Próftarnir eru líkar stríði að því leyti að mitt í öllum viðbjóðnum eru oft gerðar merkilegar uppgötvanir. Dánartíðnin er hinsvegar töluvert hærri í stríðum, en þá er andlegur dauði ekki talinn með auðvitað. Uppgötvun vorprófa 2006 er: BSÍ kaffi!!! Það er kleinubragð af því! Er hægt að biðja um eitthvað meira, fyrir utan hvað það er skemmtilega þjóðlegt? Ég er orðin algerlega háð því, fékk ekkert í gær og endaði í titrandi fráhvarfi, og þá kom nú hin fíknin mín sér vel: XA radíó 88,5. Jább, ég er orðin gjörsamlega háð útvarpsstöð AA-samtakanna, sem kom mér í gegnum mesta fráhvarfið í bílnum á leiðinni heim úr skólanum í gær. Ég viðurkenndi með tárin í augunum að BSÍ kaffi hefur þau áhrif á mig að það breytir því hvernig ég upplifi heiminn, ég er valdalaus gagnvart því og er núna að vinna í listanum mínum yfir þá sem ég þarf að biðja afsökunar á því að hafa traðkað á þeim á leið minni á BSÍ. Batnandi fólki er víst best að lifa...
PS. Mömmu minni finnst þessi húmor ekki sniðugur. Fyrirgefðu mamma mín, ég er að reyna að hætta...
fimmtudagur, maí 04, 2006
Stríð vs. próf
Birt af Unnur kl. 18:39
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli