Þar sem yndið hún móðir mín á afmæli 13. mars ákvað hún að skella sér með gæludýrið (manninn) á Pilobolus, enda menningarviti hinn mesti. Ég bjóst við að vera heima að gæta bús og barna eins og venjan er þá sjaldan sem hún yfirgefur móðurskipið eftir að veðurfréttum stöðvar tvö lýkur á kvöldin. En þar sem þetta er nú danssýning og ég mesta áhugamanneskja um svoleiðis lagað í póstnúmerinu þá keypti hún í góðmennsku sinni líka miða handa mér. Ég er dekurbarn! Örverpið var sent í útlegð í næsta hús (sama póstnúmer) og flikkað uppá mig eins og þurfti til að fara með mig á almannafæri. Í látunum varð ég meira að segja að losa mig við vetrarfeldinn og er með skurð á fætinum þess til sönnunar, vona bara að það komi ekkert alvöru páskahret því ég næ aldrei að safna aftur í tæka tíð... Brr... En feldurinn fór fyrir góðan málstað, sýningin var alveg mögnuð, ég er ennþá í skýjunum yfir þessu öllu saman! Vei! Dansararnir eru í svakalegasta formi sem ég hef séð held ég og hreyfingar þeirra á sviðinu nánast ómannlegar. Á tímabili voru þau þyngdarlaus. Lofa. Mér er hulin ráðgáta hvernig þetta var framkvæmt yfirleitt, skil ekki hvernig nokkur manneskja getur æft nógu mikið til að verða svona góð, það eru bara ekki nógu margar klukkustundir í sólarhringnum. Vona að ég skilji þetta aldrei, þetta er kvöld sem á eftir að lifa með mér lengi. Ég er alltof hrifnæm :) Takk fyrir mig mamma mín, og til hamingju með daginn! :*
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli