laugardagur, september 23, 2006

C´est la vie

Fundurinn í gær um hvernig við eigum að skrá okkur í kúrsa hérna var frekar sjokkerandi svo ég treysti mér ekki í blogg beint eftir hann. Það er verið að reyna að plata okkur sem verðum hérna allt árið til að skrá okkur í prógramm þar sem við náum okkur í einhverskonar diplómu hérna á þessu eina ári, CEPE (certificat d´etudes politiques europeennes), sem er gott og blessað nema til þess að fá þessa diplómu þurfum við því sem næst að ganga á heitum kolum og bryðja gler. Mér líst ekkert á þetta, en finnst ég eiginlega verða að reyna, svo ég býst við að enn einu sinni ætli ég að hoppa út í djúpu laugina (og uppgötva í miðju hoppi að ég er hvorki með kút né kork og sigli því í ka-a-af). Hér koma svo smá leiðindasmáatriði en þetta verður að fylgja með.
Í fyrsta lagi var okkur sagt að í þessum háskóla skiptir engu máli hvort þú ert Frakki eða úlli, allir taka sömu próf og skila sömu verkefnum, og ef stafsetningin þín er eins og hjá 5 ára krakka (á góðum degi) getur þú bara hunskast aftur á kisudeild þar sem þú átt heima og reynt að lita ekki út fyrir línurnar. Gúlp.
Í öðru lagi þarf ég að ná 60 evrópueiningum (30 íslenskum) til að fá þessa CEPE gráðu. Það er fullkomlega gerlegt á tungumáli sem er ekki bara bull. Því miður er franska ekki eitt af þeim. 40 eininganna þarf ég að taka í kúrsum, 10 í einhvers konar málstofu með fullt af verkefnavinnu og veseni og 10 fæ ég svo fyrir að taka þátt í einhvers konar Evrópuviku eftir áramót og skila verkefni um það. Hver kúrs er yfirleitt ekki nema 2,5 einingar (1,25 íslenskar!!!) sem þýðir að ég þarf að taka 8 kúrsa á hvorri önn til að ná kvótanum. (Stærri kúrsana er ég annaðhvort búin að taka heima eða eru bara ekki nærri eins áhugaverðir og þeir litlu.) Gúlp.
Veit ekki alveg hvað ég geri í þessu, kúrsarnir byrja á mánudaginn, sjáum hvað setur...
Í öðrum fréttum þá hýsum við yfir helgina írskan fyrrverandi kærasta Mathilde, og við erum sammála um að hann er gjörsamlega óalandi og óferjandi. Hann fer á mánudaginn og verði Suður-Frakklandi að góðu:
Við fórum í partí í gærkvöldi til Diego og Johnny en ég stoppaði stutt þar sem mér fannst ekkert voðalega skemmtilegt... Ég er kannski ofurskiptinemi en ofurkraftar mínir nægja ekki alltaf til að finnast hinir erasmusarnir fyndnir. Það var enginn spegill í íbúðinni þar sem partíið var svo ég brá á það ráð á baðherberginu að taka af mér mynd til að athuga hvort allt væri ennþá þar sem ég skildi við það. Ég glansa án afláts í þessu landi:

Í dag var ég svo í tólf tíma skoðunarferð um Alsace-hérað, sem var mjög skemmtileg. Við lærðum undirstöðuatriðin í vínsmökkun klukkan 10 fyrir hádegi, mjög hressandi (sérstaklega fyrir þann hluta hópsins sem var skelþunnur eftir partíið kvöldið áður):
Við fórum til Obernai:
Skoðuðum kastalann Chateau du Haut Koeningsbourg, sem er nær ómögulegt að mynda því hann er risavaxinn (þar fann ég könguló skríðandi niður úr hárinu á mér í miðri skoðunarferð og fór að hoppa og skrækja, leiðsögukonunni til lítillar gleði, en samferðamönnum mínum til þess meiri):
Svo enduðum við á að heimsækja Colmar, en vorum þá svo endanlega búin á því að við sáum eiginlega bara eitt stykki torg og eitt kaffihús:
Rosalega gaman að vita orðið aðeins hvað er í nágrenninu, allar borgir og þorp sem við sáum voru mjög sjarmerandi, og vínakrarnir flutu í vínberjaklösum, mjög fallegt að sjá.
Svo tók við smá dramatík þegar við komum aftur til Strasbourg. Ég þurfti að hlaupa út úr rútunni til að ná að fara í matarbúð áður en allt lokaði kirfilega fram á mánudagsmorgun, en á leiðinni varð mér svo illt í maganum að ég var farin að halda að mér hefði vaxið fyrir kraftaverk nýr botnlangi sem hefði tekið upp á að springa. Ég komst loksins í búðina en var þá hætt að geta rétt úr mér og varð að versla hokin eins og vesalingur, og setjast á gólfið til að bíða í röðinni að kassanum. Ég var orðin sveitt og ísköld og titrandi eins og bjáni, og var farin að reyna að muna hvernig maður segir "sjúkrabíll" á frönsku því ég hélt það myndi einfaldlega líða yfir mig þarna á gólfinu. Einhvern veginn náði ég samt að borga og hypja mig af stað heim, og komst um það bil hálfa leið áður en mér varð svo illt að ég settist á gangstéttina til að deyja. Um það bil mínútu seinna batnaði mér. Alveg. Ekki einu sinni pínu illt. Hið undarlegasta mál. Ákvað samt að halda mig bara heima í kvöld, ef maginn á mér skyldi reyna annað valdarán. Hér eru svo fleiri myndir af handahófi síðan í gærkvöldi, og í dag:

Engin ummæli: