Í tilefni sjómannadagsins skellti ég mér til Grindavíkur á laugardaginn, á eitthvað sem var kallað sjómannaball. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar Jóhanna bauð mér með, eitthvað svo ferlega rómó hugmynd að finna sér karlmannlegan, órakaðan sjómann til að eiga sumarævintýri með. En viti menn, við mætum ásamt fríðu föruneyti í Festi, uppstrílaðar eins og klassapíurnar sem við erum, til þess eins að komast að því að þegar sjómenn eru í landi nota þeir tækifærið og fara í bæinn að djamma. Það geta hinsvegar krakkarnir sem ekki eru komnir með bílpróf ekki gert. Þeir sitja uppi með ballið. Einmitt. En fyrir utan frekar púkalegt ball þá var ferðin stórskemmtileg, og góð byrjun á "oppareisjon faraferlegaoftútálandísumar". Reyndar lenti ég í smá Janet Jackson vandræðum, tæknileg klæðavilla, þegar vinstri búbba flaut uppúr toppnum sínum í sundlauginni á staðnum. Hefði ímyndað mér að viðstaddir karlmenn kynnu vel að meta en þeir tveir sem urðu vitni að atburðinum fóru bara allir í kleinu og jöfnuðu sig ekki fyrr en þeir voru búnir að fara í góða sturtu. Ah.
Í gær fór ég svo að þrífa íbúðina sem pabbi minn var að flytja úr. Stóð á haus ofaní klósettinu þegar mamma og hinn pabbinn (ég á tvo, svona til öryggis) mæta á svæðið og þyrlast útum alla íbúð eins og tveir Mr. Sheen (fríki, sköllótti, dyravarðalegi dúddinn með upphandleggsvöðvana, sem villtist utaná þvottaefnisbrúsana...) og áður en ég vissi af var bara allt orðið hreint og strokið! Ég er svo mikið dekurdýr! Takk fyrir mig allir foreldrar :)
mánudagur, júní 06, 2005
Hann var sjómaður dáðadrengur...
Birt af Unnur kl. 07:28
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli