fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Kvefgemlingur

Nú hefur það komið í ljós að hinar annars sæmilega samhentu Matthildar styðja sinn hvorn frambjóðandann í forsetakosningunum. Umræðurnar við matarborðið eru háværar þessa dagana. Mér fyndist áhugavert að vita meira um þessar kosningar og frambjóðendurna, en það er ekki í boði því alltaf þegar málið kemst á dagskrá hér á Slátrarastrætinu eða í hinum og þessum frönsku matarboðum þá tala allir svo hratt og ofaní hvern annan að ég skil ekki neitt. En mér skilst að Ségolène Royal sé dóni og Nicolas Sarkozy kynþáttahatari, svo mér líst ekkert á þetta fyrir hönd Frakkanna. Sennilega þarf ég nú samt að kynna mér málið bara sjálf, er að fá mjög vafasamar upplýsingar í þessum stanslausu rökræðum Matthildanna.
Á Valentínusardaginn var ég lasin (rek það til heiftarlegs ofnæmis fyrir rómantík) en Mathilde 2 var búin að bjóða fullt af Þjóðverjum í mat svo það var annaðhvort að vera kurteis, borða með þeim og þykjast skilja þýsku, eða stinga af með kvefið mitt. Ég ákvað að stinga af, og fór á yndislegt stefnumót með sjálfri mér. Ég bauð mér uppá rauðvínsglas og ítalskan mat, og í bíó á eftir, og ég er frábært deit, þó ég segi sjálf frá.
Um síðustu helgi fékk ég íslenska stelpu sem býr í borg hérna nálægt í heimsókn, og við tókum einn dag í að kanna það hversu mikið er mannlega mögulegt að borða og drekka á einum degi. Niðurstaðan: Heilan helling. Við römbuðum á laugardagskvöldið inná veitingastað sem við vissum engin deili á, fengum æðislegan mat og ennþá æðislegri eftirrétt, og Mathilde 1 sagði mér daginn eftir að þetta væri frægur staður og ómögulegt að fá borð þar nema með margra daga fyrirvara, hún hefði oft reynt með fjölskyldunni sinni en aldrei tekist. Svona er maður mikill heppnisgrís. Skemmtilegasta atvik kvöldsins var samt þegar maðurinn á næsta borði rak við með látum og öllum á staðnum tókst að halda andlitinu nema okkur. Ég hló svo mikið að ég fór að gráta. Prump er fyndið, það er bara svoleiðis. Svo var aðeins kíkt á djammið, og ég fékk útrás fyrir klórþörfina mína með því að klóra Ítala með kiwi-klippingu á hausnum í sirka tvo tíma. Ég get skemmt mér við ótrúlegustu hluti. Ég er þar með mögulega búin að finna lausn á kattaleysinu, því Mathilde 1 leyfir mér ekki að fá mér kött, en Ítalir gera greinilega sama gagn, eru loðnir, finnst gott að láta klóra sér og mjálma svo eitthvað óskiljanlegt á ítölsku (sennilega "í guðanna bænum viltu láta höfuðið á mér vera, kona").
Áðan fór ég að kaupa í matinn og var á leiðinni inn á sama tíma og eldri kona var á leiðinni út, svo ég hinkraði og hleypti henni út á undan. Hún sagði "takk fyrir að hleypa mér á undan þér, og takk fyrir að gera það brosandi". Mér finnst það svolítið sorglegt að það þurfi að þakka manni sérstaklega fyrir það. Ég legg til átak, allir að brosa til ókunnugra við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.

Engin ummæli: