miðvikudagur, október 04, 2006

Hitt og þetta (aðallega hitt)

-Á mínu heimili búa saman þrjár ungar og smekklegar stúlkur. Þess vegna finnst mér ótrúlega fyndið að í dag hafi verið keypt bók, sérstaklega með starfsheitið "klósettbók". Hún bætist við klámið sem er þar nú þegar, og bleikasta klósettpappírsfjall sem ég hef séð, og gerir klósettið okkar ennþá undarlegra. Rétt áðan tók ég í handfangið á klósetthurðinni og hún var læst, en fljótlega opnar hana úrill Matthildur í náttfötum með hárið allt út í loftið og hvæsir: "Hvað?? Ég er að lesa!" Ég pissaði næstum á mig af hlátri (það hjálpaði að ég var í spreng, þess vegna var ég jú að reyna að komast á klóið).
-Í dag blandaði Mathilde 1 (komin með kerfi á þetta sko) saman hráefnum sem ég hélt að mættu aldrei aldrei hittast, henti því inn í ofn og kallaði óskapnaðinn "köku". "Kakan" var borin fram með salati og höfð í kvöldmat. Hún reyndist ljúffeng. Helstu hráefni (en ekki öll því ég gleymi hlutum jafnóðum og mér eru sagðir þeir) eru gráðostur, epli og furuhnetur.
-Í gær var mér boðið í kínverskan mat sem var líka ljúffengur, en mér varð ofsalega illt í maganum af honum. Og þá var klósettbókin góða ekki komin í hús.
-Þegar ég var að labba heim úr matarboðinu varð ég að snúa við og taka á mig stóran krók til að forðast gangstéttina sem áin hafði flætt yfir. Það var semsagt í alvöru pínu rigning í gær.
-Að síðustu eru hér myndir af skiltinu góða sem ég lofaði að setja inn fyrir margt löngu síðan. Þetta er ekki allt skiltið, bara minn hluti af því, enda er ég óttalega sjálfhverf:

Engin ummæli: