þriðjudagur, apríl 26, 2005

Morgunógleði

Á 5 mínútna leiðinni heiman frá mér og í Spöngina eru núna 8 hringtorg. Eitt var að bætast við í morgun. Það þýðir (takið eftir ógnvænlegri stærðfræðikunnáttu minni) að í morgun, fyrir hálfátta, vorum við Trausti búin að sigla kringum 16 hringtorg. Ég er nett sjóveik...
En neikvæðni lokið. Jákvæðni hafin. Það gleður mig að alveg sama hversu vel ég spenni niður hárið á mér áður en ég kenni á morgnana að ég lít samt alltaf út eins og kökuskrímslið þegar tíminn er búinn. Væri ekkert tiltökumál nema vegna þess að allir hinir í tímanum líta hreint ágætlega út í lok hans, sveittir og fínir en annars bara ferskir. Hvernig stendur á þessu? Örugglega sama ástæða og fyrir því að ég vakna alltaf með svona hár þótt ég sofni með 8 hárnet og svo margar spennur að ég held varla haus fyrir þunganum. Svona geta leyndardómar lífsins verið spennandi. Ég er búin að gefa skít í svefnhárið og hætt að gera tilraunir með hina ýmsu hárfjötra, nú legg ég metnað minn í að sofna eins úfin og ég get svo sjokkið verði minna þegar ég skríð fram á bað á morgnana.
Hvað ætli hafi annars orðið af jafnvægisskyninu mínu þegar ég var lasin um daginn? Á ekki að taka til, þá týni ég bara hlutum. Þarf samt að fara að finna það, dugar ekkert að halda sér í body bar í tímum, alveg sama hvað ég rígheld í minn enda, hinn endinn er (mjög óheppilega) ekki fastur við neitt.

Engin ummæli: