fimmtudagur, október 20, 2005

Bóhem í búri

Eins og ég er nú mikil kaffihúsarotta og finnst yndislegt að sækja þangað tónleika og aðra viðburði sem láta mér líða eins og ég sé æðislega menningarleg og hipp og kúl, þá er eitthvað sem gengur ekki upp við það. Nú er Airwaves byrjað og ég plantaði mér á Nasa í gærkveldi, tilbúin að drekka í mig menninguna og hippið og kúlið. Sem ég og gerði, en það reyndist samt krefjast meiri viljastyrks af minni hálfu en ég hefði haldið. Það var nefnilega svo kæfandi reykmökkur á staðnum að mér tókst að fá þessa líka fínu innilokunarkennd og "ég get ekki andað hjáááálp" tilfinningu, að ef ég væri ekki svona vel uppalin hefði ég hlaupið volandi út. Ég var á endanum meira að segja komin með innilokunarkennd í airwaves armbandinu mínu, því það næst ekki af. Er eitthvað svo endanlegt. Skuldbindingafóbía anyone? Svo kom ég heim og hélt að málið væri dautt, en viti menn, vaknaði hvað eftir annað í nótt með lungun full af ímynduðum reyk og þurfti að rjúka útí glugga og hnusa útí loftið. Ég held ég sé að verða gömul kreddukerling. Hvar ætli okkar vettvangur sé eiginlega fyrst Þjóðarsálin er búin að leggja upp laupana? Í pottinum í Laugardalslauginni? Ó ef ég væri bara svöl eins og Hermigervill pallíettupjakkur var í gær. Hann fékk pottþétt ekki innilokunarkennd í armbandinu sínu.

Engin ummæli: