Það er kominn snjór í Strass! Ég myndaði hann útum gluggann minn en það er dimmt svo hann sést ekki mjög vel, en með jákvæðu hugarfari má samt sjá glitta í hann...
Þó að rok og rigning sé sennilega mikið týpískara íslenskt veður en logn og snjókoma þá labbaði ég samt heim í kvöld með kjánaglott út að eyrum inni í stóru loðnu hettunni minni. Snjór! Krullur! Hálka! Allt svo skemmtilega íslenskt.
Annars er ekki að marka mig, er alltof glöð af því ég talaði íslensku í allt kvöld, við föðursystur mína sem er mætt á svæðið aftur, og þrjá indæla íslenska líftæknifræðinga sem hún fann í reiðileysi (sem er stafað hvernig..?) á flugvellinum. Og á morgun mun ég tala meiri íslensku, og sennilega hitta íslenska stelpu sem býr hérna. Það finnst mér merkilegt og ég hlakka til.
Það er hinsvegar annað og verra mál að Mathilde er búin að taka eftir því að ég hef ekki verið að borða crépe-ið sem hún býr til í morgunmat, og vill vita hvort mér finnist það vont. Crépe með súkkulaði og banana? Vont? Jahá, allt er nú til. Ég vildi ekki útskýra fyrir henni að mér fyndist ég orðið örlítið of búsældarleg, svo ég lofaði að borða þær í morgunmat í fyrramálið. Er ljótt að taka nokkrar og henda þeim í ruslið og elda mér svo hafragraut? Dyrnar hérna eru frekar þröngar og það væri fáránlega vandræðalegt að komast ekki út úr íbúðinni án þess að smyrja dyrakarmana með smjöri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli