Það hringdi maður í franska símann minn í gær. Franskur maður. Hann spurði mjög kurteislega hvort það væri ég sem væri með mynd af mér á netinu. Ég sagðist ekkert vita hvað hann væri að tala um, það eru náttúrulega myndir útum allt, á msn-inu, skype-inu, blogginu mínu, myspace, svo það gat svosem alveg verið ég. Ég reyndi að fá hann til að segja mér hvaða síðu hann væri að tala um og hvar hann hefði fengið símann minn. Það kom þá upp úr kafinu að hann hafði fengið símann minn á sömu síðu og nektarmyndirnar af mér (!) en hann vildi ekki segja mér hvaða síða þar væri nákvæmlega. Ég reyndi að sannfæra hann um að það væri ekki ég á þessum dónamyndum, hver svo sem síðan væri, en hann neitaði að trúa mér, ég varð á endanum að sækja Mathilde sem vitni um mannorð mitt, og hún lofaði honum því að ég væri ekki klámfyrirsæta. Hann trúði henni svona mátulega. Skemmtilegt.
Skólinn virðist ágætur, svona fyrir utan það að ég skil ekki hvað kennararnir segja. Skil samt meira en ég átti vona á, hélt ég gæti ekkert glósað en ég get það alveg. Það er samt á íslensku og oftast eitthvað á þessa leið: ,,Það gerðist eitthvað merkilegt í Amsterdam 1984. Þetta merkilega skipti máli því eitthvað var að minnka einhversstaðar. Það var beint samband á milli þessa einhvers og einhvers annars. París. Samningur. Regnhlíf?" Svo þær eru ekki mjög gagnlegar, en ég ákvað að venja mig samt á að glósa, allt sem ég náði að grípa. Næst er að byrja að glósa á frönsku... (Ég glósa á íslensku ennþá því ég vil ekki að sætu strákarnir í kringum mig sjái hvað ég er að bulla mikið). Ég er þessa vikuna upptekin við að mæta í alla kúrsa sem ég get til að reyna að ákveða hvaða kennara ég skil skást og hvað ég á að skrá mig í. Í gær var ég þess vegna í skólanum samfleytt frá 8 til 20 og fór í sex kúrsa. Aðeins skárri dagskrá í dag, mætti í morgun en fékk svo 4ra tíma eyðu, þarf síðan að sitja kúrsa frá 14 til 20 á eftir.
Ég er búin að ákveða að taka kúrsana "Kyn og stjórnmál" og "Þróun Evrópusamrunans síðustu 20 árin" en meira veit ég ekki eins og er, þetta er næstum allt sama kínverskan fyrir mér!
Ég var mjög kvíðin í gærmorgun áður en ég mætti í fyrsta tímann. Ég tók þess vegna stelpuna á þetta og hlustaði á sándtrekkið úr Center Stage og annað stelpustyrkjandi ( sjá hræðilegt dæmi) alla leið í skólann, hálftíma labb, að reyna að taka sjálfa mig á sálfræðinni. Ég var orðin full sjálfstrausts (og dramatíkur) þegar ég kom í skólann, en þegar ég var á leiðinni inn datt ég næstum á rassinn á sleipu holræsaloki og þurfti að taka tvöfalt splittstökk og pírúett til að bjarga mér (eins gott að ég var búin að vera að hlusta á Center Stage og var tilbúin!). Það hefði ekki getað verið minna töff og ég varð aftur að lúða. Ah...
Já, og að lokum, skemmtileg staðreynd um eina þýsku stelpuna. Hún á kærasta heima í Þýskalandi og þorir þess vegna ekki á dansnámskeið með okkur, hún heldur því nefnilega fram að ef hún horfi í augun á öðrum karlmanni heilan dans þá komist hún ekki hjá því að verða ástfangin af honum og þá sé þetta búið hjá henni og kærastanum. Ég hélt að Doris, kólumbíski salsadansarinn, myndi aldrei ná andanum aftur fyrir hlátri.
þriðjudagur, september 26, 2006
Unnur does Dallas
Birt af Unnur kl. 10:26
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli