fimmtudagur, janúar 11, 2007

Franskur sleikur

Vá. Frakkar kunna sko að snúa hnífnum í sárinu! Í dag fór ég í fyrsta prófið og það gekk hræðilega, eins og við var að búast. Eftir að hafa bisað við prófið mitt í tilsettan tíma (að skrifa allt sem mér datt í hug um Mannréttindadómsstól Evrópu, sem var alls ekki ritgerðarefnið en ég vissi bara ekkert um það og eitthvað varð ég að gera þessa tvo tíma!) var ég farin að skammast mín allverulega fyrir að vera að fara að skila inn þessarri hryggðarmynd. En ég ákvað að bíta bara á jaxlinn og skila, þó það þýddi kannski að kennarinn benti á mig og hlæði næst þegar ég mætti honum á ganginum. Flestir voru ennþá að tæma viskubrunninn á blaðið sitt, svo ég læddist fremst í salinn til konunnar sem tók við prófunum og reyndi að skila því. Hún vildi ekki taka við því og sagði mér að ég ætti eftir að sleikja það. Huh? Ég hélt ég hlyti að vera að misskilja eitthvað franskt orðatiltæki og spurði aftur og aftur þar til hún lék fyrir mig hvernig maður sleikti blað. Mig langaði bara að fara að gráta, ekki ætlaði konan að láta mig, fyrir framan um það bil 60 manns, sleikja ritgerðardraslið mitt? Og af hverju var hún svona vond við mig? Og hvernig vissi hún á annað borð að ritgerðin mín væri svona vond? Meðan ég stóð þarna í örvæntingu minni og velti fyrir mér vonsku heimsins, kom annar nemandi askvaðandi, sleikti hornið á ritgerðinni sinni, braut það niður svo það huldi nafnið hans og límdist fast með einhverju sem reyndist vera þessi fína frímerkjalega límrönd. Svo ég tók gleði mína á ný, sleikti ritgerðina mína af áfergju og skilaði henni. Eitt búið, fjögur eftir! Þar af tvö á morgun...

Engin ummæli: