föstudagur, september 02, 2005

Nett geðvonska...

Fór í fýlu útí bloggið mitt og refsaði því með því að færa það í skuggalegan afkima internetsins (þeir eru alveg nokkrir) en svo rann mér reiðin fljótlega og hér er það, komið aftur heim.
Ég veit að allir eru núna æðislega reiðir útí mávana í borginni, fyrir að vera of duglegir að búa til egg og unga og koma þeim á legg og svona. Stefnir í að þeir verði skotnir í þúsundatali og hent í ruslið, sem er ferlega rómó tilhugsun finnst mér. Ekki að þeir séu fugla saklausastir. Þeim finnst gott partí að borða hina fuglana og svona, sem ég er ekki fylgjandi heldur svo ég neita staðfastlega að taka afstöðu með eða á móti mávum takk. Hinsvegar langaði mig að deila með ykkur lítilli sögu. Og takið nú eftir. Ég sá nefnilega ferlega smart máv á miðvikudaginn þegar ég var að bíða á bílastæðinu við Smáralind eftir að mamma mín kæmi að sækja mig í mánaðarlegar pyntingar (les. vax). Þar var mávur, æðislega venjulegur í útliti, pínu úfinn og illa tilhafður og svona, alveg niðursokkinn í að gera eitthvað sem virkaði spennandi. Ég vildi ekki missa af fjörinu og fór að fylgjast með hvað væri svona gaman. Þá var fuglsanginn í miðju kafi að reyna að ná brauðbita úr stórum, glærum plastpoka, og hann var greinilega enginn viðvaningur, þetta var fagmávur hinn mesti. Bíta, lyfta, hrista, bíta, lyfta, hrista... Og alltaf í rétta átt, það var ekkert tilviljanakennt við þetta starf hans, hann vissi hvar brauðið var, hvar gatið á pokanum var og var greinilega búinn að heyra að það er ekki mælt með að stinga höfðinu mikið ofaní plastpoka. Hann var sniðugur. Og fékk brauðið sitt að lokum, eftir gífurlega skipulagningu og lýtalausa framkvæmd. Minnti mig á þann ágæta máv Jónatan Livingston Máv, en svona myndi ég einmitt ímynda mér að hann næði sér í næringu milli strangra listflugsæfinga. Góð, góð bók. En semsagt, mávar eru pínu sniðugir líka. Sko.
Já, og tilkynning frá Neytendahorni Unnsu: Ooofsalega góð græn epli í Nóatúni við Nóatún. Nammi, namm. Tími varla að borða mín, þau eru svo falleg.

Engin ummæli: