þriðjudagur, október 03, 2006

Mér finnst rigningin blaut

Hin Matthildurin er mætt á svæðið ásamt Jacob, og nú er húsið fullt af fólki! Þau búa tvö í einu herbergi (bara á meðan hann bíður eftir að fá lyklana að sinni íbúð) og hin Matthildur er búin að ná sér í strák sem býr fyrir utan borgina og gistir þess vegna mikið hérna á virkum dögum til að vera nær skólanum. Mér finnst þetta ágætt, fólk útum allt og fullt að gerast.
Í gærkvöldi eldaði nýja Mathilde kvöldmat handa öllu liðinu, böku með salati í aðalrétt og súkkulaði-fondú með perum í eftirrétt, það var hrikalega gott! Ég kann vel við drykkjuvenjur Frakka, við vorum fimm um eina rauðvínsflösku, drukkum öll en náðum samt ekki að klára hana. Mjög mátulegt fyrir mig.
Þessi nýja Mathilde er mjög indæl, og talar bara frönsku við mig, sem er mjög gott. Ég lofaði henni því að verða skemmtileg eftir kannski eins og tvo mánuði, því núna get ég með naumindum komið frá mér nauðsynlegum upplýsingum, hvað þá verið fyndin og sniðug.
Það er eins og alltaf þegar ég reyni að fara eitthvert með Jacob þá byrjar syndaflóð, í morgun röltum við saman í skólann og drukknuðum næstum, og nú er ég heima því ég varð að fara í sturtu og skipta um föt milli tíma, var algjörlega frosin í blautum fötum í fyrsta tímanum. Mig vantar hjól! Og pollagalla!
Síðast en ekki síst, þá ætlar fjölskyldan mín að heimsækja mig eftir þrjár vikur! Jei! Verður ofsa gaman að tala smá íslensku og skoða sig aðeins um, og knúsa liðið dálítið. Vildi að þau gætu tekið köttinn með... Einn vinur minn hérna á kött og ég fór næstum að gráta þegar ég sá hann, og lék við hann allan tímann sem ég var í heimsókn (meira þannig að hann sat á mér og borðaði á mér hárið...)(kötturinn, ekki vinur minn). Hann bauðst til að lána mér hann í nokkrar vikur en fyrri Mathilde er illa við öll dýr, svo það er ekki í spilunum.
Merkilegast af öllu fyrir mig er samt að í dag byrjuðum við Jacob að tala frönsku saman! Ég er dugleg! Snarhætti auðvitað að vera skemmtileg en það verður bara að hafa það.
Ég er farin út að fjárfesta í regnhlíf áður en næsti tími byrjar!

Engin ummæli: