laugardagur, desember 09, 2006

Jólalúffa

Þá er farið að styttast verulega í blessuð jólin, og ennþá meira í að ég fari heim í jólafrí. Ég er ótrúlega fegin að hafa ákveðið að vera tvær annir úti en ekki bara eina, því mér finnst franskan mín rétt vera að byrja að ná sér á strik núna og get ekki beðið eftir að klára þessi hræðilegu hræðilegu próf sem eru framundan og tækla næstu önn almennilega. Ég er að verða nokkuð viss um að ég nái ekki mörgum prófum á þessarri önn, en ég reyni að minna mig á það reglulega að markmiðið var fyrst og fremst að læra málið, bara svona svo ég fái ekki taugaáfall.
Annars bjargaði það því sem bjargað varð af geðheilsunni að Silja Bára var í bænum í vikunni, og við brölluðum heilmikið saman. Bræddum glös, potuðum í jólakúk, átum, drukkum og vorum glaðar. Ég fann á ferðum okkar bæði kotasælu og brún hrísgrjón sem ég er búin að leita að síðan ég kom, og tókst að gráta af hlátri nokkrum sinnum sem hefur sennilega ekki gerst síðan ég yfirgaf klakann. (Ekki að Frakkar séu ekki fyndnir, ég er bara of vitlaus til að skilja húmorinn þeirra ennþá. Eða svo segja þeir mér.) Konan er náttúrulega snillingur, suma eru bara forréttindi að þekkja. Jólin eru að gera mig meyra. Og pínu þunna... Ekki meiri jólabjór fyrir mig!
Nú er svo komið á hreint að ég fer austur á Bakkafjörð 22. des og kem aftur 28. des, svo þá er hægt að fara að skipuleggja dvölina heima aðeins betur. Ég er ofsa glöð að við ætlum austur, ég er hreinlega ekki viss um að jólin komi nema ég sofi með hausinn inní jólatrénu og vakni við að það sé hundur að pota í mig köldum nebbanum (eða við það að ég hreyfi mig í svefni og brjóti nokkrar jólakúlur, en ég vil ekki ræða það...).
Annars er ég ennþá bara að rembast við að skrifa JFK ritgerðina mína. Njótið helgarinnar!


Engin ummæli: