örugglega ekki af reynslunni var hún aftur farin að naga saumana sína í nótt, svo ég í algjöru ráðaleysi smellti á hana legghlíf... Mín var nú ekki sátt, þvílíkan morðsvip hef ég aldrei séð á ketti! '85 greinilega ekki hennar tebolli. Hún ákvað svo bara að hún gæti ekki hreyft sig með hana og í tvo tíma valt hún bara um eins og ánamaðkur, en komst að lokum að því að það væri nú alveg hægt að hreyfa sig í sokknum, og skrölti af stað. Litla skinnið mitt. Nú er bara að vona að þetta hafi verið góðkynja, allir að krossa putta, fáum niðurstöðurnar eftir nokkra daga.
Löng færsla, passið að teygja vel á eftir!
mánudagur, júní 27, 2005
Flashdance kisan
Birt af Unnur kl. 15:49
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli