Ég fékk tölvupóst í dag frá ungum Spánverja að nafni Diego sem sagðist vera að koma til Strasbourg í dag sem Erasmus og bauð hinum skiptinemunum að hitta sig á barnum Perestroika í kvöld. Ég varð yfir mig spennt þar sem ég er búin að vera í hálfgerðri félagslegri einangrun, að frátalinni aumingja Mathilde sem hefur verið mitt eina samband við raunveruleikann í viku. Ég gat náttúrulega ekki farið án hennar svo ég dressaði skvísuna upp og dró hana með. Þegar á staðinn kom hittum við þar fyrir Diego auðvitað, og Ryan frá Englandi, og seinna bættust í hópinn Doris og Sebastian frá Kólumbíu og Marianne frá Þýskalandi. Þrjú síðastnefndu hafa ekki enn fundið sér íbúðir hér og gista á rándýrum hótelum, svo ég gerði mér enn og aftur grein fyrir því hversu heppin ég er að hafa fundið Matthildirnar mínar. Hinir skiptinemarnir voru líka mjög ánægðir með þessa einu sem ég kom með með mér, og spurðu hana endalaust út í borgina og hvar hitt og þetta væri, mér fannst ég virkilega lánsöm að gera svo tekið hana heim með mér þegar leiðir skildust. Það er algjör lúxus að búa með Frakka! Ég var samt orðin mjög ringluð því við töluðum öll ensku, frönsku og spænsku í bland, ég svaraði frönskum spurningum á spænsku og spænskum á ensku, og fór svo til franska barþjónsins og pantaði á spænsku, sem hann skildi ekki þessi elska en ég náði að rugla hann nóg til að hann svaraði Marianne sem pantaði næst á frönsku, á spænsku. Við vorum öll orðin mjög ringluð á þessu öllu saman og ákváðum að segja það gott í bili. Það var líka gerður samningur, frá og með mánudeginum, þegar við byrjum á frönskunámskeiðinu, verður bara töluð franska. Ég þarf varla að taka það fram að ég er lélegust í frönsku í hópnum. En það er allt í lagi, skildi svosem það sem þau voru að segja, gat bara ekki svarað neinu...
laugardagur, september 09, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli