Það er greinilegt á bloggum samlanda minna að fyrirhuguð klámráðstefna í Reykjavík er aðalhitamál landans þessa dagana. Ég er næstum hætt að þora á netið, hvað þá að lesa blogg, því ég verð svo innilega reið og vonsvikin og sár að lesa það sem sumt fólk skrifar um málið að ég fæ bara hjartsláttartruflanir og langar að fara að gráta. Eini ljósi punkturinn við þetta frá mínum sjálfselska sjónarhóli er að fólk sýnir þar allavega sitt rétta andlit og það er mikill tímasparnaður fyrir okkur einhleypingana, nú þegar allir virðast blogga, að geta stundað netnjósnir á því hvað hinir og þessir vonbiðlar hafa látið út úr sér á netinu um mál eins og þessi.
Ég er eins og er á kafi í bókum um klám, vændi og mansal því mig langar að skrifa BA ritgerðina mína um eitthvað þessu tengt. Ég þykist nú samt ekki vera neinn sérfræðingur eins og er, enda rétt að byrja, en sú almenna fáfræði um málið sem kemur fram á bloggum og í athugasemdum um allt net þessa dagana kemur mér samt óþægilega á óvart. Reiðin sem meðmælendur kláms virðast margir búa yfir kemur mér líka á óvart, og ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem getur orsakað hana. Ég er farin að halda að þessi fáfræði sé ekki raunveruleg, heldur kjósi fólk að loka augunum fyrir því sem það veit samt innst inni, en af hverju get ég samt ekki ímyndað mér.
Svona lagað gerir mig jafn innilega sorgmædda og þegar ég heyri fólk hlæja að sögum um misþyrmingar á dýrum, sem er einhvernveginn alltaf að gerast. Fólk getur verið svo kalt.
Ég ætla annars ekkert að tjá mig um þetta ráðstefnumál beint, enda of langt í burtu til að vita almennilega um hvað málið snýst.
laugardagur, febrúar 17, 2007
Allir komnir í klámið
Birt af Unnur kl. 10:30
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli