miðvikudagur, mars 09, 2005

Post-kvíðakast

Þá er lokið kvíðakastinu sem fylgdi því að kenna fyrsta pallatímann minn. Syrgi það ekkert sérstaklega, lái mér hver sem vill. Hefst nú kvíðakastið sem fylgir því að kenna annan pallatímann minn! Ah, ég er svo mikill stresspési að það er ekki sniðugt, maður skyldi ætla að ég væri með blómlegt magasár og blóðþrýsting á við Bandaríkjamann en nei, ég er greinilega bara gerð til að vera svona stressuð, er með svo lágan blóðþrýsting að konurnar í blóðbankanum sendu mig einu sinni heim með skottið á milli lappanna til að borða lakkrís. Unnur í sínu náttúrulegasta ástandi. Annars gekk tíminn bara alveg sæmilega, margt sem þarf að vinna meira í en ég datt allavega ekki um pallinn minn og allir fóru sveittir út, svo ég er sátt í bili. Ég reyndi að vera pínu hippogkúl og sniðug en það endaði bara á því að ég þurfti að athuga hvort mækinn minn væri orðinn batteríislaus því það stökk engum bros. Mækinn var í lagi. Sannast þar með enn og aftur að ég er ekki hippogkúl. Ég er svona eins og úlfurinn í teiknimyndinni um bláa óþolandi hrokafuglinn sem hleypur ofsa hratt, alveg sama hversu oft ég dett fram af klettinum og verð undir steðjanum, ég mun aldrei læra af reynslunni. Mun í einhverju stundarbrjálæði pottþétt reyna að vera hippogkúl í öllum tímunum mínum, bölvað endorfín sem lætur mann gleyma öllu slæmu jafnóðum...

Engin ummæli: