föstudagur, maí 11, 2007

Leggur ekkert inn, tekur bara ú-út

Í gær bjargaði Youtube heiðri Eiríks Haukssonar meðal stjórnmálafræðinema í Strasbourg. Þegar allir í júróteitinu voru orðnir sannfærðir um það að íslenska lukkutröllið væri skelfilegasta tímaskekkja sem þau höfðu séð lengi (þetta var að sjálfsögðu áður en þau sáu tékknesku hár-rokkarana), þá skellti ég mér á Youtube og sýndi þeim Gleðibankann góða. Eftir það urðu þau öll að viðurkenna að maðurinn væri töffari af Guðs náð, enda engin leið að deila um það þegar svona sönnunargögn liggja fyrir. (Allar umræður um Eirík rauða gleymdust svo um leið og Austurríkismenn stigu á svið. Teitisgestir kunnu almennt ekki að meta þann gjörning, en mér hinsvegar fannst risa-pjallan þeirra, sem breyttist í eyðnis-borðann þegar fjórir rauðir menn með sundhettur og glimmer skriðu útúr henni, mjög merkileg.)
Fyrir júrópartýið fór ég í mitt fyrsta próf og það gekk bara alveg sæmilega, alveg þangað til að prófinu var lokið og kennarinn kom til mín að spjalla og var svo óvænt indæll að ég fór að skæla. Þá varð hann ennþá indælli svo ég átti engra kosta völ annarra en að flýja vettvanginn, áður en ég færi hreinlega að væla með látum. Gott að vita að maður er í góðu jafnvægi í prófunum... (Ég get annars alveg þolað það að fólk sé indælt, bara ekki svona óvænt sjáið til. Það verður að gefa manni smá viðvörun og aðlögunartíma. Þýðir ekki að vera strangur og ógnvekjandi heilan vetur og svissa svo bara beint í power-knúsin! Jú sí..? Jú sí.)
Annars er allt eins og blómstrið eina. (Ef blómstur eru nett sjúskaðir stressboltar sem skæla when knúsd. Annars er allt eins og eitthvað allt annað.)

Engin ummæli: