föstudagur, janúar 19, 2007

Sæt í staðinn

Í dag komst ég endanlega að því að ég mun þurfa að byggja lífsafkomu mína á því að vera sæt í staðinn, svo það er eins gott að fara að mæta í ræktina... Ég mætti í síðasta prófið í morgun (jíha!) og þar beið mín, mér til mikillar gleði, að skrifa ritgerð um skrifræði Webers í stofnunum. Gleðin kom til af því ég skrifaði fyrir rúmu ári ritgerð um skrifræði Webers og hvernig það á við í stofnunum nútímans, og fékk frekar hátt fyrir hana meira að segja. Gleðin var hinsvegar skammvinn því ég uppgötvaði það fljótlega að ég mundi ekki hálfa setningu úr ritgerðinni, eða að hvaða niðurstöðu ég komst um málið. Það hljóta í alvöru talað að vera til lyf við þessu. Svo ég blaðraði heilmikið um ýmislegt sem kom málinu ekkert við, alveg eins og í öllum hinum prófunum. Og þarf svo ekki að hafa áhyggjur af þessu meir, allavega ekki fyrr en í júní!
Í kvöld er próflokafagnaður, þar sem á líka að kveðja þá skiptinema sem verða bara eina önn, og kynnast þeim sem eru að koma til að vera seinni önnina. Þetta hljómar allt ágætlega í kenningunni, en ef það er eitthvað sem ég lærði í Brussel þá er það að það er aldrei góð hugmynd að fara út að borða með fleiri en tíu manns (nema mögulega ef meirihluti fólksins er siðmenntaður, eins og þegar amma bauð okkur í mat á Hótel Holti. Gekk fínt. En það er hvorki ég né hinir fjölþjóðlegu apakettirnir hérna, svo það hjálpar ekkert), og hérna stefnir í að hópurinn verði um 80 stykki. Pant ekki. Pant vera heima á náttfötunum, eða fara í bíó (mögulega á náttfötunum), eða í ræktina (sennilega ekki á náttfötunum) eða eitthvað. Oh, ég er svo mikill félagsskítur að það er agalegt. Fyrir alla hina á ég við. Hóst.
Eigið góða helgi!

Engin ummæli: