miðvikudagur, mars 30, 2005

Tilvistarkreppa

Ég er á undarlegum stað í lífinu núna. Fullorðin í orði en ekki á borði. Eins yndislegt og það nú er að búa hjá mömmu sinni og fá klapp á bakið þegar maður þarf, þvottinn sinn hreinan á borðið sitt og geta rænt ísskápinn þegar fer að líða að mánaðamótum þá fylgir þessu eitt vandamál. Ég á fullorðins mikið af drasli en barns mikið af plássi fyrir það. Alveg sama hvað ég reyni að skipuleggja, híbýli mín rúma bara alls ekki búslóðina mína, svo það endar alltaf þannig að það er allt útum allt, erfitt að ganga frá nokkrum sköpuðum hlut ef það er enginn staður fyrir það til að byrja með. Er alveg að missa stjórn á mér, því þegar það er drasl hjá manni líður manni bara alls ekki vel en hvað á maður að gera, henda bara öllum bókunum og fötunum? En ég vil það ekki!!! Hver rúmcentimetri er þaulnýttur, kassar á hjólum undir rúmi, kassar undir skrifborði, hillur á veggjum og undir stiga, skápur, tunna, og samt á ég fullt af drasli sem á engan samastað í veröldinni. Er ekki hægt að zippa drasl eins og tölvufæla?
Þar með lauk nöldri eitt. Hefst nú nöldur tvö.
Þar sem komið er í ljós að ég verð heima í sumar og næsta vetur líklega líka þarf ég að fara að huga að bílakaupum hið snarasta. Mér var sagt áðan hreint út að hann Trausti minn væri "ekki á vetur setjandi". Mér finnst kósí og rómó að hann drepi á sér þegar ég bremsa en það finnst skoðanamanninum víst ekki. Bíll er einn af þeim hlutum sem ég get ekki hugsað mér að vera án en finnst sorglegt að þurfa að eyða peningum í. Þar verður málið snúið.
Ég bið semsagt ekki um mikið. Hús og bíl. Anyone?

Engin ummæli: