mánudagur, desember 11, 2006

Snæfinnur vs. Rocky Jr.

Ég var að rölta heim úr miðbænum á sunnudaginn þegar ég sá krúttlegan lítinn strák sem ég held að sé andlega skyldur mér. Hann stóð beint fyrir framan ótrúlega pirrandi snjókarlinn hérna fyrir neðan sem syngur falskt Jingle Bells stanslaust alla daga. Án þess að stoppa. Nokkurn tíma. Óþolandi snjókarlsgerpi. Eníhú, strákurinn horfði í augun á snjókarlinum í smástund, væntanlega að reyna að fá hann með hugarorkunni til að hætta þessu gauli. Svo kreppti hann hnefana einbeittur, dró þá upp að höku eins og boxara er siður, og náði Snæfinni með öflugum hægri krók. Svo leit hann á mig, og ég á hann, og við skildum hvort annað. Jább. Þarf að taka hann með mér til Íslands til að lækka aðeins rostann í Tomma tómati.
Annars hlýtur að vera erfitt að vera hjálpsamur Frakki í Strasbourg með alla þessa útlendinga á vappi, við skiljum ekki neitt. Í dag var ég að hjóla heim úr skólanum og var stopp á umferðarljósum. Í bílnum við hliðina á mér voru tveir strákar um tvítugt, sem skrúfuðu niður rúðuna og fóru að benda eitthvað á hjólið mitt. Ég skildi ekkert hvað þeir voru að segja nema "Þú verður að passa þig á...". Á hverju? Hvað er að hjólinu mínu? Hversu hættulegt er það?? Hjálp! Svo skildi ég að þeir voru að segja mér að það hefði eitthvað með sætið að gera og enn sá ég ekki vandamálið, sama hvað ég kíkti á hnakkinn. Þá gripu þeir til handapats og táknmáls sem reynist oft gagnlegt í samskiptum við heimska útlendinga. Þá loksins skildi ég að það sem þeir höfðu svona miklar áhyggjur af þessar elskur og vildu vara mig við var að ég fengi frekar oddmjóan hnakkinn uppí pjölluna á mér. Hvar væri kona eiginlega ef ekki væri fyrir hjálpsama heimamenn til að leiðbeina henni og ráðleggja?

Engin ummæli: