Magga frænka kom með snjóinn með sér fyrr í vikunni en virðist ekki hafa tekið hann með sér aftur þegar hún fór í dag... Ég naut góðs af veru hennar hérna, og er búin að hafa það ofsalega gott síðustu daga, kíkja í Evrópuráðið, borða góðan mat, versla, allt í góðum félagsskap auðvitað. Tókst meira að segja loksins að fá hugmynd að BA ritgerðinni minni, keypti nokkrar bækur um efnið í ráðinu og er að vinna í að lesa þær núna. Í gær fórum við svo á flottasta veitingastað sem ég hef komið á hingað til í Strass, og ég fékk þar betri túnfisksteik en á Sjávarkjallaranum, sem ég hélt ekki að væri mögulegt. Oh, er búin að hafa það alltof gott, hrikalegt að þurfa að trappa sig niður í hversdaginn aftur!
Skólinn er byrjaður aftur eftir prófin, og það er enginn smá munur á að byrja í kúrsum núna og það var í haust, núna veit ég allavega svona sirka bát um hvað kúrsarnir snúast eftir fyrsta tímann, en í haust valdi ég kúrsa eftir því hversu hrædd ég var við kennarana. Svo ég göslast í skólann í slabbinu með bros á vör þessa dagana. Ég reyndar skrópaði í allan dag, en bara af því að það er ekki hægt að hjóla í snjónum og ég get ekki gengið því ég er með ígerð í fætinum. Mjög smart. Svo ég er farlama heima á föstudagskvöldi að syrgja brottflogna ættingja, borða súkkulaði (má því ég á bágt...) og horfa á Friends á frönsku.
Á morgun ætla ég að lesa nýju bækurnar mínar (geri ráð fyrir að verða ennþá farlama), muna að hringja í íslensku stelpuna sem er í Colmar og ég gleymdi að hringja í í kvöld og haltra svo kannski í bíó. Á sunnudaginn ætla ég loksins að elda hangikjötið sem ég kom með út og halda lítil íslensk jól fyrir sambýlingana og mögulega Vincent og kærastann hans. (Mamma mín, það þýðir að þú verður að vera í símafæri á sunnudaginn svo það fari ekki allt til fjandans í pottunum mínum...).
Oh, leiðinlegur póstur. Ég kenni fætinum um. Góða helgi!
föstudagur, janúar 26, 2007
Skyldupóstur. Skjús mí.
Birt af Unnur kl. 22:25
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli