fimmtudagur, desember 29, 2005

Dumbldórsputtinn

Ég á nokkur hefðbundin hlutverk í jólaundirbúningnum í sveitinni, og eitt af þeim er að lita makkann á henni ömmu minni. Botna ekkert í því hvers vegna það kom upphaflega í minn hlut þar sem ég hef aldrei litað svo mikið sem mitt eigið hár, hvað þá annarra, en svona er þetta. Í ár ákvað ég að láta ekki staðar numið við hárið heldur reyna hæfileika mína víðar. Og litaði löngutöng hægri handar kolbikasvarta. Mjög smart. Ég sat svo uppi með það að vera eins og Dumbldór prófessor öll jólin, með hönd sem leit út fyrir að vera hálfbrunnin til kaldra kola. En hárið á ömmu var allavega ofsa fínt, svo ég fæ vonandi að halda starfinu næstu jól. Vona bara að ég fái að halda höndinni líka, þetta er reyndar bara sú hægri sem ég nota ekkert mikið, rétt til að styðja við hluti og gefa fimm og svona, en maður veit aldrei hvenær maður gæti lent í harmónikkuspilsneyðartilfelli eða eitthvað.
Ég hef annars tekið uppá því þessi jólin að vakna alltaf um fimmleytið á morgnana og sofna ekki aftur sama hvað ég reyni. Þetta er ákaflega hressandi og hefur leitt til mikils bókalesturs, prjónaskapar og ég er að verða búin að hlusta á allan Góða dátann Svejk á geisladiskum. Elsku, elsku Gísli Halldórsson. En nú er ég semsagt mætt í vinnuna á ný, fersk og brakandi. Komið og kaupið eitthvað fallegt hjá mér.

Engin ummæli: