laugardagur, ágúst 20, 2005

Menningardýrið

Í tilefni menningarnætur ætla ég að heiðra vinnumenningu landans, betur þekkta sem vinnuhólisma, og vinna 12 klst. Treysti á að mamma manni listagalleríin á Skólavörðustígnum fyrir mína hönd, en það erum við annars vanar að gera saman, töluvert meira fútt í því en að bora í nefið í tómu World Class til tíu í kvöld en einhver verður að heiðra annars vanrækta menningu vinnuhólistanna. Ég fórnaði mér fyrir liðið.
En þegar ég er búin að loka búllunni ætla ég að gera mig ofsa sæta og ganga í skrokk á eins og einu rauðvínsglasi á einhverju gasalega menningarlegu kaffihúsi (les. hvar sem er þar sem er ekki aaalveg troðið af menningarvitum). Ef það líður ekki yfir mig eftir það af þreytu ætla ég að tvista til að gleyma, en bara ef ég finn dansgólf þar sem ég get fengið að minnsta kosti átta fercentimetra fyrir mig og hallærismúvin mín. Ekkert grín að vera lítill á of troðnu sveittu dansgólfi, nefið á mér er nefnilega þar sem handakrikarnir á öllum hinum eru. Bjakk... :p

Engin ummæli: